Jörðin Saurbær í Eyjafjarðarsveit

Miðvikudaginn 09. nóvember 2005, kl. 18:17:20 (1294)


132. löggjafarþing — 18. fundur,  9. nóv. 2005.

Jörðin Saurbær í Eyjafjarðarsveit.

108. mál
[18:17]
Hlusta

landbúnaðarráðherra (Guðni Ágústsson) (F):

Hæstv. forseti. Hvað varðar spurningu hv. þingmanns þá vil ég hér í stuttu máli fara yfir málefni Saurbæjar, hvernig þau hafa þróast frá því að síðasti ábúandi jarðarinnar sagði upp ábúð sinni í mars árið 2000.

1. Skógræktarfélag Eyjafjarðar óskaði eftir að leigja óræktað land jarðarinnar strax.

2. Landbúnaðarráðuneytið leitaði umsagnar sveitarstjórnar og jarðanefndar um ráðstöfun Saurbæjar til að fá upp óskir heimamanna.

3. Ríkiskaupum var falið að verðmeta Saurbæ og barst matsskýrsla þeirra sumarið 2001. Þar var áætlað söluverðmæti Saurbæjar talið rúmar 19 millj. kr.

4. Sveitarstjórn Eyjafjarðarsveitar sendi landbúnaðarráðuneytinu ályktun í mars 2002 þar sem skorað var á landbúnaðarráðherra að Skógræktarfélag Eyjafjarðar fengi Saurbæ til eignar án endurgjalds og að sú kvöð skyldi fylgja að m.a. eignir og ræktunarlönd gengju til þriðja aðila.

5. Haustið 2002 var þinglýst landskiptum á jörðinni og var tilgangur þess sá að gera leigusamning við skógræktarfélagið.

6. Síðar sama ár barst bréf frá sveitarstjórn Eyjafjarðarsveitar þar sem leitað var eftir stuðningi landbúnaðarráðuneytisins við hugmyndir sveitarstjórnarinnar, Þjóðminjasafnsins o.fl. um framtíð jarðarinnar og einnig barst afrit af bréfi sveitarstjórnar til fjárlaganefndar Alþingis um að ekki skyldi vera heimilt að selja hluta Saurbæjar. Enn fremur var þar óskað eftir að ríkissjóður kostaði niðurrif þeirra bygginga sem tilheyrt hafa búrekstri á jörðinni og húsin talin ónýt. Umræddar hugmyndir ganga út á að bæjarhúsin í Saurbæ beri gömlu torfkirkjuna á staðnum ofurliði og til greina komi að útbúa látlaus hús í stað bæjarhússins sem gefi til kynna hógværar byggingar þess tíma.

Staða þessa máls er þannig nú að gerður hefur verið leigusamningur við Skógræktarfélag Eyjafjarðar um það land sem skipt var út úr jörðinni. Átti ég mjög hátíðlega stund með Skógræktarfélagi Eyjafjarðar og var það afmælishátíð og mjög skemmtilegt í Kjarnaskógi á fallegum degi sumarsins.

Einnig er rétt að geta þess að landbúnaðarráðuneytið og menntamálaráðuneytið hafa unnið saman að því að gera tillögur um Saurbæ. Fóru m.a. starfsmenn ráðuneytanna tveggja norður snemma á þessu ári og fóru yfir málið með sveitarstjórn Eyjafjarðarsveitar og fleiri heimamönnum. Við það tækifæri var farið yfir hvar hugsanlegar fornminjar væru staðsettar umhverfis bæjarhúsin og sú landspilda hnitasett. Gamla torfkirkjan er á forræði Þjóðminjasafnsins og fyrir liggur m.a. álit húsafriðunarnefndar um að ekki þurfi að friða aðrar byggingar á bæjarhlaðinu. Niðurstaða er komin í það mál.

Í tilefni af spurningu hv. þingmanns og svo þeirrar óskar sveitarfélagsins að ríkisjörðin Saurbær verði afhent án endurgjalds þá vil ég undirstrika að ég gef ekki eignir ríkisins og hef í rauninni engar heimildir til þess og yrði sennilega harkalega gagnrýndur fyrir það. Ég hef oftar en ekki verið harkalega gagnrýndur fyrir það að jarðir í eigu ríkisins séu seldar of ódýrt og ekki síst af flokkssystkinum hv. þingmanns. Gildir einu þótt málefnið kunni að vera gott, reglurnar eru skýrar sem settar hafa verið um þessi efni í landbúnaðarráðuneytinu.

Í ráðherratíð minni hefur verið kappkostað í landbúnaðarráðuneytinu að viðhafa samræmd vinnubrögð þegar ríkisjarðir eru seldar. Ef sveitarfélög eða ábúendur hafa viljað kaupa á grundvelli heimilda í jarðalögum þá byggir söluverðið á mati Ríkiskaupa og miðast matið við skipulagsforsendur og er eðli málsins samkvæmt langoftast um landbúnaðarforsendur að ræða. Ef jarðir eru seldar samkvæmt heimild í fjárlögum er meginreglan sú að auglýsa þær og leita eftir tilboðum. Reynist tilboðið ásættanlegt er hagstæðasta tilboði tekið.

Ég lýsi því yfir að þetta hefur tekið tíma, málið hefur verið flókið en við í landbúnaðarráðuneytinu höfum verið í góðu sambandi við sveitarstjórnina. Staða málsins er þessi: Ríkiskaup hafa metið söluverðmæti jarðarinnar og um það hefur verið rætt. Niðurstaða hefur ekki fengist um hvað sveitarstjórnin vill gera og hvort hún vilji borga þessa upphæð. Spurningin er þá sú: Getur landbúnaðarráðherra nokkuð annað en selt samkvæmt því mati sem Ríkiskaup hafa gert? Stundum eru athugasemdir teknar til greina (Forseti hringir.) og sveitarstjórninni er velkomin hvenær sem er í þau góðu samskipti (Forseti hringir.) sem hún hefur átt við mig og ráðuneyti mitt.