Ummæli forsætisráðherra um öryggis- og varnarmál

Mánudaginn 14. nóvember 2005, kl. 15:21:18 (1443)


132. löggjafarþing — 20. fundur,  14. nóv. 2005.

Ummæli forsætisráðherra um öryggis- og varnarmál.

[15:21]
Hlusta

Jón Gunnarsson (Sf):

Frú forseti. Í umræðunni áðan var minnst á utandagskrárumræðu sem sá sem hér stendur hefur óskað eftir að eiga við hæstv. utanríkisráðherra, einmitt um það mál sem við erum með hér til umræðu. Og ég er í sjálfu sér feginn því að það kom hér upp því að það er alveg full ástæða til að ræða það. Þetta er í annað skipti sem ég bið um utandagskrárumræðu á einu og hálfu ári þar sem ég vil ræða þetta málefni og þeim beiðnum hefur í raun og veru ekki verið svarað með öðru en að tefja það að umræðan geti farið fram.

Við höfum lent í því áður. Ég bað um þessa utandagskrárumræðu sem hér um ræðir 20. október, fyrir tæpum mánuði, og okkur hefur ekki tekist að eiga hana hér úr þessum stól þannig að það er full ástæða til að fara í þetta mál með þeim hætti sem hér er verið að gera.

Þetta er orðinn langur tími í óvissu. Bókunin frá 1996 rann út árið 2001. Síðan hefur í raun ekki verið í gildi ný bókun eða tekist að ná samkomulagi um framkvæmd varnarsamningsins og það er orðinn langur tími, sérstaklega þegar við horfum til svæðis eins og á Suðurnesjum þar sem yfir 700 starfsmenn eiga í dag lifibrauð sitt undir því sem þarna fer fram — og hefur samt orðið veruleg fækkun meðal þeirra sem þarna vinna.

Samdráttarskeiðið á flugvellinum hefur nefnilega staðið lengi. Það hefur staðið einhliða samkvæmt ákvörðun Bandaríkjastjórnar. Íslensk stjórnvöld virðast ekki telja það hlutverk sitt að reyna að eyða óvissu um þann samdrátt sem þarna á sér stað og semja þá um með hvaða hætti hann yrði ef til kæmi. Fréttir höfum við nánast eingöngu heyrt úr fjölmiðlum varðandi þetta mál því að menn hafa ekki, eins og ég sagði í upphafi ræðu minnar, viljað ræða þetta beint í utandagskrárumræðum sem beðið er um með þeim fyrirvara sem farið er fram á.