Skólagjöld við opinbera háskóla

Mánudaginn 14. nóvember 2005, kl. 15:49:54 (1452)


132. löggjafarþing — 20. fundur,  14. nóv. 2005.

Skólagjöld við opinbera háskóla.

[15:49]
Hlusta

Sigurður Kári Kristjánsson (S):

Frú forseti. Ég vil byrja á því að þakka þessa umræðu þrátt fyrir að hún hafi nú verið hálffurðuleg á köflum. En það er ljóst að málshefjandi getur andað rólega vegna þess að hér hefur komið fram yfirlýsing um að það sé ekki á dagskrá ríkisstjórnarinnar að taka upp skólagjöld við opinberu háskólana.

Ég verð að segja það fyrir mig, svo að ég tali nú skýrt, að ég hef þrátt fyrir það aldrei verið hræddur við að segja þá skoðun mína að ég er frekar hlynntur því að það verði a.m.k. skoðað að taka upp skólagjöld á háskólastigi, sérstaklega í framhaldsnámi, séu þau lánshæf. Í umræðum um skólagjöld hef ég nefnt ýmis rök fyrir þeirri gjaldtöku. Slík gjaldtaka felur ekki í sér skerðingu á jafnrétti til náms vegna þess að gjöldin yrðu lánshæf. Hún eykur kostnaðarvitund nemenda og er fjárfesting fyrir þjóðfélagið en ekki síst fyrir þann sem aflar sér menntunar. Og maður hlýtur að spyrja sig í ljósi þess: Er ekki eðlilegt að sá sem er að fjárfesta í sinni framtíð og sínum framtíðartekjumöguleikum taki meiri þátt í fjármögnun námsins en almenningur? Það má líka færa rök fyrir því að skólagjöld dragi úr brottfalli og fleiri rök má tína til.

Það er ekki hægt að segja það um Samfylkinguna í þessari umræðu að hún sé sérstaklega heiðarleg. Hér koma menn, eins og málshefjandi, eins og hvítþvegnir englar og tala eins og Samfylkingin hafi aldrei viljað taka upp skólagjöld. Ég er hérna með viðtal við formann Samfylkingarinnar sem birtist í Viðskiptablaðinu 15. október 2004. Þar segir, með leyfi forseta:

„Mér finnst skólagjöld á háskólastigi alveg geta komið til álita.“

Þar segir jafnframt, með leyfi forseta:

„En ég sé engin sanngirnisrök fyrir því að fólk borgi verulegar fjárhæðir fyrir fullorðinsfræðslu og fyrir börn á leikskólum en ekkert fyrir aðgang að háskólum.“

Þetta segir formaður Samfylkingarinnar sem spurði hér í umræðu áðan: Tala menn ekkert saman á ríkisstjórnarheimilinu? Ég hlýt þá að spyrja: Tala þingmenn (Forseti hringir.) Samfylkingarinnar ekki saman? (Forseti hringir.) Málflutningur þeirra er allur út og suður í þessu máli og hefur verið það svo árum skiptir.