Vatnalög

Mánudaginn 14. nóvember 2005, kl. 18:35:30 (1495)


132. löggjafarþing — 20. fundur,  14. nóv. 2005.

Vatnalög.

268. mál
[18:35]
Hlusta

Sigurður Kári Kristjánsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Því verður nú ekki logið upp á gömlu kommana í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði að þeir séu ekki samkvæmir sjálfum sér. Þeir bregðast ekki aðdáendum sínum.

Hvað var hv. þm. Ögmundur Jónasson að segja hér? Hann var að segja að það eigi að þjóðnýta auðlindina. Þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs eru þjóðnýtingarsinnar. Þeir vilja afnema séreignarréttinn og þjóðnýta þessar auðlindir. Þetta er gamli sósíalisminn sem komið hefur upp á yfirborðið núna hjá Vinstri hreyfingunni – grænu framboði. En ég hrósa þeim fyrir að vera bara samkvæmir sjálfum sér. Við vitum þá hvar þeir standa.

Þetta er kjarninn í ágreiningnum milli okkar og gömlu kommana í VG. Við teljum að séreignarfyrirkomulagið á náttúrauðlindum hafi hvar sem er skilað meiri afrakstri, betri umgengni og betri afkomu fyrir fólkið og þjóðirnar þar sem nýtingin fer fram.

Mig langar til þess að biðja hv. þm. Ögmund Jónasson að benda mér á það hvar í víðri veröld þjóðnýtingarstefna sú sem hann er hér að presentera hafi gefist betur en séreignarfyrirkomulagið, hvar í víðri veröld. Ég get nú tekið dæmi þar sem þjóðnýtingin hefur orðið undir í samanburðinum við séreignarfyrirkomulagið. Við getum borið saman afrakstur af olíuvinnslu úr Mexíkóflóa, annars vegar í Mexíkó og hins vegar í Texas. Báðar þjóðirnar sækja í sömu olíulindina. Og hvar er afraksturinn meiri? Mexíkanar sem þjóðnýta sínar olíulindir lepja dauðann úr skel en það drýpur smjör af hverju strái í Texas. Samt sem áður er verið að dæla upp úr sömu olíulindinni.

Af hverju skyldi þetta vera? (Forseti hringir.) Það er vegna þess að sú stefna sem hv. þm. Ögmundur Jónasson er að tala hér fyrir er (Forseti hringir.) algjörlega handónýt.