Vatnalög

Mánudaginn 14. nóvember 2005, kl. 18:37:51 (1496)


132. löggjafarþing — 20. fundur,  14. nóv. 2005.

Vatnalög.

268. mál
[18:37]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég efast ekkert um að margir séu sælir og vel smurðir í Texas, ekki síst þeir sem eiga olíulindirnar. En ég er ansi hræddur um að það eigi ekki við um alla íbúa þess ríkis og ekki heldur í Bandaríkjunum.

Hér erum við farin að tala um málin alveg eftir þeim hreinu línum sem ríkisstjórnin greinilega hugsar þessi mál, annars vegar hvort vatnið eigi að teljast til almannaréttinda og til sameignar íslensku þjóðarinnar, til samfélagsins, heyra samfélaginu til, eða hvort við erum að festa í sessi eignarréttarákvæðin, einkahagsmunina. Ég get upplýst hv. þingmann um að einkavæðing á vatninu, neysluvatninu hefur yfirleitt gefist mjög illa. Ég get nefnt fjölmörg dæmi um þetta. Ég get nefnt dæmi í Bretlandi þar sem einkavæðing á vatninu hefur gefið mjög slæma raun. Fyrirtæki sem fjárfestu í vatnslindum og vatnsveitum fjárfestu líka í hótelum í Frakklandi og í vegagerð í Suður-Ameríku og þegar á þurfti að halda var fjármagninu beint þangað en vatnsveiturnar heima fyrir látnar grotna niður. Ég get nefnt Grenoble í Frakklandi þar sem eftir langvinn réttarhöld tókst að ná einkavæddum vatnsveitum aftur úr höndum fyrirtækis vegna slæmrar reynslu.

En ég get nefnt dæmi um mjög góða reynslu af samfélagslega rekinni vatnsveitu. Það eru nú bara Gvendarbrunnarnir okkar sem sjá okkur á Reykjavíkursvæðinu fyrir ágætu hreinu, tæru og góðu vatni. Það hefur gefið mjög góða reynd.