Vatnalög

Mánudaginn 14. nóvember 2005, kl. 19:25:33 (1507)


132. löggjafarþing — 20. fundur,  14. nóv. 2005.

Vatnalög.

268. mál
[19:25]
Hlusta

Sigurjón Þórðarson (Fl) (andsvar):

Frú forseti. Þetta er góð umræða um frumvarpið sem ég hefði talið að ætti að hafa farið fram í iðnaðarráðuneytinu og hjá þeim sem útbjuggu þetta frumvarp. Þessi umræða hefur að einhverju leyti farið fram í iðnaðarnefnd.

Þær eru fleiri skilgreiningarnar sem maður áttar sig ekki á og (Gripið fram í.) af mörgu að taka. Til dæmis mætti líta á skilgreiningu á orkuveri. Það er „land eða lóð, hús og önnur mannvirki til orkuvinnslu eða breytingar einnar tegundar orku í aðra“. — Breytingar einnar tegundar orku í aðra er orkuver. Maður áttar sig ekki alveg á hvað menn eru að fara með þessu. Það er sérkennilegt, þegar menn eru gerðir afturreka með þetta frumvarp, að þá geti þeir ekki í farið í gegnum þetta. Ég get ekki ímyndað mér að það sé orkuver að breyta einni tegund orku í aðra.

Það er af mörgu að taka í frumvarpinu. Ég skil í raun ekkert hvað hæstv. iðnaðarráðherra liggur á og það hefur ekki komið skýrt fram. Eina skýringin er að þetta sé eitthvert gamalt frumvarp frá nítjánhundruð og tuttugu og eitthvað. Það eru einu rökin. Ég tel að þegar hæstv. iðnaðarráðherra og umhverfisráðherra voru gerðir afturreka með frumvarpið hefðu þær átt að sjá sóma sinn í að fara í gegnum þá gagnrýni sem kom fram í iðnaðarnefnd.

Það vekur náttúrlega spurningar um hvort formaður iðnaðarnefndar, hv. þm. Birkir Jón Jónsson, hafi ekkert komið umræðunni áleiðis til ráðuneytisins. Það er náttúrlega íhugunarefni ef þar skortir á tengsl. Ég tel að hv. þingmaður ætti að (Forseti hringir.) greina okkur frá þeim samskiptum.