Vatnalög

Mánudaginn 14. nóvember 2005, kl. 20:12:38 (1519)


132. löggjafarþing — 20. fundur,  14. nóv. 2005.

Vatnalög.

268. mál
[20:12]
Hlusta

iðnaðarráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir þessa málefnalegu afstöðu. Mig langar aðeins til að koma inn á annað atriði sem hefur verið uppi og það varðar hvort það hafi verið gerðar raunverulegar breytingar á frumvarpinu frá því að það var til umfjöllunar á síðasta þingi og reyndar hefur verið sagt að þær væru litlar, svo til engar. Ég tel að það sé ekki rétt.

Ég minni t.d. á það að það var mikið fjallað um það að í frumvarpinu væri vegið að almannaréttinum. Menn tóku ýmis dæmi í fyrra í því sambandi og töldu að ekki mætti brynna hrossum eða öðrum húsdýrum og ég veit ekki hvað og hvað. Þetta var í raun rangtúlkun á frumvarpinu en hins vegar var að tillögu umhverfisráðuneytisins sett inn í texta í frumvarpinu að almannaréttur sem gilt hefði hingað til héldist óhaggaður þrátt fyrir lögfestingu frumvarpsins. Þetta tel ég að sé til að skýra það mál.

Einnig vil ég nefna, eins og margoft hefur komið fram varðandi 35. gr., að þar er kveðið á um að samráð skuli haft við umhverfisráðuneytið áður en sett verður reglugerð þar sem kveðið er á um skilyrði sem Orkustofnun má setja fyrir framkvæmdum á grundvelli 35. gr. Svo er líka breytingin sem ég fór yfir áðan og varðar umsögn Lögmannafélagsins þannig að í þó nokkrum atriðum var tekið tillit til þess sem bent hafði verið á í umræðunni á síðasta vetri.