Staða jafnréttismála

Þriðjudaginn 15. nóvember 2005, kl. 14:20:05 (1543)


132. löggjafarþing — 21. fundur,  15. nóv. 2005.

Staða jafnréttismála.

[14:20]
Hlusta

Bjarni Benediktsson (S):

Virðulegi forseti. Við á Alþingi höfum ekki látið okkar eftir liggja í baráttunni fyrir jöfnum rétti kynjanna því að vissulega er það svo að samkvæmt íslenskum lögum eru kynin jafnsett. Það er í raun og veru ekki um það deilt lengur á meðal þeirra sem fjalla um þau mál að samkvæmt lögum höfum við gert margt til að færa þessi mál til betri vegar. Hinu er þó ekki að leyna að þetta mál er áfram á dagskrá þrátt fyrir það. Krafturinn í kringum 24. október sl. sýndi það, sem og sú umræða sem hefur spunnist út frá hinum mikla fjölda sem kom saman í miðborginni á því afmæli sem þar fór fram.

Þróunin er engu að síður enn þá í rétta átt. Við sjáum að það er rétt sem frummælandi vék að, það eru sífellt fleiri konur sem ekki velkjast í vafa um kosti sína eða hæfni til þess að láta að sér kveða. Þetta kemur fram í prófkjörum í tengslum við framboð sem við höfum orðið vitni að á umliðnum vikum og það er meiri tilhneiging í atvinnulífinu til að hleypa konum að í fleiri ábyrgðarstöður en við höfum lengi séð.

Í tengslum við þessa umræðu tel ég jafnframt mikilvægt að við tökum kyn út af borðinu eins og frummælandi kom inn á og látum hæfileikana ráða. Við þurfum að koma þeim skilaboðum skýrt til skila, bæði í stjórnsýslunni, hjá opinberum stofnunum, og eins úti í atvinnulífinu að þeir sem ákveða að taka kyn fram yfir hæfileika eru að sóa hæfileikum. Þeir sóa fjármunum og þar með tækifærum fyrir íslenskt samfélag hvar sem það verður ofan á að láta hugmyndir gamalla tíma ráða á þeim tímum sem við nú lifum á. (Forseti hringir.) Það er alger tímaskekkja.