Fjáraukalög 2005

Þriðjudaginn 15. nóvember 2005, kl. 15:31:18 (1558)


132. löggjafarþing — 21. fundur,  15. nóv. 2005.

Fjáraukalög 2005.

144. mál
[15:31]
Hlusta

Guðjón A. Kristjánsson (Fl):

Hæstv. forseti. Það verður að segjast alveg eins og er að enn á ný er farið á svig við fjárreiðulög og framúrkeyrslan stefnir í 19 milljarða kr. í fjáraukalagafrumvarpinu. Í fjáraukalögum eiga aðeins að vera ófyrirséð fjárútlát en ekki kostnaður sem vel mátti vera sýnilegur við afgreiðslu fjárlaga í fyrrahaust. Mesti vandi okkar nú er mikil skuldasöfnun heimilanna samfara mikilli eyðslu og auknum viðskiptahalla. Í fjárlögum ársins 2005 var áætlað að gengisvísitalan yrði 122 stig á þessu ári en staðreyndin nú er 100 stig. Spyrja má hvort spáin nú um 115 stig sem viðmið í gengismálum fyrir árið 2006 sé líklegri til að vera rétt en fyrri spá.

Hæstv. forseti. Best væri ef gengið á íslensku krónunni lækkaði sem fyrst og lækkaði í hálfum skrefum svo komist yrði hjá kollsteypu í genginu. En því miður verður það líklegri niðurstaða með hverjum mánuðinum sem líður, vegna þess hversu gengið er ofurhátt, að við lendum í kollsteypu með þeim erfiðleikum og kaupmáttarrýrnun sem því fylgir. Það verður að segjast eins og er, hæstv. forseti, að spádómar vísustu manna, sérfræðinga í peningamálum og hagfræði hér á landi sem ríkisstjórnin hlýtur að fá ráðgjöf frá hafa varla gefið góða ráðgjöf og góða raun til þeirra ráðherra í ríkisstjórninni sem eftir hafa farið.

Hæstv. forseti. Ég held einnig að við þingmenn sem flestir studdum hækkun lánshlutfalls húsnæðislána í allt upp í 90% lán hefðum mátt treysta betur eigin hugsun og stíga ekki þau hröðu skref í hækkun lána í Íbúðarlánasjóði sem við gerðum. En þá spyr maður: En hvað með bankana sem fóru í að koma með allt upp í 100% lán? Sáu þeir enga hættu fyrir stafni með allt sitt sérfræðingalið í fjármálum eða var þeim e.t.v. alveg sama, enda mætti græða vel á þeirri þenslu sem á eftir kæmi og síðar á sterku gengi íslensku krónunnar og enn síðar á falli hennar með því að tryggja sig í verðtryggingu lána, tryggja sig í fyrsta veðrétti eigna og kaupum á erlendum gjaldeyri þegar fallið byrjaði fyrir alvöru? Er það virkilega svo að einkabönkum sé sama um þessa þróun og sveiflur, enda sjái þeir í sviptingum öllum mikil gróðatækifæri fyrir fjársterka banka og verðbréfamenn? Það er hins vegar óþægileg tilfinning þingmanns sem hvorki er innvígður í peningavaldið né hefur það sem sérstakt áhugamál að velta allan daginn vöngum yfir peningum, vaxtaprósentum eða telja peninga að upplifa það að ráðgjöf og spá sérfræðinganna er í raun aðeins orð í nútíma töluð en marklaus til að byggja á og handahófskennd vinnubrögð.

Íslendingum er mikill vandi á höndum að vera í þessari erfiðu stöðu. Úr vanda er að ráða. En ég endurtek þau orð mín áðan að ég tel miklu betra að gengishreyfingarnar niður á við hefjist sem fyrst svo það ferli sem fram undan er megi e.t.v. verða í skynsamlegum skrefum en dragist ekki til langframa þannig að fallið yrði miklu meira en jafnvel væri eðlilegt og skaði launþega af slíku falli yrði miklu meiri en ella gæti orðið. Því verður ekki á móti mælt að þegar gengið lækkar hér á landi, sem það mun gera, þá hefur það áhrif á kjör fólksins.

Í fjáraukanum nú á að setja viðbótarfjármuni í eitt og annað sem varla ber svo brátt að að þar eigi það heima heldur miklu fremur í fjárlögum ársins 2006. Nokkur dæmi má nefna. Framúrkeyrsla hjá embætti forseta Íslands er upp á 98 milljónir — þar af eru 85 milljónir frá árinu 2004 og fyrr — sem áttu heima í þeim fjárlögum eða eiga eftir að falla í fjáraukalögum fyrri ára. Er svo erfitt að sjá fyrir rekstur Bessastaða? (Gripið fram í: Já.) Þá held ég að tími sé kominn til að setja betri fjárstjórn. Það er óþarfi að hafa þessi mál eins og þau eru í dag.

Hæstv. forseti. Nú liggur allt í einu svo mikið á að gefa út spænsk-íslenska orðabók að slík útgáfa er sett í fjáraukalög ársins þó svo að það sé aðeins innan við mánuður þangað til við væntanlega samþykkjum fjárlög næsta árs í hv. Alþingi. Ég spyr: Hvaða eðlilegu skýringar eru á þessari ákvörðun menntamálaráðherrans? Það er upplýst í texta fjáraukalagafrumvarpsins að það eru þrjú til fjögur ár þar til að þessu verki, spænsk-íslensku orðabókinni, lýkur. Hvers vegna er þetta þá í fjáraukalögum? Tengist kannski einhver góðvinur stjórnarflokkanna þessu verki? Er eitthvað sem þarf að tryggja strax? (Gripið fram í: Svaraðu?) Get ekki svarað. Ég spyr.

Landbúnaðarráðuneytið fær 2,3 milljarða í þessum fjáraukalögum. Þar er uppsafnaður rekstrarhalli um 70 milljónir hjá nýjum sameinuðum Landbúnaðarháskóla á Hvanneyri. Þessi fjárveiting átti með réttu að vera til staðar áður en sameiningin fór fram. Hún var þekkt. Ég spyr: Hver er skýringin á því að tilfærsla upp á 2,2 milljarða á heima í fjáraukalögum en ekki í fjárlögum næsta árs? Af hverju liggur svo á að þessi tilfærsla skuli vera í fjáraukalögunum? Ég vona að forsvarsmenn fjárlaganefndar eða fjármálaráðherra, sem sennilega er farinn héðan úr salnum, geti svarað þessari spurningu.

Við afgreiðslu fjárlaga ársins 2005 lagði stjórnarandstaðan fram tillögu um 100 milljón kr. hækkun til Háskólans á Akureyri. Þá tillögu felldu stjórnarþingmenn í atkvæðagreiðslu í fyrra haust. Nú kemur menntamálaráðherra upp við afgreiðslu fjáraukalaga með tillögu um 110 milljón kr. hækkun þvert ofan í fyrri ákvörðun sína og annarra stjórnarliða. Menntamálaráðherrann mætti alveg að skaðlausu hafa meiri yfirsýn yfir mál í sínu eigin ráðuneyti.

Hæstv. forseti. Þetta er það sem kallað er handahófskennd vinnubrögð. Svo virðist sem hæstv. menntamálaráðherranum líki betur að lofa ýmsu á mannamótum, ýmsum fjárveitingum þó engin samþykkt sé fyrir slíku til staðar, hvorki í fjárlaganefnd né á Alþingi sem hefur löggjafarvaldið.

Varðandi Háskóla Íslands lagði stjórnarandstaðan til við afgreiðslu fjárlaga í fyrrahaust að fjárveitingin yrði hækkuð um 470 milljónir. Það var að vísu líka fellt af stjórnarliðinu. En núna á að hækka fjárlög um rúmlega 1 milljarð fyrir árið 2006 og þar til viðbótar í fjáraukalögum nú um 177 milljónir kr. Auðvitað er verið að taka á vanda sem fyrirséður var haustið 2004 og enn vantar á að lagfærð sé nægilega bæði staða Háskólans á Akureyri og Háskóla Íslands. Finnst mönnum þetta vera vinnubrögð sem bera vitni um skarpa yfirsýn menntamálaráðherra í málefnum háskólanna eða er kannski verið að forgangsraða til þeirra skóla sem taka skólagjöld með sveltistefnu á aðra háskóla? Svo mætti halda. Þetta finnst mér, hæstv. forseti, ábyrgðarlaus vinnubrögð.

Í utanríkisráðuneytinu er haldið áfram að þenja út og það vill fá í fjáraukanum í aukna yfirstjórn og almennan rekstur alls 326 milljónir af þeim 500 milljónum sem það sækir um í fjáraukanum. Þar til viðbótar eykst rekstur aðalskrifstofu á næsta ári um 140 milljónir samkvæmt fjárlagafrumvarpi 2006. Svo virðist sem orðin sé hefð fyrir því að utanríkisráðuneytið eyði umfram fjárlög á hverju ári og bæti í eyðsluna við stjórnun og við sendiráð í öllum fjárlagafrumvörpum sem minni mitt rekur til.

Hjá Tryggingastofnun ríkisins í lið 6.01, Tæki og búnaður, tillaga um 75 milljón kr. aukafjárveitingu enn á ný til að mæta kostnaði við hönnun á nýju greiðslukerfi lífeyristrygginga. Talið er að kostnaður verði í heild hátt í 400 milljónir kr. og að verkinu ljúki e.t.v. árið 2006. Hönnun þessa kerfis er komið úr öllum böndum og fróðlegt væri að hæstv. fjármálaráðherra gerði okkur grein fyrir því hversu lengi þetta verkefni hefur staðið, þ.e. smíði á þessu sérstaka kerfi fyrir Tryggingastofnun ríkisins og hvaða snillingar það eru nú sem hafa verið með þetta verk á sinni könnu árum saman. Þeir eru reyndar í áskrift við að búa þetta kerfi til að því er virðist. Ég hef staðið í þeirri meiningu, hæstv. forseti, að mikið sé til af lausnum varðandi bókhald og mismunandi tölvukerfum til allra verka í þessu þjóðfélagi. En það virðist þurfa að sérhanna allt fyrir ríkið. Fróðlegt væri ef hæstv. fjármálaráðherra gæti upplýst það, ef hann gæti fengið sína starfsmenn til að fletta því upp, hvað ríkissjóður hafi eytt miklu í hönnun slíkra kerfa undanfarin fimm ár í hinum ýmsu stofnunum. Mig grunar að það hlaupi, því miður, orðið á milljörðum.

Hæstv. forseti. Að lokum langar mig að spyrja um tvær upphæðir í fjáraukalagafrumvarpinu. Það er annars vegar um ýmis leyfis- og skráningargjöld sem hækka um 168 milljónir. Ég vil spyrja nánar út í það hvaða gjöld eru hér á bak við eða hvar megi finna skýringar við þessa tölu. Hins vegar langar mig að forvitnast um auknar tekjur af dómsektum og viðurlagaákvörðunum sem einnig er hér veruleg upphæð, um milljarður kr.

Ég vona að hæstv. fjármálaráðherra geti svarað þessum einföldu spurningum sem ég hef lagt fyrir hann og vonast til að við förum upplýstari inn í umræðuna um fjárlög þegar þar að kemur.