Samkomudagur Alþingis og starfstími þess

Þriðjudaginn 15. nóvember 2005, kl. 19:02:26 (1587)


132. löggjafarþing — 21. fundur,  15. nóv. 2005.

Samkomudagur Alþingis og starfstími þess.

48. mál
[19:02]
Hlusta

Magnús Þór Hafsteinsson (Fl) (andsvar):

Virðulegi forseti. Nú hygg ég að það sé svo með flesta þingmenn, a.m.k. með okkur landsbyggðarþingmenn, að við erum mjög mikið að störfum þegar þing er ekki starfandi, t.d. í jólahléum og líka í sumarhléum. Við erum á þeytingi fram og til baka um kjördæmi okkar og jafnvel í annarra manna kjördæmum. Í litlum þingflokki eins og mínum eru þingmenn jafnframt háttsettir í sjálfum flokknum, formaður og varaformaður, og því fylgja skyldur um að mæta til funda og ráðslags víða um land. Það að finna sér eitthvað að gera er ekki vandamál í þessu starfi.

Það sem mér finnst að hægt væri að græða á því að þingmenn fengju tækifæri til að fara út í kjördæmi sín á þingtíma væri að þá gætu þeir náð betra sambandi við fólk til að ræða um málefni líðandi stundar, m.a. þingmál sem eru í gangi í þinginu á hverjum tíma. Upp gætu komið mál sem gætu orðið tilefni til umræðu í þinginu og af því gætu sprottið tilefni til fyrirspurna. Ég fæ oft hugmyndir að fyrirspurnum þegar ég tala við fólk í mínu eigin kjördæmi. Manni dettur ýmislegt í hug og stundum hefur það jafnvel leitt af sér frumvörp til laga, þingsályktunartillögur eða annað þess háttar. Sambandið við kjósendur, það að fá að hitta fólk í þeirra eigin umhverfi, er ákaflega dýrmætt fyrir alla þingmenn.