Framlagning stjórnarfrumvarpa

Miðvikudaginn 16. nóvember 2005, kl. 12:14:53 (1595)


132. löggjafarþing — 22. fundur,  16. nóv. 2005.

Framlagning stjórnarfrumvarpa.

[12:14]
Hlusta

Magnús Þór Hafsteinsson (Fl):

Virðulegi forseti. Sá sem hér stendur verður að teljast í hópi nýliða nú á þingi en það var eitt sem vakti athygli mína þegar ég kom hingað fyrst og hafði verið hér minn fyrsta vetur, það var verklagið hjá þessari virðulegu samkomu. Einmitt sú staðreynd sem verið er að benda á að ríkisstjórnin kemur mjög seint inn með frumvörp sín þótt hún hafi á bak við sig heilu herdeildirnar af embættismönnum sem vinna, skulum við vona, í ráðuneytunum allan ársins hring við það að útbúa mál og skrifa frumvörp og ganga frá þeim þannig að hægt sé að mæla fyrir þeim. Við heyrum reglulega um nefndir sem vinna að mikilvægum lagabálkum sem við bíðum síðan öll spennt eftir að komi inn í þingið.

Svo er það bara þannig því miður að það gerist ekkert og mér finnst þetta mjög slæmt því ég tel að hér væri hægt að auka afköstin allverulega ef menn skipulegðu starf sitt aðeins betur. Það mætti líka haga málum með þeim hætti að hin svokölluðu þingmannamál ættu greiðari leið í gegnum þingið því að það hefur líka vakið mikla furðu mína að þau virðast næstum því algerlega vera svæfð í nefndum, komast sjaldan eða aldrei til lokaatkvæðagreiðslu eða almennilegrar umræðu, bara til 1. umr. svo hverfa þau og búið, og heyrist ekkert meira af þeim fyrr en næsta ár þegar þau eru borin fram á nýjan leik. Þetta finnst mér vera furðulegt verklag og það hefur læðst að mér sá grunur og verður sterkari með árunum að hér á Íslandi sé í rauninni ekki lýðræði, hér ríki þingbundið einræði.