Fangaflug bandarísku leyniþjónustunnar

Miðvikudaginn 16. nóvember 2005, kl. 13:09:36 (1617)


132. löggjafarþing — 23. fundur,  16. nóv. 2005.

Fangaflug bandarísku leyniþjónustunnar.

205. mál
[13:09]
Hlusta

Össur Skarphéðinsson (Sf):

Frú forseti. Þetta svar var enn þá aumara en ég átti von á og það er alveg í stíl við það hversu linkulega hæstv. utanríkisráðherra og ríkisstjórnin hefur tekið á þessu máli. Það liggur fyrir í upplýsingum sem danska þingið hefur fengið að flugvélar með þekktum skrásetningarnúmerum eru grunaðar um að hafa flutt fanga m.a. um Ísland til ríkja þar sem vitað er að pyndingum er beitt við yfirheyrslur. Það er krafa stjórnarandstöðunnar, það er krafa Samfylkingarinnar að utanríkisráðherra gefi út yfirlýsingu um að flugvélum með þessum þekktu númerum verði bannað að fljúga um Ísland. Hvernig stendur á því að hæstv. ráðherra hefur ekki gert það? Hvernig stendur á þessum undirlægjuhætti gagnvart Bandaríkjamönnum? Meira að segja Morgunblaðið segir í leiðara að engu sé að treysta um upplýsingar stjórnvalda varðandi aðferðir CIA. Svo kemur ráðherrann hingað og segir að hann sé í einhverjum kurteisum bréfaskriftum. Þetta er spurning um grundvallaratriði.