Fangaflug bandarísku leyniþjónustunnar

Miðvikudaginn 16. nóvember 2005, kl. 13:12:14 (1619)


132. löggjafarþing — 23. fundur,  16. nóv. 2005.

Fangaflug bandarísku leyniþjónustunnar.

205. mál
[13:12]
Hlusta

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegi forseti. Einhverjar öruggustu samtímaheimildir um alþjóðamál, stórblöð á borð við Washington Post, hafa greint frá því að fangaflutningar fari fram yfir Atlantshafið með flugvélum sem staðfest er að hafi lent á Íslandi. Vestan hafs er í öldungadeild Bandaríkjaþings unnið að lagasetningu til að taka á málinu. Austan hafs hefur Evrópusambandið fyrirskipað rannsókn en á Íslandi situr hæstv. utanríkisráðherra bljúgur með hendur í skauti og bíður eftir því að einhver komi að svara honum. En það kemur enginn að svara honum. Er hæstv. ráðherra svo hræddur um að herinn sé að fara að hann þori ekki að anda á Bandaríkjamenn? Eða er það kannski vegna þess að við erum meðsek? Meðsek vegna framgöngu þessarar ríkisstjórnar um innrásina í Írak. Hún er í okkar nafni og meðferðin á föngum í Abu Ghraib og meðferðin á óbreyttum borgurum í Írak er á okkar ábyrgð og þeir fangaflutningar sem hér kunna að fara fram eru á okkar ábyrgð (Forseti hringir.) og í okkar nafni því ef hæstv. utanríkisráðherra ætlar ekki að hafast að um að stöðva þá þá eigum (Forseti hringir.) við hlutdeild í þeim flutningum.