Veggjöld

Miðvikudaginn 16. nóvember 2005, kl. 14:08:26 (1653)


132. löggjafarþing — 23. fundur,  16. nóv. 2005.

Veggjöld.

150. mál
[14:08]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Jóhann Ársælsson) (Sf):

Hæstv. forseti. Það er mjög mikilvægt að afstaða hæstv. ráðherra liggi fyrir, að hann sé á móti notendagjöldum um Sundabraut. En það hefur samt orðið algerlega ljóst við þessa umræðu að stefnumörkun hvað varðar gjaldtöku á samgöngumannvirkjum liggur ekki fyrir. Það er auðvitað mjög alvarlegt að svo skuli ekki vera vegna þess að nauðsynlegt er að menn viti á hverju menn eiga von í þessum efnum. Mér finnst skrýtið hversu langan tíma það tekur hjá ríkisstjórninni að koma sér saman um hvernig á að standa að þessum málum til framtíðar litið.

Fram kom við umræðuna áðan að menn vildu ekki að lagður yrði steinn í götu þess að hægt yrði að fara í einkaframkvæmd í vegamálum. Það er algerlega út í hött að halda því fram að jafnvel þótt gerðar yrðu breytingar á gjaldtöku eða hún felld niður í Hvalfjarðargöngum, að það legði stein í götu þess að menn færu í einhverjar slíkar framkvæmdir í vegamálum. Það er út í hött að halda því fram. Vissulega geta hlutirnir breyst en það sem er alveg á hreinu er að ef menn ætla að halda áfram eftir að búið er að innheimta veggjöld af þeim sem koma að norðan og vestan til höfuðborgarinnar í því formi að taka upp notendagjöld á Sundabraut þá eru sömu landsvæðin að verða fyrir skattlagningu áfram í nokkra áratugi í viðbót við það sem nú liggur fyrir. Þetta er auðvitað ekki hægt að líða. Ekki er heldur hægt að líða að það standi á stefnumörkun frá hendi ríkisstjórnar í svona mikilvægum málum eins og raun ber vitni. Ég hvet því eindregið til þess að menn standi sig betur en þetta.

Um virðisaukaskattinn er það að segja að Framsóknarflokkurinn heldur málinu enn í gíslingu. Fram hefur komið hjá sjálfstæðismönnum að Framsóknarflokkurinn hafi staðið í vegi fyrir málinu.