Umferð vélknúinna farartækja í ósnortinni náttúru

Miðvikudaginn 16. nóvember 2005, kl. 18:24:31 (1711)


132. löggjafarþing — 23. fundur,  16. nóv. 2005.

Umferð vélknúinna farartækja í ósnortinni náttúru.

241. mál
[18:24]
Hlusta

umhverfisráðherra (Sigríður A. Þórðardóttir) (S):

Frú forseti. Ég tek heils hugar undir áhyggjur hv. þm. Kolbrúnar Halldórsdóttur. Ég verð að viðurkenna að stundum á kyrrum kvöldum í dalnum þar sem ég bý er kyrrðin rofin og ég játa það að ég vil heldur hafa kyrrðina og fuglasönginn en hávaða af t.d. vélhjólum eða bílum. Þannig er það auðvitað. Hávaði er hins vegar fylgifiskur okkar mannanna og ekki er við öðru að búast þegar maður býr nálægt öðru fólki en að maður verði var við það. Hins vegar finnst mér allrar athygli vert hvort ekki beri að taka þessi mál til nákvæmari skoðunar. Eins og ég nefndi í fyrri ræðu minni gætu verið ástæður til að setja reglur víðar en gert hefur verið til þessa.