Byggðastofnun

Miðvikudaginn 16. nóvember 2005, kl. 19:21:10 (1737)


132. löggjafarþing — 23. fundur,  16. nóv. 2005.

Byggðastofnun.

190. mál
[19:21]
Hlusta

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Ég verð að taka undir með hv. 1. þm. Reykv. n., Össuri Skarphéðinssyni, að einkennilegt er að heyra ráðherrann segja að þessi greining liggi aðeins fyrir í ráðuneytinu. Ég tók ekki betur eftir en að hæstv. ráðherra hafi lýst því yfir að um verulegan fjárhagsvanda sé að ræða í stofnuninni samkvæmt umræddri greiningu. Ég lýsi eftir því að þær upplýsingar verði sendar fjárlaganefnd þingsins, sem fulltrúi í henni. Það hlýtur að vera algerlega nauðsynlegt að fjárlaganefnd Alþingis hafi upplýsingar um greiningu um verulegan fjárhagsvanda í jafnmikilvægri stofnun og þessari. Ég hlýt að spyrja hæstv. ráðherra: Hversu umfangsmikill er sá fjárhagsvandi og með hvaða hætti hyggst ráðherrann taka á honum?