Aðgerðir í málefnum heimilislausra

Föstudaginn 18. nóvember 2005, kl. 10:42:09 (1858)


132. löggjafarþing — 25. fundur,  18. nóv. 2005.

Aðgerðir í málefnum heimilislausra.

91. mál
[10:42]
Hlusta

Þórunn Sveinbjarnardóttir (Sf):

Frú forseti. Ég vil þakka hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur fyrir að fylgja þessu máli eftir á Alþingi og hæstv. félagsmálaráðherra fyrir svörin. Ég velti því fyrir mér hvort skilgreiningin sem lögð er til grundvallar í vinnu samráðshópsins sé kannski of þröng. Hún reyndar tekur til útigangsfólks, útigangsmanna, og vissulega er vandi þeirra mjög mikill og brýnn að leysa. Það er gott að það skuli vera lagt til að ganga í það en ég velti hins vegar fyrir mér hvernig eigi að leysa þann brýna vanda sem sá hópur býr við sem nær ekki inn í skilgreininguna, ef þannig má að orði komast, en er stöðugt við það að missa húsnæði sitt.