Röðun mála á dagskrá

Þriðjudaginn 22. nóvember 2005, kl. 13:46:50 (2001)


132. löggjafarþing — 27. fundur,  22. nóv. 2005.

Röðun mála á dagskrá.

[13:46]
Hlusta

Hjálmar Árnason (F):

Frú forseti. Ég vil taka undir orð forseta og ekki síður hv. þm. Halldórs Blöndals, fyrrverandi forseta, hins margreynda forseta, að hér eru á dagskrá a.m.k. tvö mál, tvö mikilvæg og góð mál. Og það þarf ekkert að rifja það upp að venjan er sú að formenn þingflokka koma saman á fundi með forseta reglulega til þess að skipuleggja vikuna og það er þá vettvangurinn ef formenn þingflokka hafa einhverjar sérstakar óskir um uppröðun mála. Mér vitanlega hafa slíkar óskir ekki komið fram fyrr en núna að þingfundur er hafinn. Þess vegna get ég ekki annað en tekið undir með hv. þm. Halldóri Blöndal að þetta sé eiginlega einkennileg uppákoma. Menn láta eins og það eigi bara að tala um eitt mál í dag, en það eru a.m.k. tvö mál til umræðu og er það ekki ætlunin að ræða þau mál og koma þeim til nefndar?

Menn hljóta nú að geta tjáð hug sinn til þessara mála, hvort sem samstaða er um þau eða ágreiningur, á þeim tíma sem er ætlaður. Menn geta þá talað hér fram eftir kvöldi og fram á nótt þess vegna ef þeim er mikið niðri fyrir og hafa nægan tíma til þess í nefndum og í 2. og 3. umr. Frú forseti, ég hvet til þess að þingstörfin haldi áfram eftir þeirri dagskrá sem hefur verið undirbúin.