Skattamál í tengslum við Kárahnjúkavirkjun

Miðvikudaginn 23. nóvember 2005, kl. 12:09:30 (2076)


132. löggjafarþing — 28. fundur,  23. nóv. 2005.

Skattamál í tengslum við Kárahnjúkavirkjun.

318. mál
[12:09]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin. Það má út af fyrir sig kalla það aðdáunarverða staðfestu hjá fjármálaráðuneytinu að gefa sífellt sama ranga svarið við þessari spurningu. Það er auðvitað stórkostlega ámælisvert að fjármálaráðuneytið skuli bera svona þvætting á borð fyrir Alþingi í formlegum svörum við formlegum fyrirspurnum, ýmist munnlegum eða skriflegum, að þarna hafi engin vandamál verið í skattalegri framkvæmd.

Ég vek athygli á því að frá byrjun hefur verið spurt um álitamál eða vandamál í skattalegri framkvæmd, hvað varðar skattalega meðferð mála. Það tekur til skattalegrar framkvæmdar, álagningar, innheimtu og málsins í heild sinni. Hvernig getur hæstv. fjármálaráðherra komið hér, og forveri hans, aftur og aftur og sagt að þetta sé allt í lagi, það séu engin sérstök vandamál þarna uppi umfram það sem búast megi við af framkvæmdum af sömu stærðargráðu?

Hér er náttúrlega framkvæmd á ferðinni sem er algerlega sérstök í sögunni, unnin að uppistöðu til af erlendu starfsfólki sem er á nýjum kjörum í landinu, kjörum sem áður voru nánast óþekkt, í gegnum starfsmannaleigur o.s.frv. Við höfum aldrei áður átt skipti við aðila eins og Impregilo sem hegðar sér með þeim hætti sem það fyrirtæki hefur gert.

Þó að svo kunni að fara að það takist að ná þessu fé af fyrirtækinu að lokum — sem það ætlar síðan fyrir dómstóla með og reyna að ná rétti sínum fyrir dómstólum, ef það verður neytt til að borga, ábyrgjast greiðslur starfsmannanna — er framkvæmdin, innheimtan og hvernig þetta hefur komið út fyrir sveitarfélögin og óvissan sem þar hefur skapast þannig, að það er eins og hver annar þvættingur að bera það á borð í svari við fyrirspurn á Alþingi að þetta hafi allt verið með eðlilegum hætti og í lagi. 37% innheimtuárangur hjá sýslumanninum á Seyðisfirði á árinu 2003 (Forseti hringir.) er auðvitað ekki í lagi. Og hvað eiga svona svör að þýða, frú forseti, við fyrirspurnum á Alþingi?