Skattamál í tengslum við Kárahnjúkavirkjun

Miðvikudaginn 23. nóvember 2005, kl. 12:12:06 (2077)


132. löggjafarþing — 28. fundur,  23. nóv. 2005.

Skattamál í tengslum við Kárahnjúkavirkjun.

318. mál
[12:12]
Hlusta

fjármálaráðherra (Árni M. Mathiesen) (S):

Hæstv. forseti. Mér finnst hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon snúa út úr orðum mínum. Enginn sagði að engin mál hefðu komið upp þarna. Það sem var verið að segja er að það er ekkert meira en menn hefðu getað átt von á í svona framkvæmd. Þau mál eru einfaldlega til meðferðar í kerfinu.

Það vill þannig til að aðilar hafa heimild til að vera ósammála stjórnvöldum um þessa hluti og þeir hafa heimild til að skjóta málum sínum áfram í kerfinu. Það á við um þá aðila sem eru með starfsemi á Kárahnjúkum eins og annars staðar. Við verðum að virða þann rétt þeirra og virða það að okkar kerfi gerir ráð fyrir ákveðnum farvegi og hvernig úr málum er unnið. Því er ástæðulaust að gera eitthvað sérstaklega mikið eða meira úr því en tilefni er til og snúa út úr þeim svörum sem hér koma fram. Og það að mér sýnist trekk í trekk. Auðvitað vill hv. þingmaður að þarna séu stór vandamál og ekkert nema vandamál. Hann hefur verið á móti framkvæmdinni alveg frá upphafi (ÞBack: Nei, nei, nei, nei.) og það hlýtur að liggja á bak við þetta að reyna að gera sem mest úr þeim málum sem þar koma upp, gera þau að einhverjum sérstökum og stórum vandamálum þegar staðan er sú að þau mál sem þarna hafa komið upp eru ekki stærri en búast mátti við í framkvæmd af þessari stærðargráðu. Þau eru í sínum eðlilega farvegi og þau munu verða til lykta leidd samkvæmt þeim lögum og reglum sem hér um gilda, og jafnt hjá þeim aðilum sem starfa við Kárahnjúka og annars staðar á landinu.