Kjarabætur til vistfólks á dvalar- og hjúkrunarheimilum

Miðvikudaginn 23. nóvember 2005, kl. 14:06:58 (2127)


132. löggjafarþing — 28. fundur,  23. nóv. 2005.

Kjarabætur til vistfólks á dvalar- og hjúkrunarheimilum.

159. mál
[14:06]
Hlusta

Drífa Hjartardóttir (S):

Virðulegi forseti. Þetta er afskaplega athyglisverð umræða sem hér fer fram. Ég vil bara vekja athygli á því sem hæstv. heilbrigðisráðherra sagði að samningurinn og samkomulagið við Félag eldri borgara hefur verið uppfyllt nema með sveigjanlegu starfslokin sem ég veit ekki annað en að verið sé að vinna í, því að hér var samþykkt þingsályktunartillaga sem hv. þm. Guðmundur Hallvarðsson var 1. flutningsmaður að, að mig minnir. Vonandi verður tekið tillit til þess.

Því er lítið haldið til haga í umræðunni um eldri borgara að eignarskatturinn var afnuminn. Hann hlýtur að hafa komið mörgum til góða, þó reyndar ekki þeim sem dvelja á hjúkrunarheimilum. Ég tek undir það sem hv. þm. Ásta Möller sagði áðan að það er mjög mismunandi hvað vistmenn þurfa að greiða varðandi þjónustu sem þeir fá.