Kjarabætur til vistfólks á dvalar- og hjúkrunarheimilum

Miðvikudaginn 23. nóvember 2005, kl. 14:13:06 (2131)


132. löggjafarþing — 28. fundur,  23. nóv. 2005.

Kjarabætur til vistfólks á dvalar- og hjúkrunarheimilum.

159. mál
[14:13]
Hlusta

heilbrigðisráðherra (Jón Kristjánsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka þá umræðu sem hér hefur farið fram um þetta mál sem er viðamikið. Ég tek undir það sem hv. þm. Guðmundur Hallvarðsson sagði að það eru skilmálar um aðbúnað á heimasíðu okkar. Ég vil einnig taka undir að þörf er á að auka eftirlitið. Við gerum okkur alveg grein fyrir því í ráðuneytinu.

Ég vil aðeins koma inn á það sem hv. þm. Guðmundur Magnússon sagði um danska kerfið. Ég tel það mjög athyglisvert og mjög til skoðunar að taka upp slíkt kerfi. Eldri borgarar hafa lagt áherslu á það í kröfum sínum að hætt verði að taka fjárráðin af fólki eins og gert er og að fólk borgi leigu, eins og hv. þingmaður nefndi. Það er mjög til athugunar. Við höfum einmitt verið að skoða þetta mál sérstaklega og munum fara yfir þau með samtökum eldri borgara. En ég heyri á undirtektum hér að hljómgrunnur er fyrir breytingu og ég tel ástæðu til að skoða það í fullri alvöru. Við munum ræða þessi mál á næstunni í því samráði sem við höfum við eldri borgara, enda hafa þeir farið fram á slíka breytingu og talið hana verið tímabæra, en við þurfum náttúrlega að fara vel yfir hvernig framkvæmdin yrði á slíku. Ég tel að við þurfum að breyta til þarna og auka um leið fjölbreytni í búsetu þeirra sem þurfa á (Forseti hringir.) hjúkrunar- eða þjónusturými að halda.