Tæknifrjóvganir

Miðvikudaginn 23. nóvember 2005, kl. 14:41:09 (2143)


132. löggjafarþing — 28. fundur,  23. nóv. 2005.

Tæknifrjóvganir.

276. mál
[14:41]
Hlusta

Össur Skarphéðinsson (Sf):

Herra forseti. Ég tel það fyrirkomulag á einkarekstri sem þarna er verið að reyna ákaflega athyglisvert og að það gefi viðspyrnu til að gera þessa tegund heilbrigðisþjónustu að útflutningsgrein, sem ég fagna. Það er sjálfsagt að ríkið taki þátt í kostnaði við aðgerð af þessu tagi. Ég hef reyndar verið þeirrar skoðunar að ríkið ætti að taka meiri þátt í slíkum aðgerðum en verið hefur hingað til. Ófrjósemi er eins og hvert annað mein sem hrjáir manninn, það er sjúkdómur og ríkinu ber skylda til að taka þátt í kostnaði til að vinna bug á honum. Ég vísa svo til þess, herra forseti, að ég lagði hér einu sinni fram fyrirspurn og svör við henni sýndu að þeir sem eignast börn með þessum hætti eru að meðaltali töluvert miklu eldri en þeir sem nota þá aðferð sem aðrir nota, þó ekki ég. Þeir hafa þess vegna greitt mjög mikið til samfélagsins og að meðaltali meiri skatta en aðrir. Þannig að ég held að hv. þm. Pétur Blöndal hljóti að skilja þau rök. Menn hafa greitt og þeir eiga að fá.