Tæknifrjóvganir

Miðvikudaginn 23. nóvember 2005, kl. 14:42:32 (2144)


132. löggjafarþing — 28. fundur,  23. nóv. 2005.

Tæknifrjóvganir.

276. mál
[14:42]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Ágúst Ólafur Ágústsson) (Sf):

Herra forseti. Ég vil þakka hv. þingmönnum þessa umræðu og hæstv. heilbrigðisráðherra fyrir sín svör. Eins og oft áður er hæstv. heilbrigðisráðherra allur af vilja gerður til að leysa þetta mál og ég fagna því að hann muni beita sér fyrir því að endurgreiða viðkomandi pörum umræddan kostnað. Það eru gleðileg tíðindi. Hann segir einnig, hæstv. ráðherra, að það sé óljóst um niðurstöður þeirra samningaviðræðna sem eru í gangi núna en ég vil benda á og ítreka það að við þurfum að fjölga niðurgreiddum meðferðum eins og þörfin er núna. Óvissan er vond fyrir alla aðila í þessu samhengi og ég veit að hæstv. heilbrigðisráðherra áttar sig á því. Það er fróðlegt að vita að á hverju ári fæðast um 150–170 börn eftir tæknifrjóvgunarmeðferðir og þetta úrræði skiptir máli, bæði fyrir viðkomandi pör og fyrir þjóðarbúið í heild sinni. Ólíkt fulltrúa Sjálfstæðisflokksins í heilbrigðisnefnd tel ég að ríkisvaldið eigi að koma að niðurgreiðslu slíkra meðferða. Hvað það varðar er augljóslega hugmyndafræðilegur munur á Samfylkingu og Sjálfstæðisflokki. Við þurfum einnig að huga að eftirliti með þessari þjónustu og gæta að því að ekki leggist á viðkomandi pör alls konar viðbótarkostnaður en á því getur verið hætta í aðstæðum af þessu tagi.

Mig langar aðeins að nefna lyfjamálin hjá þessum hópi. Sem dæmi má nefna að greiðsluþátttaka Tryggingastofnunar á tilteknu lyfi miðast við lyfið sem krabbameinslyf en ekki sem frjósemislyf. Þetta hefur þau áhrif að hver skammtur af lyfinu fyrir par í tæknifrjóvgun verður margfalt dýrari en ella. Það þarf því að huga að skráningu þessara lyfja og ég vil koma þeirri ábendingu áleiðis til hæstv. ráðherra.

Að lokum langar mig aðeins að nefna tæknisæðingar. Þær hafa ekki verið niðurgreiddar af hálfu ríkisins en kostnaður við þær hefur hins vegar ekki verið tekinn með í afsláttarkorti TR, samkvæmt upplýsingum frá Tilveru. Ég vil að lokum spyrja hæstv. heilbrigðisráðherra hvort hann muni beita sér fyrir því að kostnaður við tæknisæðingar verði tekinn með í afsláttarkorti Tryggingastofnunar?