Löggæsla á skemmtunum í Skagafirði

Miðvikudaginn 23. nóvember 2005, kl. 14:57:34 (2149)


132. löggjafarþing — 28. fundur,  23. nóv. 2005.

Löggæsla á skemmtunum í Skagafirði.

277. mál
[14:57]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Sigurjón Þórðarson) (Fl):

Herra forseti. Sérsveit ríkislögreglustjóra hefur verið nokkuð í umræðunni og síaukin fjárframlög til hennar. Hún hefur tekið að sér hin og þessi verkefni og ég hef beint eftirfarandi fyrirspurn til hæstv. dómsmálaráðherra:

„Hversu oft hefur sérsveit ríkislögreglustjóra tekið að sér löggæslu á skemmtunum í Skagafirði og hver er kostnaður ríkisins vegna þessa?“

Almenningur í Skagafirði skilur ekki hvers vegna í ósköpunum kallaðir eru til sérsveitarmenn alla leið frá Akureyri til að sinna löggæslu á skemmtunum í Skagafirði. Lögreglumenn á Sauðárkróki hafa í greinargóðu bréfi til þingmanna lýst því mati sínu að þetta ráðslag sé óeðlilegt á friðartímum. Þetta er sambærilegt ferðalag og ef sérsveitarmenn væru kallaðir úr Reykjavík alla leið austur á Hvolsvöll til að sinna almennri löggæslu á skemmtunum.

Skýringin sem ég fékk hjá fulltrúa í dómsmálaráðuneytinu var að um sparnað væri að ræða, þ.e. að það sé að einhverju leyti hagkvæmara að kalla menn alla leið frá Akureyri í stað þess að nýta þjónustu okkar ágætu lögreglumanna á Sauðárkróki. Vissulega getur þetta verið sparnaður ef eingöngu er litið á sýslumannsembættið á Sauðárkróki en ég get ómögulega séð að um sparnað fyrir ríkissjóð sé að ræða.

Fleira kreppir að varðandi löggæsluna á Sauðárkróki. Árið 2004 var haldið ungmennafélagsmót og sýslumaðurinn krafði mótshaldara um sérstakan löggæslukostnað. Hann var síðan felldur niður og ég var sammála því, en á móti komu engin fjárframlög til lögreglunnar á Sauðárkróki til að mæta þessum aukna kostnaði. Mörgum, einnig þeim sem hér stendur, finnst mjög sérkennilegt að blása út sérsveit fyrir 100 milljónir þetta árið og enn þá hærri upphæð árið á undan og í staðinn er dregið úr og kreppt að almennri löggæslu. Þetta skilur enginn og ég veit að margir í Skagafirði óska eftir því að hæstv. ráðherra gefi greinargóð svör vegna þess að það er mörgum hulin ráðgáta hvernig það getur verið sparnaður að kalla menn langt að til að sinna löggæslu sem heimaaðilar geta vel sinnt og hafa gert mjög vel hingað til.