Löggæsla á skemmtunum í Skagafirði

Miðvikudaginn 23. nóvember 2005, kl. 15:05:11 (2153)


132. löggjafarþing — 28. fundur,  23. nóv. 2005.

Löggæsla á skemmtunum í Skagafirði.

277. mál
[15:05]
Hlusta

Margrét Frímannsdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ég get skilið að í fámennum umdæmum þurfi undir ákveðnum kringumstæðum að fá aðstoð við löggæslu þegar sérstakir atburðir eiga sér stað. Ég verð þó að viðurkenna að það kemur mér svolítið spánskt fyrir sjónir að það skuli vera sérþjálfaðir og sérútbúnir lögreglumenn, þ.e. sérsveit lögreglunnar sem á m.a. að vera tilbúin til að grípa til vopna og er útbúin á allt annan hátt en hin almenna lögregla. Það kemur á óvart að það skuli vera það lið sem hleypur undir bagga þegar þörfin er mest.

Ég spyr hæstv. ráðherra: Fer sérsveit lögreglunnar með allan sinn útbúnað á stað þar sem aðeins er um löggæslu að ræða, á skemmtun?