Löggæsla á skemmtunum í Skagafirði

Miðvikudaginn 23. nóvember 2005, kl. 15:08:25 (2155)


132. löggjafarþing — 28. fundur,  23. nóv. 2005.

Löggæsla á skemmtunum í Skagafirði.

277. mál
[15:08]
Hlusta

dómsmálaráðherra (Björn Bjarnason) (S):

Virðulegur forseti. Mér finnast þetta mjög sérkennilegar umræður um þetta mál. Í fyrirspurninni er gengið út frá því að einhver gífurlegur kostnaður hafi orðið vegna þessa. Hann hefur enginn orðið. Snýst þetta um launamál lögreglumannanna á Sauðárkróki? Eru þingmenn í raun að spyrja um það, hafa áhyggjur af að þetta skerði eitthvað laun lögreglumanna á Sauðárkróki?

Ef það er það sem menn eru raunverulega að spyrja um er það eitthvert hagkvæmnisatriði hjá sýslumanninum á Sauðárkróki. Ég er spurður um þetta og það kemur fram að lögreglan kallaði þessa menn til til að sinna þessum verkefnum. Þeir eru með starfsstöð á Akureyri og þeir eru til taks fyrir alla sem telja sig þurfa á starfskröftum þeirra að halda. Þeir fara að sjálfsögðu með þann búnað sem þarf miðað við aðstæður hverju sinni. Ég veit ekki hvernig þeir hafa metið áhættuna varðandi þetta útkall frá Sauðárkróki (SigurjÞ: Busaball.) en mér finnst þetta mjög sérkennileg umræða. Ég skil eiginlega ekki almennilega tilefni hennar. Er það út af einhverjum launamálum lögreglumanna á Sauðárkróki sem menn standa hér upp til að ræða þetta á þessum forsendum? Þetta eru lögreglumenn sem starfa á Akureyri sem eru til taks fyrir lögregluliðin alls staðar á Norðurlandi og Austurlandi og þeir voru kallaðir til þessa verkefnis.

Það er líka verið að tala um að stækka lögregluumdæmin og þá verður meiri hreyfanleiki á lögreglumönnum. Ég hef ekki heyrt neinn tala um að það sé einhver aðför að kjörum lögreglumanna að stækka lögregluumdæmin. Þvert á móti hafa allir talsmenn lögreglunnar, Landssambands lögreglumanna og annarra verið talsmenn þess að umdæmin væru stækkuð til þess að hafa þennan sveigjanleika í liðunum til að þau geti sinnt ákveðnum verkefnum.

Ef menn eru að tala um launamál einstakra lögreglumanna á Sauðárkróki eiga þeir að segja það. Þetta mál hér snýst ekkert um það, það snýst um viðbrögð sem gripið er til að ósk lögreglunnar á Sauðárkróki.