Staða, stjórn og starfshættir þjóðkirkjunnar

Þriðjudaginn 29. nóvember 2005, kl. 16:09:18 (2485)


132. löggjafarþing — 32. fundur,  29. nóv. 2005.

Staða, stjórn og starfshættir þjóðkirkjunnar.

329. mál
[16:09]
Hlusta

Ágúst Ólafur Ágústsson (Sf):

Herra forseti. Ég ætla að vera stuttorður um þetta litla frumvarp hæstv. dómsmálaráðherra. Eins og hæstv. dómsmálaráðherra sagði er m.a. lagt til að kirkjuþing hafi vald til að skipa kjördæmum með sama hætti og sóknum, prestaköllum, prófastsdæmum og einnig að ákveða fjölda kirkjuþingsmanna. Ég styð heils hugar að þjóðkirkjan sé sem mest sjálfstæð í störfum sínum. Mér finnst alveg sjálfsagt að verða við þeim óskum sem hér er verið að gera, t.d. að kirkjuþing sjálft geti ákvarðað skipan umdæma vígslubiskupa. Sá þingmaður sem hér stendur vill meira að segja auka sjálfstæði þjóðkirkjunnar það mikið að hann vill sjá fullan aðskilnað milli ríkis og kirkju. Það er kannski umræða sem við tökum síðar. En við þurfum einhvern tímann að taka þá umræðu.

Ég sé að í 2. gr. frumvarpsins er vikið að því að á kirkjuþingi skuli leikmenn vera fleiri en vígðir. Í athugasemdum við frumvarpið er talað um að rétt þyki að ganga ekki lengra en svo að áskilja áfram í lögum að leikmenn verði í meiri hluta á kirkjuþingi eins og nú er. Mig langar þá að spyrja hæstv. dómsmálaráðherra: Af hverju er ekki gengið lengra í ljósi þeirrar hugmyndafræði þjóðkirkjulaga sem komið er inn á í frumvarpinu sjálfu, að kirkjan hafi sem mest sjálfræði um eigin mál? Væri þetta ekki alveg kjörið fyrir kirkjuna sjálfa, kirkjuþing, að taka ákvörðun um hvort leikmenn skuli vera fleiri vígðir eða ekki? En það getur vel verið að kirkjan vilji hafa þetta með þessum hætti. Því er ástæða til að spyrja hæstv. dómsmálaráðherra: Af hverju er ekki gengið lengra hvað þetta varðar?

Við sjáum einnig í 3. gr. að ætlast er til að frumvarpið verði að lögum 1. janúar 2006. Það er augljóslega ætlast af okkur í allsherjarnefnd að hafa hraðar hendur í ljósi þess að aðeins fimm þingfundadagar eru eftir. En á meðan þetta mál þarf ekki að fara til umsagnar ætti það af okkar hálfu alveg að vera hægt.