Tekjustofnar sveitarfélaga

Þriðjudaginn 29. nóvember 2005, kl. 18:29:13 (2510)


132. löggjafarþing — 32. fundur,  29. nóv. 2005.

Tekjustofnar sveitarfélaga.

364. mál
[18:29]
Hlusta

Kristján L. Möller (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Svar hv. þingmanns kom mér ekki á óvart. Það eru fasteignagjöld af einni lítilli heilsugæslustöð. Það er svona það sem mér datt í hug miðað við að þekkja til staðarins.

En ég verð að segja alveg eins og er að mér þótti mjög ánægjulegt að heyra hv. þingmann, þingmann Sjálfstæðisflokksins og jafnframt oddvita í litlu sveitarfélagi, segja okkur það að tekjurnar muni lítið aukast við þá breytingu sem hér er lögð til. Þetta er auðvitað það sem menn hafa gagnrýnt í þessum breytingum og ég tala nú ekki um svo aftur hitt atriðið hvenær húseignir eru skráðar inn, að þær tekjur sem þar munu streyma inn verði þá væntanlega ekki heldur til þess að auka tekjur Höfðahrepps miðað við þá breytingu sem hér er.

Frú forseti. Það sem kemur hér fram í máli hv. þingmanns, sem er eins og ég hef áður sagt jafnframt oddviti í litlu sveitarfélagi úti á landi, er það að tekjurnar muni sáralítið aukast.