Textun innlends sjónvarpsefnis

Mánudaginn 05. desember 2005, kl. 15:29:06 (2549)


132. löggjafarþing — 34. fundur,  5. des. 2005.

Textun innlends sjónvarpsefnis.

[15:29]
Hlusta

menntamálaráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S):

Frú forseti. Já, ég tek undir með hv. þingmanni, það er mikilvægt að áfram verði haldið við það að texta meira en nú er gert. Það hefur verið aukið töluvert en ekki er nóg að gert. Ég mun halda áfram að fylgja eftir þeirri fyrirætlan forvera míns, sérstaklega þá í tengslum og samskiptum við Ríkisútvarpið. Ég tel að borð sé fyrir báru á þeim bænum og sér í lagi kannski í ljósi þess að nú hafa báðir þingflokkar ríkisstjórnarinnar, þingflokkar Framsóknar- og Sjálfstæðisflokks, samþykkt breytingar á stjórnskipulagi Ríkisútvarpsins, að breyta því í hlutafélag. Ég geri ráð fyrir því að við það aukist svigrúm Ríkisútvarpsins til að sinna einmitt þessari mikilvægu almannaþjónustu.

Það er líka rétt sem kom fram hjá hv. þingmanni að svo var litið til hluta af þeirri afnotagjaldshækkun upp á 5% á sínum tíma að hann ætti m.a. að fara í það að auka textun á efni. Ég mun fylgja þessu eftir og gera það innan tíðar.