Fjárlög 2006

Þriðjudaginn 06. desember 2005, kl. 22:46:19 (2730)


132. löggjafarþing — 35. fundur,  6. des. 2005.

Fjárlög 2006.

1. mál
[22:46]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Þetta er ekki aðeins blaut tuska í andlitið á Mannréttindaskrifstofu Íslands. Þetta er blaut tuska í andlitið á nánast öllum almannasamtökum í landinu sem óska eftir því og krefjast þess af Alþingi og ríkisstjórninni að veita framlag til mannréttindamála, til Mannréttindaskrifstofu Íslands. Það eru mikil vonbrigði að heyra svar hæstv. ráðherra.

Hæstv. ráðherra segir að skoða eigi stöðu öldrunar- og hjúkrunarheimila. Þetta var sagt í fyrra, líka í hittiðfyrra. Og nú höfum við fengið bréf, Alþingi hefur fengið bréf, fjárlaganefnd, þar sem forsvarsmenn þessara stofnana segja, með leyfi forseta: „Það er því ekki að ástæðulausu sem forsvarsmenn öldrunarheimila hafa áhyggjur af stöðu og framtíð heimilanna og þeim öldruðu og sjúku sem þar dvelja.“ Ríkisstjórnin og hæstv. fjármálaráðherra hafa hins vegar engar áhyggjur af þessu. Þetta er fullkomið ábyrgðarleysi og gagnvart öldruðum og Landssambandi eldri borgara mundu samningar við þau samtök að sjálfsögðu hafa áhrif á fjárlög á næsta ári (Forseti hringir.) og þess vegna er eðlilegt að ganga til samninga áður en samningum er lokað.