Ástand íslenska þorskstofnsins og veiðihorfur

Fimmtudaginn 08. desember 2005, kl. 13:46:19 (2909)


132. löggjafarþing — 39. fundur,  8. des. 2005.

Ástand íslenska þorskstofnsins og veiðihorfur.

[13:46]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Frú forseti. Það er að sjálfsögðu mikið áhyggjuefni og mikil vonbrigði hversu hægt hefur miðað ef það hefur yfir höfuð eitthvað miðað við að byggja upp þorskstofninn sl. 20–30 ár. Menn deila eðlilega um það hvað valdi og það verður sjálfsagt seint úr um það skorið með óyggjandi hætti og ekki gerir það viðfangsefnið auðveldara að við stöndum frammi fyrir miklum breytingum í umhverfisþáttum sem gera að sjálfsögðu allan samanburð við eldri tíma erfiðari. Við horfum á aukinn sjávarhita og áhrif af loftslagsbreytingum og fleira í þeim dúr og við þessar aðstæður söknum við þess auðvitað tilfinnanlega að vita ekki meira, að hafa ekki traustari grunn sem nær betur utan um málið í heild sinni í formi fjölstofna rannsókna, í formi rannsókna á samsettum umhverfisþáttum, á fæðubúskap einstakra nytjastofna, rannsókna á hrygningunni og því sem þar gerist og ekki síst rannsókna á mikilvægi þess að hrygningarstofninn sé samansettur á tiltekinn hátt, þ.e. að stórfiskurinn sem leggur kannski til öflugustu hrognin eða seiðin sé til staðar.

Ég held að það sé rétt sem hefur komið fram í máli margra að það þarf að beina sjónum meira að og reyna að stýra meira með tilliti til hluta eins og þess að sókninni sé ekki beinlínis beint í stærsta fiskinn. Við vitum það öll að bátar hafa róið með því hugarfari, jafnvel beinlínis með þeim fyrirmælum, að aflinn sem kæmi í land væri allur saman 8 kíló plús eða hvað það nú er kallað.

Ég er sömuleiðis þeirrar skoðunar, eins og hér hefur verið nefnt af fleirum, að flottrollsnotkunin sé mikið umhugsunarefni þótt ekkert annað kæmi til en það einfaldlega hversu gríðarlega stór og umfangsmikil þau veiðarfæri eru í geimnum. Þetta eru margir fótboltavellir sem eru dregnir þarna galopnir um stór hafsvæði og engin ástæða til að efast um að veruleg afföll verða á seiðum og ungviði margra tegunda sem kannski eiga í hlut. (Forseti hringir.)

Það er að mörgu að hyggja í þessum efnum og mikilvægt, frú forseti, að menn efli rannsóknir og takist á við þetta af einurð.