Olíugjald og kílómetragjald o.fl.

Fimmtudaginn 08. desember 2005, kl. 14:25:23 (2925)


132. löggjafarþing — 39. fundur,  8. des. 2005.

Olíugjald og kílómetragjald o.fl.

363. mál
[14:25]
Hlusta

Kristján L. Möller (Sf):

Virðulegi forseti. Það frumvarp sem við ræðum hér, um breytingu á lögum nr. 87/2004, um olíugjald og kílómetragjald o.fl., með síðari breytingum, er ágætisfrumvarp. Þar er verið að framlengja tímabundna lækkun á olíugjaldinu um 4 kr., úr 45 kr. í 41 kr., á hvern lítra af gjaldskyldri olíu fram til 1. júlí á næsta ári. Þetta er m.a. gert til að bregðast við tímabundinni óhagstæðri þróun á heimsmarkaði á dísilolíu, sem ég held að sé reyndar ekki tímabundin. Ég held frekar að þróunin verði til frambúðar á þann veg að ég reikna með að við eigum eftir að fá eitthvert svona frumvarp í lok þings næsta vor. Við eigum þá eftir að framlengja þetta frá 1. júlí 2006 vafalaust í sex mánuði í viðbót.

Eins og ég sagði, virðulegi forseti, erum við, fulltrúar Samfylkingarinnar og Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs í efnahags- og viðskiptanefnd, með fyrirvara á nefndaráliti okkar. Sá fyrirvari var vegna þess að við höfðum óskað eftir skriflegum gögnum frá fjármálaráðuneyti um heildarsölu á olíu til þess að reyna að gera okkur grein fyrir hver salan væri. Ég tek skýrt fram að hv. formaður nefndarinnar, Pétur H. Blöndal, beitti sér fyrir því að þau gögn bærust. Þau hafa hins vegar ekki borist. Ég vil taka fram að ég átti samtal við annan fulltrúa fjármálaráðuneytisins sem kom fyrir nefndina og ræddi þetta áðan. Ég geri ekki athugasemdir þótt þau skriflegu svör hafi ekki borist vegna þess að enn þá er svolítið erfitt að gera sér grein fyrir þessu.

Þó er rétt að taka fram að sölutölur fyrir júlí, ágúst og september liggja fyrir, 30 millj. lítra af olíu sem bera olíugjald. Það er rétt að taka fram að þetta eru auðvitað söluhæstu mánuðir ársins.

Á næstunni er einmitt verið að skila fyrir októbermánuð þannig að enn þá er erfitt að gera sér grein fyrir hver heildarsalan er og hverjar skatttekjur ríkisins af virðisaukaskattinum og olíugjaldi til Vegagerðarinnar verða. Það setur málið auðvitað í smáóvissu. Ég vildi taka þetta fram, virðulegi forseti, vegna þessa fyrirvara sem við, þessir hv. þingmenn, setjum við nefndarálitið.

Það er auðvitað dálítið bagalegt að enn skuli vera á floti hvaða tölur eigi að nota í þessu sambandi og stemmir ekki það sem notað er við fjárlög, það sem Vegagerðin notar og þriðju töluna hef ég einhvers staðar séð, um 90 millj. lítra. Það er nauðsynlegt að þetta komi fram.

Virðulegi forseti. Eins og ég sagði áðan styðjum við, fulltrúar Samfylkingar og Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs sem sæti eigum og fulltrúar þeirra á þingi, þessa lækkun vegna þess að hún er góð. Hún staðfestir það að ríkisstjórnin gekk of langt þegar olíugjaldið var sett í 45 krónurnar. Þetta er allt of hátt gjald.

Ég vil líka geta þess, virðulegi forseti, að í frumvarpi sem hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir og fleiri þingmenn Samfylkingar fluttu hér á þingi, 30. mál þessa þings, er fjallað um meiri lækkun á olíugjaldi, úr 41 kr. í 37 kr. Þar er líka lækkun á bensíngjaldinu vegna hins háa heimsmarkaðsverðs. Það frumvarp er í vinnslu í hv. efnahags- og viðskiptanefnd. Við viljum trúa því og treysta, og hvetjum hv. formann nefndarinnar, að það frumvarp fái umfjöllun og verði skoðað í nefndinni.