Olíugjald og kílómetragjald o.fl.

Fimmtudaginn 08. desember 2005, kl. 14:53:56 (2941)


132. löggjafarþing — 39. fundur,  8. des. 2005.

Olíugjald og kílómetragjald o.fl.

327. mál
[14:53]
Hlusta

Lúðvík Bergvinsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Við verðum að gæta þess hér, þegar við afgreiðum mál á hinu háa Alþingi, að við látum ekki kerfin algjörlega ráða för. Við megum heldur ekki í þessu efni fara að réttlæta þetta kerfi með því að við höfum haft vont kerfi. Á þá á þann hátt að réttlæta enn þá verra kerfi eins og hér er augljóslega um að ræða? Við þekkjum það held ég báðir, ég og hv. þm. Pétur Blöndal, að þetta er alveg óskaplega flókið og þetta er óskaplega snúið. Innheimtan er gríðarlega erfið og markmiðið sem að er stefnt stangast á við viðurkennt sjónarmið, t.d. umhverfissjónarmið, og einnig hvetur kerfið eiginlega til þess að ýta fjárfestingum í tiltekinn farveg. Það er t.d. skynsamlegt að fjárfesta í traktorum, tengivögnum og búkollum af því að þau tæki eru undanþegin einhvers konar gjaldi, og þá er ég að tala um tengivagna (Forseti hringir.) undir fimm tonnum.

Virðulegi forseti. Ég ítreka hvort ekki sé rétt að við frestum málinu og afgreiðum það ekki nú.