Örorka og velferð

Föstudaginn 09. desember 2005, kl. 10:33:09 (2984)


132. löggjafarþing — 40. fundur,  9. des. 2005.

Örorka og velferð.

[10:33]
Hlusta

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir (Sf):

Virðulegur forseti. Að undanförnu hefur verið mikið fjallað um málefni öryrkja í framhaldi af skýrslum, minnisblöðum og álitsgerðum um fjölgun þeirra, stöðu og kjör. Heilbrigðisráðuneytið lét Hagfræðistofnun Háskóla Íslands vinna fyrir sig skýrslu sem kom út fyrr á þessu ári um fjölgun öryrkja. Þar voru færð fram þau rök að sú hætta væri fyrir hendi að öryrkjum fjölgaði úr hófi ef örorkulífeyrir nálgaðist lágmarkslaun um of, það hvetti fólk til að reyna að komast á örorkulífeyri í stað þess að vinna fyrir sér. Þá var sett fram sú staðhæfing að hlutfallslega væri mest fjölgun í hópi ungra og miðaldra öryrkja.

Í framhaldi af þessari skýrslu ráðuneytisins vann Rannsóknarstöð þjóðmála rannsókn á þróun örorku og velferðar á Íslandi með tilstyrk Öryrkjabandalags Íslands. Þar er niðurstaðan sú að fjölgun öryrkja sé ekki öðru fremur meðal ungs fólks heldur sé hún mest í elstu aldurshópunum, eins og annars staðar á Vesturlöndum, þannig séu meira en 70% öryrkja 40 ára eða eldri.

Í skýrslu Rannsóknarstöðvar þjóðmála eru líka færð rök fyrir því að grunnlífeyrir og tekjutrygging öryrkja hafi ekki haldið í við þá tekjuþróun sem orðið hefur í landinu á síðasta áratug, m.a. vegna þeirrar aftengingar launa og bóta sem ákveðin var í árslok 1995 — eitt fyrsta verk þessarar ríkisstjórnar — og eins vegna aukinnar skattbyrði lágtekjufólks. Því hafi kaupmáttaraukning öryrkja verið minni en almenn kaupmáttaraukning í landinu og þegar heildartekjur þeirra eru skoðaðar út frá skattframtölum — og þá má einu gilda hvaðan tekjurnar eru komnar, hvort um er að ræða lífeyri, aldurstengdar greiðslur, launatekjur eða hvað það nú er — kom í ljós að meðaltekjur þeirra hafa ekki þróast eins og meðaltekjur annarra samfélagsborgara. Á þetta verði að líta og gera ráð fyrir að öryrkjar eigi rétt til sömu hlutdeildar og aðrir í vaxandi auðlegð samfélagsins.

Við þetta er svo því auðvitað að bæta að sannarlega hafa fleiri hópar en öryrkjar setið eftir í góðærinu, svo sem aldraðir og láglaunafólk, sem hvorki njóta launaskriðs né þeirra fjármagnstekna sem hafa vaxið mikið á undanförnum árum. Vaxandi tekjumunur í samfélaginu er reyndar efni í aðra umræðu, virðulegur forseti.

Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið og fjármálaráðuneytið hafa gagnrýnt skýrsluna og tekið saman athugasemdir við hana. Þar er því haldið fram að í skýrslunni sé hvorki tekið nægilegt tillit til þeirrar kjaraleiðréttingar sem varð með tekjutryggingaraukanum sem kom til sögunnar árið 2001 né til aldurstengdrar örorkuuppbótar sem kom til framkvæmda í ársbyrjun 2004. Báðar þessar leiðréttingar voru sannarlega til bóta en þær dugðu ekki til þar sem segja má að aukin skattbyrði hafi étið upp stærstan hlutann af aldurstengdu bótunum.

Stefán Ólafsson prófessor, sem skrifaði skýrsluna, segir frá því í minnisblaði sem hann gaf út í gær hver sé stjarnan í örorkulífeyriskerfinu, eins og hann orðar það. Jú, það er einstaklingur sem er óvinnufær og hefur verið metinn öryrki fyrir 18 ára aldur. Hann á rétt á hámarkslífeyri frá Tryggingastofnun ríkisins og fær rúmar 127 þús. kr. á mánuði. Þar af er aldurstengda uppbótin tæplega 22 þús. kr. Síðan greiðir hann 19.748 kr. í skatta, þ.e. aldurstengda uppbótin fer nær öll í skatta. Ráðstöfunartekjur viðkomandi eru ríflega 107 þús. kr. allt árið um kring ævina á enda ef það á að reikna með því að hlutir verði áfram eins og þeir eru. Þetta er toppurinn í kerfinu, þetta er stjarnan.

Umræðurnar um öryrkjaskýrsluna sem og sá þungi sem er í málflutningi aldraðra vegna stöðu og kjara þeirra endurspeglar þann trúnaðarbrest sem orðið hefur milli ríkisstjórnarinnar og þessara hópa. Það er augljóst hverjum manni að megn óánægja hefur grafið um sig hjá þessum hópum sem finnst sem góðærið hafi farið fram hjá sér. Mikil auðlegð blasir við hvarvetna en líka aukin misskipting lífskjara. Íslenskt samfélag á mjög erfitt með að þola þetta, það er auðvitað ástæðan fyrir þessari óánægju. Uppi eru háværar kröfur um að einhverjar tilraunir séu hafðar uppi af hálfu stjórnvalda til að sporna gegn þessari þróun með stjórnvaldsaðgerðum.

Ég spyr því hæstv. forsætisráðherra hvort hann sé tilbúinn til þess að vinna markvissa og sanngjarna áætlun til næstu fimm ára í samvinnu við samtök öryrkja og aldraðra um umbætur á lífeyriskerfinu, áætlun sem stuðli að því að lífeyrisþegar njóti sambærilegra kjara við aðra þjóðfélagsþegna og skapi þeim betri skilyrði til þess að lifa eðlilegu lífi.