Starfsmannaleigur

Föstudaginn 09. desember 2005, kl. 12:02:32 (3006)


132. löggjafarþing — 40. fundur,  9. des. 2005.

Starfsmannaleigur.

366. mál
[12:02]
Hlusta

Jóhanna Sigurðardóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég er hissa á því að hv. þm. Pétur Blöndal tali með þeim hætti sem hann gerði. Ef ég hef skilið hv. þingmann rétt þá er ástæðan fyrir því — þó hann eigi auðvitað að túlka það sjálfur — að hann stendur ekki að þessu nefndaráliti að honum finnst óforsvaranlegt að mál sem koma frá aðilum vinnumarkaðarins séu með þeim hætti að þinginu séu settar þær skorður að það megi engu breyta. Nú þegar ég hef lagt fram breytingartillögu, því að ég er ekki ánægð með að ákvæði um notendaábyrgð sé ekki fyrir hendi, heyri ég ekki betur en hv. þingmaður sé að gera athugasemd við það. Auðvitað er það svo að þó aðilar vinnumarkaðarins geri með sér samkomulag bindur það ekki hendur þingsins. Af sjálfu leiðir. Þingmenn eru fyrst og fremst bundnir af eigin sannfæringu og samvisku og stjórnarskránni. Þannig að það er ekkert höfuðatriði þó að aðilar vinnumarkaðarins komi sér saman um eitthvert mál sem er lægsti samnefnari — mér skilst að SA þyki of langt gengið en ASÍ telji of skammt gengið. Það er náttúrlega ávísun á það að sett er fram frumvarp sem er ekki fullkomið að því leyti að við getum kannski treyst því 100% að það þjóni þeim tilgangi og markmiðum sem því er ætlað. Við teljum það lykilatriði að ákvæði um notendaábyrgð sé sett inn. Það er ástæðan fyrir því að við flytjum þessa breytingu. Ég er alveg í hópi með hv. þm. Pétri Blöndal, af því ég hélt að það væri ástæðan fyrir því að hann stæði ekki að nefndarálitinu, að ákvæði og samningar sem aðilar vinnumarkaðarins gera eiga auðvitað ekki að binda þingmenn. Þeir eiga að fara að sinni eigin samvisku.