Starfsmannaleigur

Föstudaginn 09. desember 2005, kl. 13:12:11 (3030)


132. löggjafarþing — 40. fundur,  9. des. 2005.

Starfsmannaleigur.

366. mál
[13:12]
Hlusta

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þm. Össur Skarphéðinsson talaði um að sá sem hér stendur gæti ekki fylgst með því sem gerðist í þjóðfélaginu, sæi ekki blöð og annað slíkt (ÖS: Ég gerði ekki kröfu til þess.) Já, gerði ekki kröfu til þess. Ég verð að viðurkenna að ég geri örlitlar kröfur til hv. þm. Össurar Skarphéðinssonar, ekki miklar en þó þær að fari hann í andsvar þá hlusti hann í það minnsta á það sem er sagt.

Varðandi sveigjanleika vinnumarkaðarins þá fór ég yfir það að ef við förum út á braut opinbers kjaraeftirlits þá tel ég það ekki skynsamlegt. Ég hef áhyggjur af því þegar við stígum slík skref. Af hverju? Jú, þessi ágætu lönd sem við berum okkur saman við, sem búa við mikið atvinnuleysi, hv. þm. Össur Skarphéðinsson nefndi eitt þeirra, hafa m.a. farið þá leið. Þau eiga erfitt með að snúa frá því en eru sammála um að það sé ekki góð leið fyrir vinnumarkaðinn og ekki til þess fallin að hækka atvinnustigið eða auka atvinnu í viðkomandi landi.

Ég geri engar sérstakar kröfur til hv. þm. Össurar Skarphéðinssonar en þó þær að hann hlusti á ræður sem hann ætlar í andsvar við þannig að hann hafi efni þeirra nokkurn veginn á hreinu þegar hann kemur í ræðustól. Ég held að það sé ekki til of mikils mælst að fara fram á slíkt. Eftir stendur hins vegar að forustumaður Samfylkingarinnar lýsti því yfir að geri ríkisvaldið samkomulag við aðila vinnumarkaðarins þá skipti það ekki máli.

Ég sat fundi félagsmálanefndar um þetta mál. Ég var viðstaddur þegar fulltrúar samtaka atvinnulífsins og verkalýðshreyfingarinnar komu fyrir nefndina. Þeir eru svo sannarlega ekki á sama máli og hv. þm. Össur Skarphéðinsson.