Búnaðargjald

Föstudaginn 09. desember 2005, kl. 16:25:58 (3093)


132. löggjafarþing — 40. fundur,  9. des. 2005.

Búnaðargjald.

332. mál
[16:25]
Hlusta

Frsm. landbn. (Drífa Hjartardóttir) (S):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti um frumvarp til laga um breytingu á lögum um búnaðargjald, nr. 84/1997, með síðari breytingum, frá landbúnaðarnefnd.

Með frumvarpinu er lagt til að búnaðargjald verði lækkað úr 2% í 1,2% vegna niðurfellingar laga um Lánasjóð landbúnaðarins. Búnaðargjaldið lækkar í samræmi við það hlutfall sem áður rann til lánasjóðsins. Á árinu 2004 námu álagðar tekjur af búnaðargjaldi 312 millj. kr. og þar af runnu 115 millj. kr. til Lánasjóðs landbúnaðarins, eða rétt tæp 37% teknanna.

Búnaðargjald var fyrst innheimt á árinu 1997 og innheimtufyrirkomulag einfaldað með því að sameina innheimtuferli nokkurra gjalda og hafa einn gjaldstofn undir heitinu búnaðargjald en markmiðið var að gera innheimtuna einfalda, örugga og ódýra.

Nefnd á vegum forsætisráðuneytisins er að störfum þar sem verið er m.a. að skoða fyrirkomulag vegna sjóðagjalda. Þá telur nefndin brýnt að niðurstöður þeirrar nefndar komi sem allra fyrst.

Nefndin leggur til eftirfarandi breytingar:

1. Lagt er til að í 1. gr. frumvarpsins verði eingöngu breytt prósentuhlutfallinu varðandi búnaðargjaldið en óþarft er að taka málsliðinn upp í heild sinni í frumvarpstextanum. Með þeirri breytingu sem hér er lögð til kemur skýrar fram að aðeins sé verið að breyta prósentuhlutfallinu.

2. Lagt er til að í stað hlutfallstölunnar „2.00%“ í 2. málsl. 1. mgr. 4. gr. laganna komi: 1,2%.

3. Lagt er til að gildistökuákvæðið breytist þannig að lögin öðlist gildi 1. janúar 2006 og komi til framkvæmda við ákvörðun fyrirframgreiðslu á árinu 2006 og við álagningu búnaðargjalds á árinu 2007.

4. Lagt er til að sett verði ákvæði til bráðabirgða sem kveði á um að mismunur á hluta Lánasjóðs landbúnaðarins, sbr. 6. gr. laganna, í endanlega ákvörðuðu búnaðargjaldi skv. 5. gr. laganna og fyrirframgreiddu gjaldi skv. 4. gr. laganna skuli vera á ábyrgð Lífeyrissjóðs bænda. Skv. 2. gr. laga nr. 68/2005 fellur Lánasjóður landbúnaðarins niður 31. desember 2005 og kemur því í hlut Lífeyrissjóðs bænda að taka ábyrgð á að greiða þann mismun til búvöruframleiðenda sem skapast getur vegna fyrirframgreiðslunnar.

Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með framangreindum breytingum sem gerðar eru tillögur um í sérstöku þingskjali.

Anna Kristín Gunnarsdóttir, Margrét Frímannsdóttir og Valdimar L. Friðriksson skrifa undir álitið með fyrirvara.

Guðjón A. Kristjánsson sat fund nefndarinnar sem áheyrnarfulltrúi og er samþykkur áliti þessu með sama fyrirvara og framangreindir nefndarmenn.

Undir þetta nefndarálit rita Drífa Hjartardóttir formaður, Anna Kristín Gunnarsdóttir með fyrirvara, Magnús Stefánsson, Einar Oddur Kristjánsson, Margrét Frímannsdóttir með fyrirvara, Kjartan Ólafsson, Dagný Jónsdóttir og Valdimar L. Friðriksson með fyrirvara.