Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 225. máls.
132. löggjafarþing 2005–2006.
Þskj. 225  —  225. mál.




Frumvarp til laga



um breyting á lögum um þingsköp Alþingis, nr. 55/1991, með síðari breytingum.

Flm.: Mörður Árnason.



1. gr.

    Við 49. gr. laganna bætist ný málsgrein sem orðast svo:
    Óski alþingismaður upplýsinga um rekstur eða stjórnsýslu Alþingis er honum heimilt að gera það með fyrirspurn til forseta. Um slíka fyrirspurn fer eins og fyrirspurn til ráðherra. Sé óskað munnlegs svars skal fyrirspurnin borin fram á sérstökum fyrir fram ákveðnum fundi.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.


    Nauðsynlegt er að þingmenn geti fengið upplýsingar um rekstur og stjórnsýslu Alþingis með svipuðum hætti og um rekstur og stjórnsýslu framkvæmdarvaldsins. Samkvæmt þingsköpum er nú aðeins hægt að bera slíkar fyrirspurnir fram í umræðum um störf þingsins eða með fyrirspurn til forsætisráðherra. Því er í frumvarpinu gert ráð fyrir að forseti svari skriflegum og munnlegum fyrirspurnum á svipaðan hátt og ráðherrar. Eðlilegt þykir að munnleg fyrirspurn til forseta sé tekin fyrir á sérstökum fundi en síður í sama fyrirspurnatíma og handhafar framkvæmdarvaldsins sitja fyrir svörum þingmanna.