Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 252. máls.
132. löggjafarþing 2005–2006.
Þskj. 252  —  252. mál.




Frumvarp til laga



um breytingu á lögum um tannlækningar, nr. 38/1985, með síðari breytingum.

Flm.: Jón Gunnarsson, Jónína Bjartmarz, Ögmundur Jónasson, Magnús Þór Hafsteinsson,
Guðrún Ögmundsdóttir, Margrét Frímannsdóttir, Þórunn Sveinbjarnardóttir,
Þuríður Backman, Lúðvík Bergvinsson, Anna Kristín Gunnarsdóttir,
Dagný Jónsdóttir, Ásta R. Jóhannesdóttir, Valdimar L. Friðriksson.


1. gr.

    Við 11. gr. laganna bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
    Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. er tannlæknum skylt að auglýsa gjaldskrá sína árlega, sem og breytingar á henni, jafnóðum og þær eru gerðar. Skulu tannlæknar einnig senda Tryggingastofnun ríkisins gjaldskrána ásamt breytingum. Þá er tannlæknum skylt að hafa gjaldskrána sýnilega sjúklingum á biðstofu. Um aðgengi að upplýsingum um gjaldskrár, birtingu gjaldskrár og takmörkun auglýsingaskyldu við algengustu liði gjaldskrár fer nánar samkvæmt reglugerð ráðherra.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.


    Frumvarp þetta var lagt fram á 131. löggjafarþingi (656. mál. á þskj. 996) en var ekki rætt og er því lagt fram á ný. Markmiðið með frumvarpinu er að gera neytendum kleift að afla sér upplýsinga um gjaldskrár tannlækna. Í frumvarpinu er því gerð tillaga um að tannlæknum verði skylt að auglýsa gjaldskrá sína árlega og jafnframt þegar gerðar eru á henni breytingar. Einnig er gerð tillaga um að gjaldskrá tannlækna skuli vera sýnileg á biðstofum þeirra til kynningar fyrir þá sjúklinga sem þar koma.
    Flutningsmenn frumvarpsins telja mikilvægt að þeir sem hyggjast leita sér tannlæknaþjónustu geti haft greiðari aðgang að gjaldskrám einstakra tannlækna. Í gildandi lögum um tannlækningar, nr. 38/1985, eru starfandi tannlæknum bannaðar hvers konar auglýsingar á starfsemi sinni, þ.m.t. auglýsingar um gjaldskrá. Í frumvarpinu er lagt til að tannlæknum verði ekki lengur bannað að auglýsa gjaldskrá sína heldur gert skylt að auglýsa hana árlega og að nýju ef henni er breytt.
    Þá er lagt til að ráðherra verði heimilað að takmarka auglýsingaskylduna við algengustu liði gjaldskrár í stað þess að auglýsa alla liði hennar þar sem kostnaður við slíkar auglýsingar gæti reynst óhóflegur og íþyngjandi. Hægt væri að fela Tryggingastofnun ríkisins að skilgreina hvaða liði gjaldskrár væru auglýstir hverju sinni eða styðjast við 4. gr. reglna Samkeppnisstofnunar um verðupplýsingar á þjónustu tannlækna, nr. 446/2004, um útdrátt úr gjaldskrá. Einnig er lagt til að ráðherra ákveði hvar birta beri auglýsingu um gjaldskrá og hvar best sé að safna upplýsingunum saman þannig að aðgengi almennings að þeim sé tryggt. Þar mætti hugsa sér að Tannlæknafélag Íslands, Neytendasamtökin, Samkeppnisstofnun eða Tryggingastofnun gætu haldið utan um þessar upplýsingar og haft þær aðgengilegar á netinu.
    Flutningsmenn telja mikilvægt að Tryggingastofnun geti birt upplýsingar tannlækna um gjaldskrá á upplýsingavef sínum fyrir þá sem rétt eiga á endurgreiðslum samkvæmt gildandi lögum og reglum. Þá telja þeir einnig mikilvægt að þar sem gjaldskrá tannlækna á Íslandi er algjörlega frjáls sé nauðsynlegt að einstaklingar, sem lög og reglur um endurgreiðslu á kostnaði vegna tannlækninga gilda ekki um, verði gert kleift á skjótan og auðveldan hátt að bera saman gjaldskrá einstakra tannlækna áður en ákvörðun er tekin um að sækjast eftir þjónustu tannlæknis. Verulegur munur er á gjaldskrám einstakra tannlækna og því verulegur munur á því gjaldi sem sjúklingar greiða fyrir sambærileg læknisverk. Því er nauðsynlegt að tryggja aðgang neytenda að upplýsingum um þjónustuna til þess að veita aðhald og auka samkeppni.
    Samkvæmt lögum um almannatryggingar, nr. 117/1993, með síðari breytingum, greiðir Tryggingastofnun ríkisins hlut sjúkratrygginga í tannlæknaþjónustu sem nánar er útfært í reglugerð nr. 815/2002, um þátttöku Tryggingastofnunar í kostnaði vegna tannlækninga. Þá greiðir stofnunin sjúkratryggðum einstaklingum til baka kostnað vegna tannlækninga sem nemur ákveðnu hlutfalli af útgefinni gjaldskrá heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra, nr. 898/2002, með síðari breytingum.
    Endurgreiðslan byggist á 1. gr. reglugerðarinnar:
    „Tryggingastofnun ríkisins greiðir sjúkratryggðum vegna tannlæknaþjónustu samkvæmt reglugerð þessari og gjaldskrá heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra samkvæmt 37. grein almannatryggingalaga eða gildandi samningum sem samninganefnd heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra skv. 42. gr. laga um heilbrigðisþjónustu hefur gert á hverjum tíma.“
    Hlutfallsleg endurgreiðsla af umræddri gjaldskrá er skv. 2. gr. reglugerðarinnar:
    „Geiðslur til sjúkratryggðra samkvæmt þessum kafla skulu vera það hlutfall af gjaldskrá ráðherra sem hér segir:

1. 100%: Vegna elli- og örorkulífeyrisþega sem eru langsjúkir og dveljast á sjúkrahúsum, hjúkrunarheimilum eða hjúkrunarrýmum á öldrunarstofnunum, sbr. þó 5. gr.
2. 75%: Vegna elli- og örorkulífeyrisþega sem njóta tekjutryggingar, sbr. þó 5. gr.
3. 75%: Vegna barna og unglinga, yngri en 18 ára. Þó skal ein skoðun á ári greidd að fullu samkvæmt gjaldskrá ráðherra. Ekki er heimilt að taka þátt í kostnaði vegna gullfyllinga, króna, brúa eða annarrar sambærilegrar meðferðar, svo sem tannplanta.
4. 50%: Vegna elli- og örorkulífeyrisþega sem njóta ekki tekjutryggingar, sbr. þó 5. gr.

    Í svari heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra við fyrirspurn fyrsta flutningsmanns á 131. löggjafarþingi (þskj. 566, 261. mál) kom fram að stór hluti tannlækna og sérfræðinga í tannlækningum er með gjaldskrá sem er talsvert hærri en sú sem ráðherra setur og er grundvöllur endurgreiðslna til þeirra sem rétt eiga á endurgreiðslum frá hinu opinbera samkvæmt almannatryggingalögum.
    Svarið leiðir í ljós að þrátt fyrir að Tryggingastofnun greiði sjúkratryggðum í samræmi við ákvæði reglugerðar fá þeir ekki endurgreitt það hlutfall af heildarreikningi sem reglugerðin kveður á um þar sem gjaldskrá tannlækna er mun hærri en viðmiðunargjaldskrá ráðherra sem endurgreiðslurnar eru grundvallaðar á. Hér gildir einu hvort um er að ræða elli- og örorkulífeyrisþega eða börn og unglinga yngri en 18 ára.
    Ef tannlæknir er með gjaldskrá sem er 35% hærri en viðmiðunargjaldskrá ráðherra þýðir það eftirfarandi endurgreiðslu til mismunandi hópa (samkvæmt svari ráðherra eru 64 tannlæknar með gjaldskrá sem er 30–40% yfir ráðherragjaldskrá).
    100% endurgreiðsla verður 74% af reikningi tannlæknis.
    75% endurgreiðsla verður 56% af reikningi tannlæknis.
    50% endurgreiðsla verður 37% af reikningi tannlæknis.
    Meiru munar hjá þeim 30 tannlæknum sem eru með gjaldskrá á bilinu 40–65% yfir ráðherragjaldskránni. Af 43 sérfræðingum í tannlækningum sem svarið fjallaði um reyndust 13 þeirra með gjaldskrá sem var á bilinu 40–106% yfir viðmiðunargjaldskrá ráðherra.
    Ef reikningur fyrir aðgerð hjá tannlækni eða sérfræðingi er 50.000 kr., gjaldskrá hans 40% yfir viðmiðunargjaldskrá og sjúklingurinn sjúkratryggður er munurinn á endurgreiðslu og raungreiðslum eftirfarandi:

Endurgreiðsla á að vera Endurgreiðsla er Á að vera kr. Er kr. Mismunur kr.
100% 71% 50.000 35.700 14.300
75% 54% 37.500 27.000 10.500
50% 36% 25.000 18.000 7.000

    Við útreikning á fyrrgreindum dæmum er ekki tekin nein afstaða til þess hvaða gjaldskrá er „rétt“ en hann er gerður til að sýna fram á að vegna misræmis í gjaldskrá sem ráðherra setur og gjaldskrá starfandi tannlækna greiða sjúkratryggðir hærra hlutfall af reikningum sínum en ef ráðherra og tannlæknar kæmust að niðurstöðu um eina gjaldskrá sem gilda ætti fyrir sjúkratryggða. Meðan misræmis gætir, og einnig til upplýsingar fyrir sjúklinga utan sjúkratrygginga, hlýtur að vera nauðsynlegt fyrir neytendur tannlæknaþjónustu að geta séð hver gjaldskrá tannlækna er í raun og veru.
    Samkeppnisstofnun hefur gefið út reglur nr. 446 frá 14. maí 2004, um verðupplýsingar á þjónustu tannlækna. Þar segir að markmið reglnanna sé að bæta upplýsingar til neytenda og auðvelda verðsamanburð. Í 2. gr. segir: „Gjaldskrá sem sýnir verð á öllum aðgerðaliðum sem framkvæmdir eru hjá tannlækni skal liggja frammi á tannlæknastofu. Tannlækni sem reglur þessar taka til er skylt að hafa útdrátt úr gjaldskrá á áberandi stað á biðstofu sinni.“
    Það er ljóst af reglum Samkeppnisstofnunar að verið er að reyna að auka upplýsingaflæði til neytenda tannlæknaþjónustu innan ramma gildandi laga, en ljóst er þó öllum að erfitt er að bera saman verð einstakra tannlækna nema með ferðalögum milli tannlæknastofa eða miklum hringingum til að fá upplýsingar um gjaldskrá og þá um leið hugsanlegt endurgreiðsluhlutfall af heildargreiðslu sjúklings frá Tryggingastofnun ef um sjúkratryggðan einstakling er að ræða.
    Aðrar Norðurlandaþjóðir hafa í auknum mæli sett reglur um skyldur tannlækna til að upplýsa sjúklinga sína um verð þjónustunnar. Tannlæknum þar er almennt gert skylt að gera skriflegar kostnaðaráætlanir og leggja fyrir sjúklinga áður en aðgerð hefst og er jafnvel í bígerð sums staðar að þeir verði að kynna væntanlegan kostnað þegar sjúklingar eru kallaðir inn í reglubundið eftirlit með tannheilsu. Samkeppnisstofnun hefur tekið á skyldu til að framvísa kostnaðaráætlun í reglum sínum en miðar þá við 100.000 íslenskar krónur sem er talsvert hærra en gengur og gerist í þeim nágrannalöndum okkar þar sem þetta er tíðkað.

Samanburður milli landa.
Ísland.

    Íslenskum tannlæknum er skylt að hafa gjaldskrá á áberandi stað á biðstofu og gefa skriflega kostnaðaráætlun ef kostnaður mun fara yfir 100.000 kr. (Reglur Samkeppnisstofnunar nr. 446/2004.)

Danmörk.
    Dönskum tannlæknum er skylt að hafa gjaldskrá á biðstofu og gefa skriflega kostnaðaráætlun ef kostnaður mun fara yfir 2.500 danskar kr. (25.000 ísl. kr.).
    Danska samkeppnisstofnunin telur að skortur sé á verðsamkeppni meðal tannlækna.
    Ríkisstjórnin ætlar að gera breytingar á ýmsum lögum og reglum til þess að gera samkeppnisumhverfi í Danmörku með því besta sem gerist innan OECD fyrir árið 2010. Meðal annars er ætlunin að auka gegnsæi á tannlæknamarkaðnum.
    (www.ks.dk/publikationer/konkurrence/2004/konk-strategi-hov/fak-generelt.)

Noregur.
    Norskum tannlæknum er skylt að hafa gjaldskrá á biðstofu og gefa skriflega kostnaðaráætlun ef kostnaður mun fara yfir 2.000 norskar kr. (20.000 ísl. kr.).
    Samkeppnisstofnun Noregs álítur að skortur á verðupplýsingum sé ein meginskýringin á því hvers vegna verð tannlækna hefur hækkað eins mikið og raun ber vitni frá því að gjaldskrá tannlækna var gefin frjálst árið 1995. (KonkurranseNytt, 6, 6/2004.)

Svíþjóð.
    Sænska samkeppnisstofnunin telur að skortur sé á verðsamkeppni meðal tannlækna.
    Stofnunin leggur til að upplýsingar til neytenda um verð verði bættar og tekur undir tillögur sænsku neytendasamtakanna um að skylda verði tannlækna til að gefa skriflega kostnaðaráætlun og birta verðskrá sína á biðstofu. Einnig er lagt til að tannlæknar verði skyldaðir til að senda sænsku tryggingastofnuninni, „Försäkringskassan“, verðlista og að stofnunin ákveði hvenær og hvernig slíkir listar verði settir fram og sendir. Stofnunin birti listana á heimasíðu sinni. Sektir verði við brotum á að afhenda rétta lista.
    Neytendasamtökin leggja enn fremur til að tannlæknum verði skylt að geta um væntanlegan kostnað þegar þeir kalla sjúklinga inn í reglubundið eftirlit og hvaða meðferð sé fyrirhuguð.

Samanburður á gjaldskrám tannlækna á milli landa.
Heimild: Rapport vedr. Konkurrencebegrænsende love og regler på tandområdet, útg.: fjármála-, heilbrigðis- og viðskiptaráðuneyti Danmerkur, júní 2004. Verð í skýrslunni er fyrir árið 2003.
Breskar tölur í skýrslunni eru úr einkarekstri og einnig þýskar tölur sem eru frá Slésvík-Holtsetalandi.
Tölur í skýrslunni eru í dönskum krónum og er reiknað með að 1 dönsk kr. jafngildi 10 ísl. kr.
Tölur fyrir Ísland eru úr gjaldskrá nr. 898/2002, frá árinu 2003.
Frjálst
verð Ísl.*

Danmörk

Bretland

Ísland

Þýskaland

Noregur

Svíþjóð
Áfangaeftirlit með röntgenskoðun 4.758 2.200 3.990 3.660 960 3.350 3.270
Röntgenmynd 1.274 1.100 1.660 980 390 580 260
Plastviðgerð, 1 flötur 6.734 3.620 7.030 5.180 1.900 3.520 3.830
Fylling, 2 fletir 8.567 7.860 10.140 6.590 5.700 5.930 5.430
Úrdráttur tannar, deyfing innifalin 3.328 1.970 4.090 2.560 1.840 4.650 4.830
Rótfylling, tönn með 1 rótargang 16.653 10.070 19.660 12.810 9.000 15.700 13.700
Steypt króna, gull eða postulín 62.530 53.660 42.300 48.100 39.000 36.200 28.200
Þriggja liða brú úr gulli eða postulíni 163.540 156.440 126.900 125.800 119.000 107.520 72.520
Samtals 267.384 236.920 215.770 205.680 177.790 177.450 132.040
* Meðalverð íslenskra tannlækna er um 30% hærra en gjaldskrá nr. 898/2002.

    Megintilgangur þeirra breytinga sem lagðar eru til í frumvarpinu er sá að auðvelda neytendum tannlæknaþjónustu að bera saman gjaldskrár tannlækna sem eru afar mismunandi og í mörgum tilfellum hærri en opinber gjaldskrá heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra sem er grundvöllur endurgreiðslna ríkisins á tannlæknakostnaði til sjúkratryggðra. Þar sem gjaldskrár einstakra tannlækna eru algjörlega frjálsar er það sjálfsagður réttur neytenda að hafa greiðan aðgang að upplýsingum um þær og ekki verður séð að unnt sé að ná því takmarki nema með opinberri birtingu gjaldskránna og aðgengi að þeim á einum stað.