Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 285. máls.
Þskj. 300  —  285. mál.




Tillaga til þingsályktunar

um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 123/2003, um breytingu á XX. viðauka (Umhverfismál) við EES-samninginn.

(Lögð fyrir Alþingi á 132. löggjafarþingi 2005–2006.)




    Alþingi ályktar að heimila ríkisstjórninni að staðfesta fyrir Íslands hönd ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 123/2003 frá 26. september 2003, um breytingu á XX. viðauka (Umhverfismál) við EES-samninginn frá 2. maí 1992, og fella inn í samninginn tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2003/4/EB frá 28. janúar 2003 um almennan aðgang að upplýsingum um umhverfismál og niðurfellingu á tilskipun ráðsins 90/313/EBE.

Athugasemdir við þingsályktunartillögu þessa.


1. Inngangur.
    Með þingsályktunartillögu þessari er leitað heimildar Alþingis til staðfestingar á ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 123/2003 frá 26. september 2003, um breytingu á XX. viðauka (Umhverfismál) við EES-samninginn frá 2. maí 1992, og til að fella inn í samninginn tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2003/4/EB frá 28. janúar 2003 um almennan aðgang að upplýsingum um umhverfismál og niðurfellingu á tilskipun ráðsins 90/313/EBE.
    Ákvörðun þessi kallar á lagabreytingar hér á landi og var tekin af sameiginlegu EES- nefndinni með stjórnskipulegum fyrirvara af Íslands hálfu. Í tillögu þessari er gerð nánari grein fyrir því hvað felst í slíkum fyrirvara, sbr. 103. gr. EES-samningsins. Jafnframt er gerð grein fyrir efni þeirrar tilskipunar sem hér um ræðir. Gerð þessi felur ekki í sér breytingar á þeim meginreglum sem í EES-samningnum felast.
    Ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar sem hér um ræðir er prentuð sem fylgiskjal með tillögu þessari ásamt gerðinni sjálfri.

2. Um stjórnskipulegan fyrirvara.
    EES-samningurinn er reglulega uppfærður með breytingum á viðaukum og bókunum við samninginn. Ákvarðanir um þessar breytingar eru teknar í sameiginlegu EES-nefndinni og með þær hefur ávallt verið farið sem hverja aðra þjóðréttarsamninga. Samkvæmt EES-samningnum skuldbinda þær aðildarríkin að þjóðarétti um leið og þær hafa verið teknar, nema eitthvert þeirra beiti heimild í 103. gr. EES-samningsins til að setja fyrirvara um að ákvörðun geti ekki orðið bindandi strax vegna stjórnskipulegra skilyrða heima fyrir. Viðkomandi aðildarríki hefur þá sex mánaða frest frá töku ákvörðunar í sameiginlegu nefndinni til að aflétta fyrirvaranum. Að því er Ísland varðar hefur slíkur fyrirvari almennt einungis verið settur þegar innleiðing ákvörðunar kallar á lagabreytingar hér landi, en í því tilviki leiðir af 21. gr. stjórnarskrárinnar að leita ber eftir samþykki Alþingis áður en ákvörðun er staðfest. Slíkt samþykki getur Alþingi alltaf veitt með viðeigandi lagabreytingu, en einnig hefur tíðkast að heimila stjórnvöldum að skuldbinda sig að þjóðarétti með þingsályktun áður en landsréttinum er með lögum breytt til samræmis við viðkomandi ákvörðun. Í seinni tíð hefur það verið viðtekinn háttur við staðfestingu þeirra ákvarðana sameiginlegu EES-nefndarinnar, sem krefst lagabreytinga að innleiða, enda kemur hvortveggja til, að frestur til að aflétta hinum stjórnskipulega fyrirvara er tiltölulega skammur, auk þess sem ekki er alltaf tímabært að innleiða ákvörðun um leið og hún er tekin.

3. Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2003/4/EB frá 28. janúar 2003 um almennan aðgang að upplýsingum um umhverfismál og niðurfellingu á tilskipun ráðsins 90/313/EBE.
    Með tilskipun 2003/4/EB er felld úr gildi tilskipun 90/313/EBE um frjálsan aðgang að upplýsingum um umhverfismál, en hún er nú hluti af EES-samningnum. Í tilskipun 2003/4/ EB eru ítarlegri ákvæði um aðgengi almennings að upplýsingum um umhverfismál en eru í eldri tilskipun. Samkvæmt ákvæðum tilskipunarinnar geta allir einstaklingar og lögaðilar óskað eftir aðgangi að upplýsingum um umhverfismál sem opinber yfirvöld ráða yfir eða eru geymdar fyrir þeirra hönd án þess að þeir þurfi að sýna fram á að þeir hafi hagsmuna að gæta.
    Helstu nýmæli í tilskipun 2003/4/EB um almennan aðgang að upplýsingum um umhverfismál borið saman við eldri tilskipun eru eftirfarandi:
     1.      Skilgreiningin á því hvaða upplýsingar teljast til „upplýsinga um umhverfismál“ hefur verið víkkuð.
     2.      Tilskipunin tekur til fleiri aðila, þ.e. ekki bara stjórnvalda í hefðbundnum skilningi heldur einnig til fyrirtækja sem rækja opinbert hlutverk að ákveðnum skilyrðum uppfylltum.
     3.      Rétturinn til aðgangs að upplýsingum tekur ekki aðeins til upplýsinga sem eru í vörslu stjórnvalda heldur einnig til upplýsinga sem eru geymdar fyrir þeirra hönd af öðrum aðilum.
     4.      Helstu takmarkanir á aðgangi almennings að upplýsingum um mengandi losun út í umhverfið eru felldar niður.
     5.      Meginreglan er sú að stjórnvöld skulu gera upplýsingar um umhverfismál aðgengilegar á því formi eða með því sniði sem umsækjandi fer fram á.
    Tilskipun 2003/4/EB tekur mið af ákvæðum svokallaðs Árósasamnings, þ.e. alþjóðasamnings um aðgang að upplýsingum, þátttöku almennings í ákvarðanatöku og aðgang að réttlátri málsmeðferð í umhverfismálum, sem undirritaður var í Árósum 25. júní 1998. Árósasamningurinn hefur verið undirritaður af hálfu Íslands en ekki fullgiltur. Tilskipunin varðar þó einungis þann hluta Árósasamningsins er varðar aðgang almennings að upplýsingum um umhverfismál.
    Í umhverfisráðuneytinu er nú unnið að frumvarpi til laga um upplýsingarétt um umhverfismál til innleiðingar tilskipunarinnar. Fyrirhugað er að leggja frumvarpið fram á haustþingi.



Fylgiskjal I.


ÁKVÖRÐUN SAMEIGINLEGU EES-NEFNDARINNAR nr. 123/2003

frá 26. september 2003

um breytingu á XX. viðauka (Umhverfismál) við EES-samninginn


SAMEIGINLEGA EES-NEFNDIN HEFUR,

með hliðsjón af samningnum um Evrópska efnahagssvæðið, eins og hann var aðlagaður með bókun um breytingu á samningnum um Evrópska efnahagssvæðið, er nefnist hér á eftir samningurinn, einkum 98. gr.,

og að teknu tilliti til eftirfarandi:

1)        XX. viðauka við samninginn var breytt með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 93/2003 frá 11. júlí 2003 ( 1 ).

2)         Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2003/4/EB frá 28. janúar 2003 um almennan aðgang að upplýsingum um umhverfismál og niðurfellingu á tilskipun ráðsins 90/313/EBE ( 2 ) skal felld inn í samninginn.

ÁKVEÐIÐ EFTIRFARANDI:

1. gr.


XX. viðauki við samninginn breytist sem hér segir:

1.         2. liður (tilskipun ráðsins 90/313/EBE) falli niður hinn 14. febrúar 2005.

2.         Eftirfarandi liður bætist við á eftir lið 2i (tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2001/42/EB):

        „2j.     32003 L 0004: Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2003/4/EB frá 28. janúar 2003 (Stjtíð. EB L 41, 14.2.2003, bls. 26).“

2. gr.


Texti tilskipunar 2003/4/EB á íslensku og norsku, sem verður birtur í EES-viðbæti við Stjórnartíðindi Evrópusambandsins, telst fullgiltur.

3. gr.


Ákvörðun þessi öðlast gildi hinn 27. september 2003 að því tilskildu að allar tilkynningar samkvæmt 1. mgr. 103. gr. samningsins hafi verið sendar sameiginlegu EES-nefndinni ( * ).

4. gr.


Ákvörðun þessi skal birt í EES-deild Stjórnartíðinda Evrópusambandsins og EES-viðbæti við þau.

Gjört í Brussel 26. september 2003.

     Fyrir hönd sameiginlegu EES-nefndarinnar
    Formaður

    Prins Nikulás af Liechtenstein


    Ritarar
    sameiginlegu EES-nefndarinnar

    P.K. Mannes     M. Brinkmann




Fylgiskjal II.


TILSKIPUN EVRÓPUÞINGSINS OG RÁÐSINS 2003/4/EB
frá 28. janúar 2003
um almennan aðgang að upplýsingum um umhverfismál og niðurfellingu á tilskipun ráðsins 90/313/EBE


EVRÓPUÞINGIÐ OG RÁÐ EVRÓPUSAMBANDSINS HAFA,
með hliðsjón af stofnsáttmála Evrópubandalagsins, einkum 1. mgr. 175. gr.,
með hliðsjón af tillögu framkvæmdastjórnarinnar ( 1 ),
með hliðsjón af áliti efnahags- og félagsmálanefndar ESB ( 2 ),
með hliðsjón af áliti svæðanefndarinnar ( 3 ),
í samræmi við málsmeðferðina sem mælt er fyrir um í 251. gr. sáttmálans ( 4 ), á grundvelli sameiginlegs texta sem sáttanefndin samþykkti 8. nóvember 2002,
og að teknu tilliti til eftirfarandi:
1)          Víðtækari, almennur aðgangur að upplýsingum um umhverfismál og miðlun þeirra stuðla að sterkari vitund um málefni á umhverfissviði, frjálsum skoðanaskiptum og aukinni þátttöku almennings þegar kemur að töku ákvarðana í umhverfismálum og stuðlar e.t.v. líka að bættu umhverfi.
2)          Með tilskipun ráðsins 90/313/EBE frá 7. júní 1990 um frjálsan aðgang að upplýsingum um umhverfismál ( 5 ) hófst þróun sem hefur orðið til þess að opinber yfirvöld leitast nú við að hafa alla umræðu opna og gagnsæja og þau beita sér fyrir ráðstöfunum sem styrkja rétt almennings til aðgangs að upplýsingum um umhverfismál og þessa þróun ber að efla og leiða enn lengra. Með þessari tilskipun er veittur greiðari aðgangur að upplýsingum en gert er skv. tilskipun 90/313/EBE.
3)          Í 8. gr. þeirrar tilskipunar er þess krafist að aðildarríkin gefi framkvæmdastjórninni skýrslu um fengna reynslu og í ljósi hennar skal framkvæmdastjórnin gefa Evrópuþinginu og ráðinu skýrslu ásamt tillögum um endurskoðun á tilskipuninni sem hún kann að telja viðeigandi.
4)          Í skýrslunni, sem gerð er skv. 8. gr. í framangreindri tilskipun, er bent á sérstök vandamál sem komið hafa upp við framkvæmd tilskipunarinnar.
5)          Evrópubandalagið undirritaði 25. júní 1998 alþjóðasamning efnahagsnefndar Sameinuðu þjóðanna fyrir Evrópu (UN/ECE) um aðgang að upplýsingum, þátttöku almennings í ákvarðanatöku og aðgang að réttlátri málsmeðferð í umhverfismálum („Árósasamninginn“). Ákvæði í löggjöf bandalagsins skulu vera í samræmi við þann samning svo að Evrópubandalagið geti gert hann.
6)          Til að auka megi gagnsæi þykir rétt að setja nýja tilskipun í stað tilskipunar 90/313/EBE fremur en að breyta henni því að með því móti fá hagsmunaaðilar í hendur skýran og samfelldan lagatexta í einni heild.
7)          Misræmi í gildandi lögum aðildarríkjanna að því er varðar aðgang að upplýsingum um umhverfismál, sem opinber yfirvöld ráða yfir, getur skapað ójafnræði innan bandalagsins með tilliti til aðgangs að upplýsingum af því tagi eða með tilliti til samkeppnisskilyrða.
8)          Nauðsynlegt er að tryggja að allir einstaklingar og lögaðilar hafi frjálsan aðgang að upplýsingum um umhverfismál sem opinber yfirvöld ráða yfir eða eru geymdar fyrir þeirra hönd án þess að þeir þurfi að sýna fram á að þeir hafi hagsmuna að gæta.
9)          Þá er einnig nauðsynlegt að opinber yfirvöld gangist fyrir því að upplýsingar um umhverfismál verði aðgengilegar almenningi og þeim verði miðlað sem víðast, einkum með því að nýta upplýsinga- og samskiptatækni. Framtíðarþróun þessarar tækni skal höfð í huga við skýrslugerð varðandi þessa tilskipun og endurskoðun hennar.
10)          Víkka skal skilgreininguna á upplýsingum um umhverfismál þannig að hún nái yfir hvers kyns upplýsingar um ástand umhverfisins, um þætti, ráðstafanir eða starfsemi sem hafa áhrif á eða líklegt er að hafi áhrif á umhverfið eða sem farið er af stað með til að vernda umhverfið, yfir kostnaðar-, ábata- og hagkvæmnigreiningu, sem beitt er í tengslum við ráðstafanir eða starfsemi af framangreindu tagi, og einnig upplýsingar um heilbrigði og öryggi almennings, þ.m.t. mengun í matvælaferlinu, lífsskilyrði fólks, menningarminjar og mannvirki að svo miklu leyti sem þau verða, eða geta orðið, fyrir áhrifum af því sem að framan greinir.
11)          Í því skyni að taka tillit til meginreglunnar í 6. gr. sáttmálans þess efnis að kröfur varðandi framkvæmd á stefnu og aðgerðum bandalagsins skal víkka skilgreininguna á opinberum yfirvöldum þannig að hún nái yfir ríkisstjórn og önnur opinber lands-, svæðis- eða staðbundin stjórnvöld hvort sem þau bera sérstaka ábyrgð á umhverfismálum eða ekki. Á sama hátt skal víkka skilgreininguna þannig að hún nái yfir einstaklinga eða aðila sem hafa með höndum opinbera stjórnsýslu í tengslum við umhverfið samkvæmt innlendum lögum, svo og yfir aðra einstaklinga eða aðila sem starfa undir þeirra stjórn og bera opinbera ábyrgð eða annast opinber verkefni í umhverfismálum.
12)          Upplýsingar um umhverfismál, sem geymdar eru hjá öðrum aðilum fyrir hönd opinberra yfirvalda, skulu einnig falla undir gildissvið þessarar tilskipunar.
13)          Upplýsingar um umhverfismál skulu vera aðgengilegar fyrir umsækjendur svo fljótt sem við verður komið og innan sanngjarns frests og skal taka tillit til hugsanlegs frests sem umsækjandi tilgreinir.
14)          Opinber yfirvöld skulu gera upplýsingar um umhverfismál aðgengilegar á því formi eða með því sniði sem umsækjandi fer fram á nema þær liggi þegar fyrir á öðru formi eða með öðru sniði eða eðlilegt telst að hafa þær aðgengilegar á öðru formi eða með öðru sniði. Auk þess er gerð sú krafa að opinber yfirvöld kosti kapps um að varðveita upplýsingar um umhverfismál, sem þau hafa yfir að ráða eða geymdar eru fyrir þeirra hönd, á formi eða með því sniði sem auðvelt er að fjölfalda og þannig að nálgast megi upplýsingarnar á rafrænan hátt.
15)          Aðildarríkin skulu ákvarða það fyrirkomulag sem nota skal til að gera þessar upplýsingar aðgengilegar. Fyrirkomulagið skal tryggja greiðan og auðveldan aðgang að upplýsingunum og að þær verði smám saman aðgengilegar almenningi um almennt fjarskiptanet, þ.m.t. skrár yfir opinber yfirvöld og skrár eða yfirlit yfir upplýsingar um umhverfismál sem opinber yfirvöld hafa yfir að ráða eða eru geymdar fyrir þeirra hönd.
16)          Rétturinn til upplýsinga merkir að almenna reglan skal vera sú að birta eigi upplýsingar og að opinberum yfirvöldum skal eingöngu vera heimilt að synja beiðni um upplýsingar um umhverfismál í sértækum og skilmerkilega skilgreindum tilvikum. Ástæður synjunar skulu túlkaðar þröngt og vega skal og meta þá hagsmuni almennings sem felast í birtingu upplýsinganna á móti þeim hagsmunum sem þjónað er með synjuninni. Ástæðurnar fyrir synjuninni skulu lagðar fyrir umsækjandann innan þeirra tímamarka sem mælt er fyrir um í þessari tilskipun.
17)          Opinber yfirvöld skulu gera upplýsingar um umhverfismál aðgengilegar að hluta ef unnt er að skilja upplýsingarnar, sem falla undir undantekningar, frá öðrum upplýsingum sem beðið er um.
18)          Opinberum yfirvöldum skal gert kleift að krefjast gjalds fyrir að veita upplýsingar um umhverfismál en gjaldið skal vera sanngjarnt. Þetta felur í sér þá almennu reglu að gjaldið má ekki vera hærra en sem nemur raunkostnaði við það að framleiða viðkomandi efni. Reynt skal að komast hjá því að krefjast fyrirframgreiðslu. Í sérstökum tilvikum, þar sem opinber yfirvöld gera upplýsingar um umhverfismál aðgengilegar á viðskiptalegum forsendum og ef það er nauðsynlegt til að tryggja samfellu í öflun og birtingu upplýsinga af þeim toga, telst sanngjarnt að krefjast markaðstengds gjalds og má þá krefjast fyrirframgreiðslu. Birta skal gjaldskrá sem er aðgengileg umsækjendum ásamt upplýsingum um tilvik þar sem krefjast má gjalds og þar sem má fella það niður.
19)          Umsækjendur skulu eiga þess kost að fara fram á að aðgerðir eða aðgerðaleysi opinberra yfirvalda í tengslum við beiðni verði endurskoðuð á stjórnsýslustigi eða fyrir dómstólum.
20)          Opinber yfirvöld skulu leitast við að tryggja að upplýsingar, sem þau taka saman um umhverfismál eða þegar það er gert fyrir þeirra hönd, séu auðskiljanlegar, nákvæmar og samanburðarhæfar. Þar eð þetta er mikilvægur þáttur í mati á gæðum fram lagðra upplýsinga skal jafnframt tilgreina þá aðferð sem er notuð við samantekt upplýsinganna ef eftir því er leitað.
21)          Til að auka vitund almennings í umhverfismálum og efla umhverfisvernd skulu opinber yfirvöld, þegar við á, leggja fram og miðla upplýsingum um umhverfismál sem tengjast starfsemi þeirra, einkum með tölvufjarskiptum og/eða rafrænni tækni ef það er unnt.
22)          Eftir að þessi tilskipun hefur öðlast gildi og viðkomandi skýrslur aðildarríkjanna hafa verið lagðar fram skal hún endurmetin á fjögurra ára fresti með hliðsjón af fenginni reynslu og á grundvelli þessa skal endurskoðun eiga sér stað. Framkvæmdastjórnin skal leggja matsskýrslu fyrir Evrópuþingið og ráðið.
23)          Þar eð aðildarríkin geta ekki náð til fulls markmiðunum með fyrirhugaðri tilskipun og sökum þess að líklegra er að þau náist á vettvangi bandalagsins getur bandalagið samþykkt ráðstafanir í samræmi við dreifræðisregluna í 5. gr. sáttmálans. Í samræmi við meðalhófsregluna, sem sett er fram í þeirri grein, gengur þessi tilskipun ekki lengra en þörf er á til að markmiðunum verði náð.
24)          Ákvæði þessarar tilskipunar skulu ekki hafa áhrif á rétt aðildarríkis til að viðhalda eða innleiða ráðstafanir sem kveða á um víðtækari aðgang að upplýsingum en krafist er samkvæmt þessari tilskipun.
SAMÞYKKT TILSKIPUN ÞESSA:

1. gr.
Markmið

Markmiðin með þessari tilskipun eru eftirfarandi:
a)    að tryggja rétt til aðgangs að upplýsingum um umhverfismál, sem opinber yfirvöld hafa yfir að ráða eða geymdar eru fyrir þeirra hönd, og að tilgreina grundvallarskilmála og -skilyrði og fyrirkomulag í tengslum við beitingu þessa réttar, og
b)    að smám saman verði talið sjálfsagt að upplýsingar um umhverfismál séu aðgengilegar og þeim verði miðlað til almennings þannig að kerfisbundinn aðgangur að þeim verði sem greiðastur og miðlunin verði sem víðtækust. Í þessu skyni skal einkum stuðla að nýtingu tölvufjarskipta og/eða rafrænnar tækni ef hún er fyrir hendi.

2. gr.
Skilgreiningar

Í þessari tilskipun er merking eftirfarandi hugtaka sem hér segir:
1.    „Upplýsingar um umhverfismál“: hvers kyns upplýsingar í rituðu, sjónrænu, heyranlegu, rafrænu eða einhverju öðru efnislegu formi um:
    a)    ástand að því er varðar mismunandi þætti umhverfisins, svo sem andrúmsloft og lofthjúp, vatn, jarðveg, land, landslag og náttúruminjar, þ.m.t. votlendi og strand- og hafsvæði, líffræðilega fjölbreytni og þætti hennar, þ.m.t. erfðabreyttar lífverur, og samspil milli þessara þátta,
    b)    þætti á borð við efni, orku, hávaða, geislun eða úrgang, þ.m.t. geislavirkan úrgang og losun hvers kyns efna og þátta út í umhverfið, sem hafa áhrif á eða líklegt er að hafi áhrif á þá þætti í umhverfinu sem um getur í a-lið,
    c)    ráðstafanir (þ.m.t. stjórnsýsluráðstafanir), svo sem í tengslum við stefnumótun, löggjöf, skipulags- og framkvæmdaáætlanir og samninga á sviði umhverfismála, og starfsemi sem hefur eða líklegt er að hafi áhrif á þá þætti sem um getur í a- og b-lið, svo og ráðstafanir eða starfsemi sem ætlað er að vernda þessa þætti,
    d)    skýrslur um framkvæmd löggjafar á sviði umhverfismála,
    e)    kostnaðar- og ábatagreiningu eða annars konar hagkvæmnigreiningu og ályktanir sem eru notaðar í tengslum við þær ráðstafanir og starfsemi sem um getur í c-lið, og
    f)    ástandið að því er varðar heilbrigði manna og öryggi, þ.m.t. mengun í matvælaferlinu, ef við á, lífsskilyrði fólks, menningarminjar og mannvirki að svo miklu leyti sem þau verða eða líklegt er að þau verði fyrir áhrifum vegna ástands þeirra umhverfisþátta sem um getur í a-lið eða vegna einhvers eða einhverra þeirra atriða sem um getur í b- og c- lið.
2.    „Opinbert yfirvald“:
    a)    ríkisstjórn eða aðrar opinberar stjórnsýslustofnanir, þ.m.t. opinberar ráðgjafastofnanir, á lands-, svæðis- eða staðbundnum vettvangi,
    b)    sérhver einstaklingur eða lögaðili sem annast opinbera stjórnsýslu samkvæmt innlendum lögum, þ.m.t. sértæk verkefni, starfsemi eða þjónustu sem varðar umhverfið, og
    c)    sérhver einstaklingur og lögaðili sem ber opinbera ábyrgð, gegnir opinberu hlutverki eða veitir opinbera þjónustu sem varðar umhverfið og fellur undir stjórn aðila eða einstaklings sem um getur í a- eða b-lið.
    Aðildarríkin geta kveðið á um að þessi skilgreining taki ekki til aðila eða stofnana sem fara með dóms- eða löggjafarvald. Ef ekki er kveðið á um kærumeðferð, í skilningi 6. gr., í stjórnarskrárákvæðum aðildarríkis þann dag sem þessi tilskipun er samþykkt getur aðildarríkið mælt svo fyrir að fyrrgreindir aðilar eða stofnanir falli ekki undir þessa skilgreiningu.
3.    „Upplýsingar sem opinbert yfirvald hefur yfir að ráða“: upplýsingar um umhverfismál sem eru í vörslu yfirvaldsins og það hefur aflað eða tekið við.
4.    „Upplýsingar sem geymdar eru fyrir opinbert yfirvald“: upplýsingar um umhverfismál sem eru í vörslu einstaklings eða lögaðila fyrir hönd opinbers yfirvalds.
5.    „Umsækjandi“: sérhver einstaklingur eða lögaðili sem óskar eftir upplýsingum um umhverfismál.
6.    „Almenningur“: einn eða fleiri einstaklingar eða lögaðilar og, í samræmi við innlend lög eða venju, samtök þeirra, félög eða hópar.

3. gr.
Aðgangur að upplýsingum um umhverfismál samkvæmt beiðni

1.     Í samræmi við ákvæði þessarar tilskipunar skulu aðildarríkin tryggja að opinberum yfirvöldum sé skylt að gera upplýsingar um umhverfismál, sem þau ráða yfir eða geymdar eru fyrir þeirra hönd, aðgengilegar öllum umsækjendum sem eftir því leita og án þess að þeir þurfi að tilgreina ástæðuna fyrir beiðninni.
2.     Með fyrirvara um 4. gr. og að teknu tilliti til tímamarka, sem umsækjandinn kann að tilgreina, skal veita honum aðgang að upplýsingum um umhverfismál:
a)    svo fljótt sem auðið er og eigi síðar en innan mánaðar frá því að opinbera yfirvaldið, sem um getur í 1. mgr., hefur tekið við beiðni hans, eða
b)    innan tveggja mánaða frá því að opinbera yfirvaldið tók við beiðninni ef upplýsingarnar eru svo miklar að umfangi eða flóknar að eins mánaðar fresturinn, sem um getur í a-lið, hrökkvi ekki til. Í slíkum tilvikum skal umsækjandinn upplýstur, svo fljótt sem auðið er og í öllum tilvikum áður en eins mánaðar fresturinn rennur út, um lengingu frestsins og ástæðuna fyrir henni.
3.     Ef beiðnin er sett fram á of almennan hátt skal opinbera yfirvaldið, svo fljótt sem auðið er og eigi síðar en fyrir lok frestsins sem mælt er fyrir um í a- lið 2. mgr., biðja umsækjandann að orða beiðni sína nákvæmar og veita honum aðstoð sína við það, t.d. með því að gefa honum upplýsingar um notkun opinberu skránna sem um getur í c-lið 5. mgr. Opinberum yfirvöldum er heimilt að synja beiðninni skv. c-lið 1. mgr. 4. gr. telji þau ástæðu til.
4.     Ef umsækjandi fer þess á leit við opinbert yfirvald að það geri upplýsingar um umhverfismál aðgengilegar í tilteknu formi eða með sérstöku sniði (þ.m.t. sem afrit) skal opinbera yfirvaldið verða við því nema:
a)    þær séu þegar aðgengilegar almenningi á öðru formi eða með öðru sniði, einkum samkvæmt ákvæðum 7. gr., sem umsækjandinn hefur greiðan aðgang að, eða
b)    það teljist eðlilegt að opinbera yfirvaldið geri þær aðgengilegar á öðru formi eða með öðru sniði og skal þá greina frá ástæðum þess að þær eru settar fram á þann hátt.
Að því er þennan lið varðar skulu opinber yfirvöld kosta kapps að varðveita upplýsingar um umhverfismál, sem þau hafa yfir að ráða eða geymd eru fyrir þeirra hönd, á formi eða með því sniði sem auðvelt er að fjölfalda og nálgast með tölvufjarskiptum eða á annan rafrænan hátt.
Greina skal umsækjanda frá ástæðum þess að beiðni hans um aðgang að upplýsingum er synjað, að hluta eða í heild og á því formi eða með því sniði sem um er beðið, innan þeirra tímamarka sem um getur í a- lið 2. mgr.
5.     Samkvæmt þessari grein skulu aðildarríkin tryggja:
a)    að opinberum starfsmönnum sé skylt að aðstoða almenning við leit að upplýsingum,
b)    að skrár yfir opinber yfirvöld séu aðgengilegar almenningi, og
c)    að skilgreint sé heppilegt fyrirkomulag til að tryggja að unnt verði að nýta réttinn til aðgangs að upplýsingum um umhverfismál á skilvirkan hátt, t.d.:
    –    að útnefndir verði þeir sem fara með upplýsingamál,
    –    að komið verði upp og rekin aðstaða þar sem hægt er að kynna sér þær upplýsingar sem óskað er eftir,
    –    að fyrir liggi skrár eða yfirlit yfir upplýsingar um umhverfismál, sem opinber yfirvöld eða upplýsingamiðstöðvar ráða yfir, ásamt skýrum ábendingum um hvar finna má upplýsingar af því tagi.
    Aðildarríkin skulu tryggja að opinber yfirvöld upplýsi almenning nægilega um þann rétt sem hann hefur samkvæmt þessari tilskipun og að þau veiti jafnframt upplýsingar, leiðbeiningar og ráðgjöf þar að lútandi eins og eðlilegt má teljast.

4. gr.
Undantekningar

1.     Aðildarríkin geta synjað beiðni um upplýsingar um umhverfismál:
a)    ef opinbera yfirvaldið, sem beðið er um upplýsingar, ræður ekki yfir umbeðnum upplýsingum eða þær eru ekki geymdar á vegum þess. Ef svo er og opinbera yfirvaldinu er kunnugt um að upplýsingarnar séu í vörslu annars opinbers yfirvalds eða geymdar á vegum þess skal það svo fljótt sem auðið er senda beiðnina til þess yfirvalds og greina umsækjandanum frá því eða upplýsa hann um það til hvaða opinbera yfirvalds það telji að hann ætti helst að beina umsókn sinni um viðkomandi upplýsingar,
b)    ef beiðnin er augljóslega fráleit,
c)    ef beiðnin er sett fram á of almennan hátt, með hliðsjón af 3. mgr. 3. gr.,
d)    ef beiðnin varðar efni sem er í vinnslu eða ófullgerð skjöl eða gögn,
e)    ef beiðnin varðar innri boðskipti og skal þá hafa hliðsjón af þeim hagsmunum sem almenningur hefur af því að fá aðgang að upplýsingunum.
Ef beiðni er synjað á grundvelli þess að hún varði efni sem er í vinnslu skal opinbera yfirvaldið gefa upp heiti þess yfirvalds sem annast vinnsluna og áætla þann tíma sem það tekur að ljúka henni.
2.     Aðildarríkin geta synjað beiðni um upplýsingar um umhverfismál ef birting þeirra gæti haft alvarleg áhrif á:
a)    þagnarskyldu, sem varðar málsmeðferð opinberra yfirvalda, ef kveðið er á um þagnarskyldu af því tagi í lögum,
b)    alþjóðasamskipti, almannaöryggi eða landvarnir,
c)    meðferð mála fyrir dómstólum, möguleika einstaklinga til að hljóta réttláta málsmeðferð fyrir dómi eða möguleika opinbers yfirvalds til að láta fara fram rannsókn sem varðar refsiverðan verknað eða agabrot,
d)    leynd, sem varðar upplýsingar í viðskiptum eða iðnaði, ef kveðið er á um leynd af því tagi í innlendum lögum eða bandalagslögum í því skyni að vernda réttmæta, efnahagslega hagsmuni, þ.m.t. almenna hagsmuni sem fólgnir eru í að halda trúnaðarkvaðir í hagskýrslum og skattaleynd,
e)    hugverkarétt,
f)    vernd persónuupplýsinga og/eða skjala sem varða einstakling hafi viðkomandi ekki veitt samþykki sitt fyrir birtingu upplýsinganna og ef kveðið er á um slíka leynd í innlendum lögum eða lögum bandalagsins,
g)    hagsmuni eða vernd annarra einstaklinga hafi þeir veitt umbeðnar upplýsingar af fúsum og frjálsum vilja án þess að þeim sé það skylt samkvæmt lögum eða unnt sé að skylda þá til þess samkvæmt lögum nema þeir hafi veitt samþykki sitt fyrir birtingu viðkomandi upplýsinga,
h)    vernd þess hluta umhverfisins sem slíkar upplýsingar varðar, t.d. heimkynni fágætra tegunda lífvera.
Ástæður synjunar, sem um getur í 1. og 2. mgr., skulu túlkaðar þröngt og í sérstökum tilvikum skal taka tillit til almennra hagsmuna sem birting upplýsinganna hefði í för með sér. Í hverju tilviki skal vega og meta þá hagsmuni almennings sem fylgja birtingu upplýsinganna á móti þeim hagsmunum sem þjónað er með synjuninni. Aðildarríkin mega ekki, með skírskotun til a-, d-, f-, g- og h-liðar 2. mgr., kveða á um að beiðni verði synjað ef beiðnin varðar upplýsingar um mengandi losun út í umhverfið.
Innan þessa ramma og að því er varðar framkvæmd f-liðar skulu aðildarríkin tryggja að uppfylltar verði kröfur í tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 95/46/EB frá 24. október 1995 um vernd einstaklinga í tengslum við vinnslu persónuupplýsinga og um frjálsa miðlun slíkra upplýsinga ( 1 ).
3.     Ef aðildarríki kveður á um undantekningar getur það samið skrá yfir viðmiðanir, sem er aðgengileg almenningi, og á grundvelli þessara viðmiðana getur viðkomandi yfirvald ákveðið hvernig beiðnir skuli afgreiddar.
4.     Ef umsækjandi biður um upplýsingar um umhverfismál, sem opinber yfirvöld hafa yfir að ráða eða eru geymdar fyrir þeirra hönd, skal veita honum aðgang að þeim að hluta ef unnt er að skilja upplýsingarnar, sem falla undir gildissvið d- og e-liðar 1. mgr. eða 2. mgr., frá öðrum upplýsingum sem beðið er um.
5.     Ef synjað er um aðgang að öllum umbeðnum upplýsingum eða hluta þeirra skal það tilkynnt umsækjanda skriflega eða á rafrænan hátt, hafi beiðnin verið skrifleg eða umsækjandi æskir þess, innan þeirra tímamarka sem um getur í a-lið 2. mgr. 3. gr. eða b-lið sömu málsgreinar ef við á. Í tilkynningunni skal tilgreina ástæður synjunarinnar og í henni skulu vera upplýsingar um kærumeðferðina sbr. 6. gr.

5. gr.
Gjöld

1.     Aðgangur að öllum opinberum skrám, sem gerðar eða haldnar eru eins og um getur í 5. mgr. 3. gr., skal vera ókeypis, svo og skoðun umbeðinna upplýsinga á staðnum.
2.     Opinberum yfirvöldum er heimilt að krefjast gjalds fyrir að veita upplýsingar um umhverfismál en gjaldið má ekki vera ósanngjarnt.
3.     Ef um gjaldtöku er að ræða skulu opinber yfirvöld birta gjaldskrá sem er aðgengileg umsækjendum ásamt upplýsingum um hvenær má krefjast gjalds eða fella það niður.

6. gr.
Aðgangur að réttlátri málsmeðferð

1.     Aðildarríkin skulu tryggja að allir umsækjendur, sem telja að beiðni þeirra um upplýsingar hafi verið hunsuð, henni hafi verið synjað á óréttmætan hátt (í heild eða að hluta), þeir hafi fengið ófullnægjandi svör eða ekki hafi verið tekið á máli þeirra í samræmi við ákvæði 3., 4. eða 5. gr., hafi aðgang að málsmeðferð þar sem fara má fram á að aðgerðir eða aðgerðaleysi viðkomandi yfirvalds verði tekið til endurskoðunar af hálfu þess eða annars opinbers yfirvalds eða endurskoðað á stjórnsýslustigi af hálfu óháðs eða óhlutdrægs aðila sem ákveðinn er með lögum. Málsmeðferð af þessu tagi skal vera fljótleg og annaðhvort ókeypis eða við vægu gjaldi.
2.     Auk kærumeðferðar, sem um getur í 1. mgr., skulu aðildarríkin tryggja að umsækjandi hafi aðgang að málsmeðferð fyrir dómstóli eða öðrum óháðum og óhlutdrægum aðila sem ákveðinn er með lögum þar sem endurskoða má aðgerðir eða aðgerðaleysi viðkomandi, opinbers yfirvalds og kveða upp endanlegan úrskurð. Aðildarríkin geta enn fremur kveðið á um að þriðju aðilar, sem geta skaðast vegna birtingar upplýsinga, hafi einnig aðgang að lagaúrræðum.
3.     Endanlegir úrskurðir, sem kveðnir eru upp skv. 2. mgr., eru bindandi fyrir opinbera yfirvaldið sem ræður yfir upplýsingunum. Rökstuðningur skal settur fram skriflega, a.m.k. ef synjað er um aðgang að upplýsingum samkvæmt þessari grein.

7. gr.
Miðlun upplýsinga um umhverfismál

1.     Aðildarríkin skulu gera nauðsynlegar ráðstafanir til að tryggja að opinber yfirvöld komi skipulagi á upplýsingar um umhverfismál, sem tengjast starfsemi þeirra og sem þau hafa yfir að ráða eða eru geymdar fyrir þeirra hönd, þannig að þeim megi miðla greiðlega og skipulega til almennings, einkum með tölvufjarskiptum og/eða með rafrænni tækni ef unnt er.
Upplýsingar, sem aflað var fyrir gildistöku þessarar tilskipunar, þurfa ekki að vera tiltækar með tölvufjarskiptum og/eða rafrænni tækni nema þær hafi þegar legið fyrir á rafrænu formi.
Aðildarríkin skulu tryggja að upplýsingar um umhverfismál verði smám saman aðgengilegar í rafrænum gagnagrunnum sem almenningur á auðvelt með að nálgast um almennt fjarskiptanet.
2.     Upplýsingarnar, sem á að miðla og gera aðgengilegar, skulu uppfærðar eins og rétt þykir og skulu a.m.k. taka til:
a)    texta alþjóðasáttmála eða -samninga eða hvers kyns alþjóðlegs samkomulags og löggjafar bandalagsins eða lands-, svæðis- eða staðbundinnar löggjafar um umhverfið eða í tengslum við það,
b)    stefnumála og skipulags- og framkvæmdaáætlana sem tengjast umhverfinu,
c)    framvinduskýrslna um framkvæmd þess sem um getur í a- og b-lið hafi opinber yfirvöld tekið saman eða geymt þær upplýsingar á rafrænu formi,
d)    skýrslna um ástand umhverfisins sem um getur í 3. mgr.,
e)    gagna eða yfirlits yfir gögn úr vöktun starfsemi sem hefur eða líklegt er að hafi áhrif á umhverfið,
f)    leyfa, sem hafa í för með sér veruleg umhverfisáhrif, og samninga um umhverfismál eða upplýsinga um hvert sækja má upplýsingar af þessu tagi eða finna þær skv. 3. gr.,
g)    rannsókna á umhverfisáhrifum og áhættumats sem varða umhverfisþættina, sem um getur í a- lið 1. mgr. 2. gr., eða upplýsinga um hvar biðja má um upplýsingarnar eða finna þær skv. 3. gr.,
3.     Með fyrirvara um sértækar skuldbindingar um skýrslugjöf, sem mælt er fyrir um í löggjöf bandalagsins, skulu aðildarríkin gera nauðsynlegar ráðstafanir til að tryggja að landsbundnar og, ef við á, svæðis- eða staðbundnar skýrslur um ástand umhverfisins verði gefnar út með reglulegu millibili sem má ekki vera lengra en fjögur ár. Í skýrslunum skulu vera upplýsingar um gæði umhverfisins og álag á umhverfið.
4.     Með fyrirvara um sértækar skuldbindingar, sem mælt er fyrir um í löggjöf bandalagsins, skulu aðildarríkin gera nauðsynlegar ráðstafanir til að tryggja, ef hætta er yfirvofandi fyrir heilbrigði manna eða umhverfið, hvort sem hún orsakast af starfsemi manna eða er af náttúrlegum orsökum, að þegar í stað verði miðlað öllum upplýsingum sem opinber yfirvöld hafa yfir að ráða eða eru geymdar fyrir þeirra hönd og gætu orðið til þess að fólk, sem líklegt er að sé í hættu, geti gripið til ráðstafana til að koma í veg fyrir eða milda þann skaða sem annars hlytist af.
5.     Undantekningarnar í 1. og 2. mgr. 4. gr. geta gilt í tengslum við þær skuldbindingar sem felast í þessari grein.
6.     Aðildarríkin geta uppfyllt kröfurnar í þessari grein með því að setja upp tengla á vefsetur þar sem finna má upplýsingarnar.

8. gr.
Gæði upplýsinga um umhverfismál

1.     Aðildarríkin skulu tryggja, að svo miklu leyti sem það er á þeirra valdi, að allar upplýsingar, sem þau taka saman eða eru teknar saman fyrir þeirra hönd, séu nákvæmar og samanburðarhæfar.
2.     Ef eftir því er leitað skulu opinber yfirvöld svara beiðnum um upplýsingar um umhverfismál skv. b- lið 1. mgr. 2. gr. og greina umsækjanda frá því hvar finna megi upplýsingar, liggi þær fyrir á annað borð, um mæliaðferðir, þ.m.t. aðferðir við greiningar, sýnatöku og formeðhöndlun sýna, sem notaðar eru við samantekt upplýsinganna, eða vísa til staðalaðferðar sem notuð er.

9. gr.
Endurskoðun

1.     Eigi síðar en 14. febrúar 2009 skulu aðildarríkin gefa skýrslu um fengna reynslu af framkvæmd þessarar tilskipunar.
Þau skulu senda framkvæmdastjórninni skýrsluna eigi síðar en 14. ágúst 2009.
Eigi síðar en 14. febrúar 2004 skal framkvæmdastjórnin senda aðildarríkjunum skýrar leiðbeiningar um það hvernig hún vill að aðildarríkin hagi skýrslum sínum.
2.     Í ljósi reynslunnar og að teknu tilliti til þróunar í tölvufjarskiptum og/eða rafrænni tækni skal framkvæmdastjórnin leggja skýrslu fyrir Evrópuþingið og ráðið, svo og þær tillögur um endurskoðun sem hún telur við eiga.

10. gr.
Framkvæmd

Aðildarríkin skulu samþykkja nauðsynleg lög og stjórnsýslufyrirmæli til að fara að tilskipun þessari eigi síðar en 14. febrúar 2005. Þau skulu tilkynna það framkvæmdastjórninni þegar í stað.
Þegar aðildarríkin samþykkja þessar ráðstafanir skal vera í þeim tilvísun í þessa tilskipun eða þeim fylgja slík tilvísun þegar þær eru birtar opinberlega. Aðildarríkin skulu setja nánari reglur um slíka tilvísun.

11. gr.
Niðurfelling

Tilskipun 90/313/EB er hér með felld úr gildi frá og með 14. febrúar 2005.
Líta ber á tilvísanir í niðurfelldu tilskipunina sem tilvísun í þessa tilskipun og skulu þær lesnar með hliðsjón af samanburðartöflunni í viðaukanum.

12. gr.
Gildistaka

Tilskipun þessi öðlast gildi á þeim degi sem hún birtist í Stjórnartíðindum Evrópusambandsins.

13. gr.
Viðtakendur

Tilskipun þessari er beint til aðildarríkjanna.

Gjört í Brussel 28. janúar 2003.
Fyrir hönd Evrópuþingsins, Fyrir hönd ráðsins,
P. COX G. PAPANDREOU
forseti. forseti.

VIÐAUKI
SAMANBURÐARTAFLA

Tilskipun 90/313/EBE Þessi tilskipun
1. gr. a-liður 1. gr.
b-liður 1. gr.
a-liður 2. gr. 1. mgr. 2. gr.
b-liður 2. gr. 2. mgr. 2. gr.
3. mgr. 2. gr.
4. mgr. 2. gr.
5. mgr. 2. gr.
6. mgr. 2. gr.
1. mgr. 3. gr. 1. og 5. mgr. 3. gr.
2. mgr. 3. gr. 2. og 4. mgr. 4. gr.
3. mgr. 3. gr. b-, c-, d- og e-liður 1. mgr. 4. gr.
4. mgr. 3. gr. 2. mgr. 3. gr. og 5. mgr. 4. gr.
a-liður 1. mgr. 4. gr.
3. mgr. 3. gr.
4. mgr. 3. gr.
4. gr. 1. og 2. mgr. 6. gr.
3. mgr. 6. gr.
5. gr. 1. mgr. 5. gr.
2. mgr. 5. gr.
3. mgr. 5. gr.
6. gr. c-liður 2. mgr. 2. gr. og 1. mgr. 3. gr.
7. gr. 1., 2. og 3. mgr. 7. gr.
4. mgr. 7. gr.
5. mgr. 7. gr.
6. mgr. 7. gr.
8. gr.
8. gr. 9. gr.
9. gr. 10. gr.
10. gr. 13. gr.
11. gr.
12. gr.
Neðanmálsgrein: 1
(1)    Stjtíð. ESB L … og EES-viðbætir við Stjtíð. ESB ….
Neðanmálsgrein: 2
(2)    Stjtíð. ESB L 41, 14.2.2003, bls. 26.
Neðanmálsgrein: 3
(*)    [Stjórnskipuleg skilyrði gefin til kynna.][Engin stjórnskipuleg skilyrði gefin til kynna.]
Neðanmálsgrein: 4
(1)    Stjtíð. EB C 337 E, 28.11.2000, bls. 156 og Stjtíð. EB C 240 E, 28.8.2001, bls. 289.
Neðanmálsgrein: 5
(2)    Stjtíð. EB C 116, 20.4.2001, bls. 43.
Neðanmálsgrein: 6
(3)    Stjtíð. EB C 148, 18.5.2001, bls. 9.
Neðanmálsgrein: 7
(4)    Álit Evrópuþingsins frá 14. mars 2001 (Stjtíð. EB C 343, 5.12.2001, bls. 165), sameiginleg afstaða ráðsins frá 28. janúar 2002 (Stjtíð. EB C 113 E, 14.5.2002, bls. 1) og ákvörðun Evrópuþingsins frá 30. maí 2002 (hefur enn ekki verið birt í Stjórnartíðindum EB). Ákvörðun ráðsins frá 16. desember 2002 og ákvörðun Evrópuþingsins frá 18. desember 2002.
Neðanmálsgrein: 8
(5)    Stjtíð. EB L 158, 23.6.1990, bls. 56.
Neðanmálsgrein: 9
(1)    Stjtíð. EB L 281, 23.11.1995, bls. 31.