Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 326. máls.
Prentað upp.

Þskj. 358  —  326. mál.
Leiðréttur texti.




Frumvarp til laga

um breyting á lögum nr. 90/2003, um tekjuskatt og eignarskatt,
með síðari breytingum.

(Lagt fyrir Alþingi á 132. löggjafarþingi 2005–2006.)




1. gr.

    Í stað „768“ í 1. málsl. 4. mgr. B-liðar 67. gr. laganna kemur: 787.

2. gr.

    Í stað orðanna „1. desember“ í 1. málsl. 1. mgr. 89. gr. laganna kemur: 31. desember.

3. gr.

    Ákvæði 1. gr. öðlast gildi 1. janúar 2006 og kemur til framkvæmda við staðgreiðslu á árinu 2006 og álagningu tekjuskatts á árinu 2007. Ákvæði 2. gr. öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Í frumvarpi þessu eru lagðar til breytingar á grunnfjárhæð sjómannaafsláttar, auk þess sem lagðar eru til breytingar sem lúta að skattframkvæmd.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.

    Hér er lagt til að grunnfjárhæð sjómannaafsláttar verði hækkuð um 2,5% frá 1. janúar 2006 sem komi til framkvæmda við staðgreiðslu á árinu 2006. Þessi hækkun er í samræmi við þá hækkun persónuafsláttar sem samþykkt var haustið 2004.

Um 2. gr.

    Í 1. mgr. 89. gr. gildandi laga segir að menn, sem um ræðir í 1. gr. laganna, skuli telja fram og vera skattlagðir þar sem þeir áttu lögheimili 1. desember á tekjuári. Hér er lagt til að miðað verði við 31. desember ár hvert. Ástæður þess að miðað hefur verið við 1. desember en ekki síðasta dag ársins liggja í vinnulagi fyrri tíma, en ljóst er að verulegar tæknilegar framfarir hafa átt sér stað frá því að framangreint tímamark var lögfest. Núgildandi fyrirkomulag hefur hins vegar tafið fyrir vinnslum skattyfirvalda og aukið hættu á villum og því er þessi breyting lögð til.

Um 3. gr.

    Greinin þarfnast ekki skýringa.


Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 90/2003,
um tekjuskatt og eignarskatt, með síðari breytingum.

    Í frumvarpinu er lögð til verðlagshækkun á sjómannaafslætti í samræmi við forsendur fyrir tekjuáætlun fjárlagafrumvarps 2006. Ekki er gert ráð fyrir að lögfesting frumvarpsins hafi áhrif á útgjöld ríkissjóðs.