Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 340. máls.

Þskj. 374  —  340. mál.




Frumvarp til laga

um breytingu á lagaákvæðum er varða réttarstöðu samkynhneigðra (sambúð, ættleiðingar, tæknifrjóvgun).

(Lagt fyrir Alþingi á 132. löggjafarþingi 2005–2006.)




I. KAFLI
Breyting á lögum um lögheimili, nr. 21/1990.
1. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 7. gr. laganna:
     a.      Lokamálsliður 1. mgr. fellur brott.
     b.      Við bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
                      Tveir einstaklingar sem eru samvistum og uppfylla, eftir því sem við á, skilyrði II. kafla hjúskaparlaga, nr. 31/1993, sbr. einnig 2. gr. laga um staðfesta samvist, nr. 87/1996, geta fengið sambúð sína skráða í þjóðskrá. Einstaklingar í skráðri sambúð eiga sama lögheimili og skal upphaf hennar miðað við þann dag er beiðni er lögð fram.

II. KAFLI
Breyting á lögum um staðgreiðslu opinberra gjalda, nr. 45/1987,
með síðari breytingum.

2. gr.

    Í stað orðanna „karl og konu“ í 3. málsl. 1. mgr. 13. gr. laganna kemur: einstaklinga.

III. KAFLI
Breyting á lögum um skipti á dánarbúum o.fl., nr. 20/1991.
3. gr.

    100. gr. laganna orðast svo:
    Ef tveir einstaklingar slíta óvígðri sambúð getur annar þeirra eða báðir krafist opinberra skipta til fjárslita milli þeirra. Með óvígðri sambúð er átt við sambúð tveggja einstaklinga sem skráð er í þjóðskrá enda eigi þeir barn saman, von á barni saman eða þá að sambúðin hefur verið skráð í tvö ár samfellt hið skemmsta.

IV. KAFLI
Breyting á lögum um félagsþjónustu sveitarfélaga, nr. 40/1991,
með síðari breytingum.

4. gr.

    2. mgr. 19. gr. laganna orðast svo:
    Sama rétt til fjárhagsaðstoðar og hjón hafa samkvæmt lögum þessum einnig tveir einstaklingar í sambúð sem skráð hefur verið í þjóðskrá í a.m.k. eitt ár áður en umsókn er lögð fram.

V. KAFLI
Breyting á lögum um almannatryggingar, nr. 117/1993.
5. gr.

    1. og 2. málsl. 1. mgr. 44. gr. laganna orðast svo: Sama rétt til bóta og hjón hafa samkvæmt lögum þessum einnig tveir einstaklingar sem eru í óvígðri sambúð. Með óvígðri sambúð er átt við sambúð tveggja einstaklinga sem skráð er í þjóðskrá enda eigi þeir barn saman, von á barni saman eða þá að sambúðin hefur verið skráð í eitt ár samfellt hið skemmsta.

VI. KAFLI
Breyting á húsaleigulögum, nr. 36/1994.
6. gr.

    3. gr. laganna orðast svo:
    Ákvæði í lögum þessum um hjón og maka eiga einnig við um tvo einstaklinga í óvígðri sambúð eða sambúð af öðru tagi sem staðið hefur samfleytt í eitt ár. Með óvígðri sambúð er átt við sambúð tveggja einstaklinga sem skráð er í þjóðskrá enda eigi þeir barn saman, von á barni saman eða þá að sambúðin hefur verið skráð í eitt ár samfellt hið skemmsta.

VII. KAFLI
Breyting á lögum um Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins, nr. 1/1997.
7. gr.

    2. málsl. 7. mgr. 17. gr. laganna orðast svo: Með óvígðri sambúð er átt við sambúð tveggja einstaklinga sem skráð er í þjóðskrá enda eigi þeir barn saman, von á barni saman eða þá að sambúðin hefur verið skráð í eitt ár samfellt hið skemmsta.

VIII. KAFLI
Breyting á lögum um skyldutryggingu lífeyrisréttinda
og starfsemi lífeyrissjóða, nr. 129/1997.

8. gr.

    2. málsl. 3. mgr. 16. gr. laganna orðast svo: Með óvígðri sambúð er átt við sambúð tveggja einstaklinga sem skráð er í þjóðskrá enda eigi þeir barn saman, von á barni saman eða þá að sambúðin hefur verið skráð í tvö ár samfellt hið skemmsta.

IX. KAFLI
Breyting á lögum um Söfnunarsjóð lífeyrisréttinda, nr. 155/1998.
9. gr.

    2. málsl. 3. mgr. 12. gr. laganna orðast svo: Með óvígðri sambúð er átt við sambúð tveggja einstaklinga sem skráð er í þjóðskrá enda eigi þeir barn saman, von á barni saman eða þá að sambúðin hefur verið skráð í tvö ár samfellt hið skemmsta.

X. KAFLI
Breyting á lögum um Lífeyrissjóð bænda, nr. 12/1999, með síðari breytingum.
10. gr.

    2. málsl. 5. mgr. 11. gr. laganna orðast svo: Með óvígðri sambúð er átt við sambúð tveggja einstaklinga sem skráð er í þjóðskrá enda eigi þeir barn saman, von á barni saman eða þá að sambúðin hefur verið skráð í tvö ár samfellt hið skemmsta.

XI. KAFLI
Breyting á lögum um tekjuskatt og eignarskatt, nr. 90/2003.
11. gr.

    3. mgr. 62. gr. laganna orðast svo:
    Einstaklingar í óvígðri sambúð eiga rétt á að telja fram og vera skattlagðir sem hjón, sem samvistum eru, enda óski þeir þess báðir skriflega við skattyfirvöld. Með óvígðri sambúð er átt við sambúð tveggja einstaklinga sem skráð er í þjóðskrá enda eigi þeir barn saman, von á barni saman eða þá að sambúðin hefur verið skráð í eitt ár samfellt hið skemmsta.

XII. KAFLI
Breyting á lögum nr. 129/2004, um breyting á lögum nr. 90/2003, um tekjuskatt og eignarskatt, með síðari breytingum, og fleiri lögum.

12. gr.

    Í stað orðanna „karl og kona“ í 18. gr. laganna kemur: einstaklingar.

XIII. KAFLI
Breyting á lögum um erfðafjárskatt, nr. 14/2004.
13. gr.

    3. mgr. 2. gr. laganna orðast svo:
    Þrátt fyrir ákvæði 1. og 2. mgr. greiða engan erfðafjárskatt maki, einstaklingur í staðfestri samvist með arfleifanda og sambúðarmaki sem stofnað hefur til óvígðrar sambúðar við arfleifanda og tekur arf eftir hann samkvæmt erfðaskrá þar sem stöðu hans sem sambúðarmaka arfleifanda er ótvírætt getið.

XIV. KAFLI
Breyting á lögum um staðfesta samvist, nr. 87/1996, með síðari breytingum.
14. gr.

    Orðin „sem hefur fasta búsetu hér á landi“ í a-lið 2. mgr. 2. gr. laganna falla brott.     

15. gr.

    1. mgr. 6. gr. laganna fellur brott.

XV. KAFLI
Breyting á lögum um ættleiðingar, nr. 130/1999.
16. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 2. gr. laganna:
     a.      Í stað orðanna „Hjón eða karl og kona sem hafa verið í óvígðri sambúð í a.m.k. fimm ár skulu bæði standa“ í 1. mgr. kemur: Hjón, einstaklingar í staðfestri samvist eða einstaklingar sem verið hafa í óvígðri sambúð í a.m.k. fimm ár skulu standa saman.
     b.      Í stað orðanna „Öðru hjóna eða karli eða konu í óvígðri sambúð“ í 2. og 3. mgr. kemur: Öðru hjóna eða einstaklingi í staðfestri samvist eða óvígðri sambúð.
     c.      Í stað orðanna „sambúð karls og konu“ í 5. mgr. kemur: sambúð tveggja einstaklinga.

XVI. KAFLI
Breyting á lögum um tæknifrjóvgun, nr. 55/1996.
17. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 3. gr. laganna:
     a.      A-liður 1. mgr. orðast svo: konan, sem undirgengst aðgerðina, sé í hjúskap, staðfestri samvist eða óvígðri sambúð sem staðið hefur samfellt í þrjú ár hið skemmsta enda hafi báðir aðilar samþykkt aðgerðina skriflega og við votta.
     b.      Við d-lið 1. mgr. bætist: eða um sé að ræða konu í staðfestri samvist eða óvígðri sambúð með annarri konu, sbr. a-lið.

18. gr.

    5. gr. laganna orðast svo:
    Tæknisæðingu með gjafasæði má því aðeins framkvæma að frjósemi karlsins sé skert, hann haldinn alvarlegum erfðasjúkdómi, aðrar læknisfræðilegar ástæður mæli með notkun gjafasæðis eða um sé að ræða konu sem er í staðfestri samvist eða óvígðri sambúð með annarri konu, sbr. a-lið 1. mgr. 3. gr.

19. gr.

    1. mgr. 6. gr. laganna orðast svo:
    Eingöngu skal heimilt að nota gjafakynfrumur við glasafrjóvgun ef frjósemi er skert, um er að ræða alvarlegan erfðasjúkdóm eða aðrar læknisfræðilegar ástæður mæla með notkun gjafakynfrumna. Sé um að ræða konu í staðfestri samvist eða óvígðri sambúð með annarri konu, sbr. a-lið 1. mgr. 3. gr., er þó ætíð heimilt að nota gjafasæði.

20. gr.

    2. mgr. 9. gr. laganna orðast svo:
    Geymsla fósturvísa er háð því skilyrði að karlmaður sá og kona, sem leggja kynfrumurnar til, eða konur í staðfestri samvist eða óvígðri sambúð, veiti skriflegt samþykki fyrir geymslunni í samræmi við tilgang hennar, enda hafi þeim áður verið veittar upplýsingar um áhrif geymslunnar á fósturvísana og hin almennu skilyrði sem sett eru fyrir geymslu kynfrumna og fósturvísa í lögum þessum og reglum samkvæmt þeim.

21. gr.

    4. mgr. 10. gr. laganna orðast svo:
    Nú er hámarksgeymslutími fósturvísa ekki liðinn en karlmaður sá og kona, sem lögðu kynfrumurnar til, slíta hjúskap eða óvígðri sambúð eða konur í staðfestri samvist eða óvígðri sambúð slíta henni, og skal þá eyða fósturvísunum. Sama gildir ef annar aðilinn andast nema um gjöf kynfrumna til notkunar við tæknifrjóvgun hafi verið að ræða.

XVII. KAFLI
Breyting á barnalögum, nr. 76/2003.
22. gr.

    Við síðari málslið 1. gr. laganna bætist: sbr. þó 2. mgr. 6. gr.

23. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 3. gr. laganna:
     a.      Við bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Um barn tveggja kvenna sem getið er við tæknifrjóvgun samkvæmt lögum um tæknifrjóvgun gilda ákvæði 2. mgr. 6. gr.
     b.      Við fyrirsögn greinarinnar bætist: o.fl.

24. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 6. gr. laganna:
     a.      Á eftir 1. mgr. kemur ný málsgrein, svohljóðandi:
                      Kona sem samþykkt hefur að tæknifrjóvgun fari fram á samvistar- eða sambúðarmaka sínum samkvæmt lögum um tæknifrjóvgun telst foreldri barns sem þannig er getið.
     b.      Í stað „2. mgr.“ í 3. mgr. kemur: 3. mgr.
     c.      Fyrirsögn greinarinnar verður: Foreldri barns við tæknifrjóvgun.

25. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 7. gr. laganna:
     a.      Á eftir 2. mgr. kemur ný málsgrein, svohljóðandi:
                      Læknir eða ljósmóðir skal spyrja móður í staðfestri samvist eða óvígðri sambúð með annarri konu um hver sé foreldri barns og senda þjóðskrá yfirlýsingu hennar þar að lútandi. Kona sem móðir lýsir yfir að sé foreldri barns verður ekki skráð foreldri barns nema 2. mgr. 6. gr. eigi við.
     b.      Í stað „3. mgr.“ í 4. mgr. kemur: 4. mgr.
     c.      Fyrirsögn greinarinnar verður: Skráning í þjóðskrá.

26. gr.

    Heiti I. kafla laganna verður: Foreldrar barns.

27. gr.

    Við 1. málsl. 1. mgr. 10. gr. laganna bætist: eða foreldri ákvarðað skv. 2. mgr. 6. gr.

28. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 23. gr. laganna:
     a.      Við bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
                      Hið sama á við að breyttu breytanda um kröfu um að viðurkennt verði að kona í staðfestri samvist eða óvígðri sambúð með móður teljist ekki foreldri barns.
     b.      Við fyrirsögn greinarinnar bætist: o.fl.

29. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 25. gr. laganna:
     a.      Í stað orðsins „föður“ í 1. mgr. kemur: foreldri.
     b.      Í stað orðsins „barnsföður“ í 2. mgr. kemur: hitt foreldrið.
     c.      Í stað orðsins „mann“ í 3. mgr. kemur: foreldri.

XVIII. KAFLI
Breyting á erfðalögum, nr. 8/1962.
30. gr.

    3. tölul. 1. gr. laganna orðast svo: Foreldrar hvors foreldris arfleifanda um sig og börn þeirra.

31. gr.

    Við 4. gr. laganna bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
    Sömu reglur og kveðið er á um í 1. mgr. gilda að breyttu breytanda þegar foreldrar hvors foreldris arfláta eru af sama kyni.

XIX. KAFLI
Breyting á lögum um fæðingar- og foreldraorlof, nr. 95/2000,
með síðari breytingum.

32. gr.

    Í stað orðanna „bæði við föður og móður“ í 1. mgr. 2. gr. laganna kemur: við báða foreldra.

33. gr.

    Í stað orðsins „Kona“ í 3. mgr. 8. gr. laganna kemur: Móðir.

34. gr.

    3. málsl. 2. mgr. 15. gr. laganna orðast svo: Umsóknin skal undirrituð af tilvonandi foreldrum, enda fari þeir báðir með forsjá barnsins.

35. gr.

    3. málsl. 2. mgr. 23. gr. laganna orðast svo: Umsóknin skal undirrituð af tilvonandi foreldrum, enda fari þeir báðir með forsjá barnsins.

XX. KAFLI
Gildistaka.
36. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Í kjölfar þingsályktunar sem flutt var af fulltrúum allra þingflokka á 128. löggjafarþingi 2002–2003 skipaði forsætisráðherra hinn 8. september 2003 nefnd til að kanna réttarstöðu samkynhneigðs fólks. Var nefndin skipuð fulltrúum tilnefndum af félagsmálaráðuneyti, dóms- og kirkjumálaráðuneyti, menntamálaráðuneyti, heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneyti, Samtökunum ´78 og fulltrúa tilnefndum af forsætisráðuneyti sem jafnframt var formaður. Nefndin skilaði af sér ítarlegri skýrslu sem var lögð fyrir Alþingi á 131. löggjafarþingi 2004–2005, þskj. 381, 337. mál.
    Á grundvelli skýrslunnar hefur forsætisráðuneytið í samvinnu við viðkomandi fagráðuneyti unnið frumvarp þetta þar sem lagðar eru til ýmsar lagabreytingar sem allar hafa það að markmiði að afnema mismunun sem enn fyrirfinnst í lögum varðandi réttarstöðu samkynhneigðra. Helstu breytingar sem lagðar eru til með frumvarpinu eru þessar:
          Rýmkuð verða skilyrði fyrir stofnun staðfestrar samvistar þannig að ekki verði lengur krafist fastrar búsetu á Íslandi þegar íslenskir ríkisborgarar eiga í hlut, sbr. 14. gr. frumvarpsins.
          Tekið verður af skarið um að jafnt samkynhneigð pör sem gagnkynhneigð geta fengið sambúð skráða í þjóðskrá, sbr. 1. gr. frumvarpsins. Samhliða verður lagaákvæðum á fjölmörgum sviðum breytt til þess að ljóst sé að óvígð sambúð samkynhneigðra er lögð að jöfnu við óvígða sambúð gagnkynhneigðra, sbr. 2.–13. gr. frumvarpsins. Þar með eru skapaðar forsendur fyrir því að samkynhneigðir og gagnkynhneigðir njóti sömu réttinda varðandi almannatryggingar, lífeyrisréttindi, skattalega meðferð tekna og eigna, skipti dánarbúa o.fl.
          Heimild samkynhneigðra para til að ættleiða börn verður sú sama og gagnkynhneigðra para, sbr. 16. gr. frumvarpsins. Áfram verður metið hverju sinni út frá hagsmunum barnsins hvort leyfi er veitt til ættleiðingar.
          Kona í óvígðri sambúð eða staðfestri samvist með annarri konu öðlast heimild til að gangast undir tæknifrjóvgun líkt og á við um gagnkynhneigð pör, sbr. 17.–21. gr. frumvarpsins. Móðirin og maki hennar munu hafa sömu lagalegu skyldur og sömu lagalegu réttindi gagnvart barninu hvað varðar til dæmis forsjá og framfærslu, sbr. 22.–29. gr. frumvarpsins. Áfram verður metið hverju sinni út frá hagsmunum hins ófædda barns hvort leyfi er veitt til tæknifrjóvgunar.
          Tekin verða af tvímæli um að það falli undir markmið laga um töku fæðingar- og foreldraorlofs að auðvelda báðum samkynhneigðum foreldrum að vera samvistum við barn sitt, sbr. 32. gr. frumvarpsins.

Almennt um réttarstöðu samkynhneigðra.
    Á undanförnum árum hefur orðið umtalsverð þróun í þá átt að bæta stöðu samkynhneigðra í þjóðfélaginu, bæði á vettvangi löggjafar og í margvíslegu félagslegu samhengi. Segja má að ákveðin straumhvörf hafi orðið þegar Alþingi ályktaði 19. maí 1992 í fyrsta skipti um málefni samkynhneigðra og lýsti yfir vilja sínum til að tryggja að misrétti gagnvart samkynhneigðum ætti sér ekki stað hér á landi. Með lögum um staðfesta samvist, nr. 87/1996, sem tóku gildi 27. júní 1996, var samkynhneigðum pörum gert kleift að fá lögformlega viðurkenningu á sambúð sinni og eru réttaráhrif staðfestrar samvistar í meginatriðum sambærileg réttaráhrifum hjúskapar, sbr. ákvæði hjúskaparlaga, nr. 31/1993, með nokkrum undantekningum þó. Lögin um staðfesta samvist byggjast á tillögum nefndar um málefni samkynhneigðra frá árinu 1994 og var fyrirmynd sótt til danskrar, norskrar og sænskrar löggjafar um sama efni. Lögin um staðfesta samvist tryggðu ekki aðeins samkynhneigðum ákveðin réttindi heldur fólst í þeim viðurkenning á jafnri stöðu samkynhneigðra og gagnkynhneigðra í samfélaginu og í fjölskyldulífi. Vakti aðdragandi lagasetningarinnar og umræðan um hana svo mikla athygli að á tiltölulega skömmum tíma varð fjölskyldulíf samkynhneigðra sýnilegra en áður og öðlaðist umtalsverða viðurkenningu. Ljóst er að lögin hafa stuðlað að mikilvægri viðhorfsbreytingu í þjóðfélaginu gagnvart samböndum og fjölskyldulífi samkynhneigðra.

Framkvæmd laga um staðfesta samvist.
    Með lögum nr. 52/2000 voru gerðar nokkrar breytingar á lögum um staðfesta samvist; fellt var niður fortakslaust skilyrði 2. gr. þeirra um að annar eða báðir einstaklingar væru íslenskir ríkisborgarar og jafnframt var 6. gr. laganna breytt með þeim hætti að einstaklingi í staðfestri samvist var heimiluð stjúpættleiðing á barni hins sem hann hefði forsjá fyrir nema um væri að ræða kjörbarn frá öðru landi. Þá var bætt nýju ákvæði í 2. mgr. 6. gr. laganna þess efnis að lagaákvæði, sem fela í sér sérstakar reglur um annan makann í hjúskap og bundin eru við kynferði hans, gildi ekki um staðfesta samvist. Var ákvæðinu ætlað að taka af allan vafa um réttarstöðuna þegar þannig hagar til að kynferði maka hefur eðli málsins samkvæmt þýðingu. Álitaefni um þetta höfðu komið upp við framkvæmd laganna sem tengdust reglum um feðrun barna samkvæmt ákvæðum barnalaga í tilvikum þar sem kona í staðfestri samvist fæddi barn. Eðli málsins samkvæmt var ekki fallist á það við skráningu hjá Þjóðskrá að maki hennar af sama kyni teldist faðir barns.
    Samkvæmt lögunum um staðfesta samvist gilda um stofnun hennar, réttaráhrif og slit sömu reglur og eiga við um hjúskap nema annað sé tekið fram. Í 2. gr. laganna um staðfesta samvist kemur fram sérregla um skilyrði fyrir því að staðfest samvist geti fari fram hér á landi. Upprunalega settu lögin það fortakslausa skilyrði að báðir einstaklingarnir eða annar þeirra væri íslenskur ríkisborgari sem ætti lögheimili hér á landi. Var samhljóða skilyrði að finna í öðrum norrænum lögum um staðfesta samvist. Rökin fyrir þessari skipan voru einkum þau að á meðan þetta nýja sambúðarform væri ekki viðurkennt nema í mjög fáum ríkjum utan Norðurlandanna væri rétt að krefjast þess að einstaklingar hefðu ákveðin tengsl við ríkið þar sem slík réttarstaða væri veitt með lögum. Þannig gætu tveir erlendir ríkisborgarar ekki komið hingað til lands til að ganga í staðfesta samvist enda hefði hún engin réttaráhrif í því landi sem þeir kæmu frá ef þetta sambúðarform væri ekki viðurkennt þar með lögum.
    Eitt af markmiðum breytinganna árið 2000 var að rýmka þessi skilyrði eftir því sem eðlilegt og sanngjarnt væri með tilliti til borgara annarra ríkja en þá hafði dönsku lögunum um staðfesta samvist verið breytt að þessu leyti og breytingartillögur voru til meðferðar í þingunum í Noregi og Svíþjóð. Eftir breytingarnar kveður 2. mgr. 2. gr. laganna á um að staðfesting samvistar geti farið fram ef báðir einstaklingarnir eða annar þeirra er íslenskur ríkisborgari sem hefur fasta búsetu hér á landi, eða báðir hafa haft fasta búsetu hér á landi síðustu tvö árin fyrir staðfestingu samvistar þeirra. Þá er mælt fyrir um það í 3. mgr. 2. gr. að ríkisborgararéttur í Danmörku, Noregi og Svíþjóð verði lagður að jöfnu við íslenskan ríkisborgararétt skv. a-lið 2. mgr. Jafnframt er þar tekið fram að dómsmálaráðherra geti ákveðið í reglugerð að ríkisborgararéttur í öðru landi þar sem í gildi eru lög um staðfesta samvist, sem eru hliðstæð íslenskum lögum, verði einnig lagður að jöfnu við íslenskan ríkisborgararétt. Hefur ríkjum í þeim hópi, einkum á meginlandi Evrópu, fjölgað mjög á síðasta áratug og hefur dómsmálaráðherra sett reglugerð þar sem mælt er fyrir um að ríkisborgararéttur í Finnlandi og Hollandi sé lagður að jöfnu við íslenskan ríkisborgararétt.
    Verði ríkisborgararéttarskilyrðið ekki uppfyllt skv. a-lið 2. mgr. og 3. mgr. 2. gr. getur staðfest samvist engu að síður farið fram hér á landi í tilviki þar sem erlendir ríkisborgarar hafa haft fasta búsetu hér á landi síðustu tvö árin fyrir staðfestingu. Rökin með þessu eru að við þessar aðstæður hafi útlendingar þegar öðlast ákveðin tengsl við landið og líkur megi telja á að þeir búi hér áfram með þeim réttaráhrifum sem staðfest samvist veitir þeim frekar en í ríki þar sem staðfest samvist hefur engin réttaráhrif.
    Þrátt fyrir mikilvæga rýmkun á skilyrðum fyrir stofnun staðfestrar samvistar hafa komið upp tilvik sem sýna að núverandi búsetuskilyrði laganna geta falið í sér óeðlilega hindrun þar sem annar eða báðir einstaklingar eru íslenskir eða norrænir ríkisborgarar. Þannig má til dæmis nefna að íslenskir námsmenn annars staðar á Norðurlöndum, sem eiga þá ekki fasta búsetu á Íslandi, hafa átt í erfiðleikum með að fá samvist sína staðfesta hér á landi. Þessi hindrun gildir jafnt þótt þeir eigi búsetu í Danmörku, Noregi eða Svíþjóð og slíkt sambúðarform sé viðurkennt þar að lögum. Vilji þeir ganga í staðfesta samvist verður það að eiga sér stað í því ríki þar sem þeir eiga búsetu og þar sem slíkt sambúðarform er viðurkennt að lögum.
    Með frumvarpinu er því lagðar til breytingar á ákvæðum 2. gr. laga um staðfesta samvist, nr. 87/1996, þannig að rýmkuð verði skilyrði fyrir stofnun staðfestrar samvistar. Ekki verður lengur krafist skilyrðislausrar búsetu hér á landi þegar íslenskir ríkisborgarar eiga í hlut. Sama á við þegar um norræna ríkisborgara er að ræða og borgara ríkja sem tiltekin eru í reglugerð dómsmálaráðherra sem gefin er út á grundvelli 3. mgr. 2. gr. laganna.

Réttarstaða samkynhneigðra í sambúð.
    Könnun íslenskra laga og reglna leiðir í ljós að samkynhneigð pör í sambúð búa við lagalega mismunun á allmörgum sviðum þar sem þau eiga þess ekki kost að fá sambúð sína skráða og viðurkennda að lögum og njóta því ekki sömu réttinda og skyldna og gagnkynhneigð pör í sambúð. Á ýmsum öðrum sviðum er réttarstaðan óljós að þessu leyti. Þótt samkynhneigð pör eigi þess kost að staðfesta samvist sína samkvæmt lögum nr. 87/1996 með sömu réttaráhrifum í meginatriðum og ef þau væru í hjúskap hafa þau ekki þann valkost að velja sambúðarform með takmarkaðri réttaráhrifum þar sem tekið er tillit til sameiginlegs heimilishalds og vissrar fjárhagslegrar samstöðu með ýmsum réttindum og skyldum. Engin málefnaleg rök réttlæta mismunun af þessu tagi og er í frumvarpinu lagt til að gerðar verði nauðsynlegar lagabreytingar til þess að tryggja að samkynhneigð pör geti stofnað til sambúðar með sömu réttaráhrifum og gagnkynhneigð pör.
    Engin heildstæð löggjöf gildir um réttarstöðu sambúðarfólks sambærileg við hjúskaparlög, nr. 31/1993. Ákvæði þar sem sérstök réttaráhrif tengd því að tveir einstaklingar búi saman í „óvígðri sambúð“ eða „sambúð skráðri í þjóðskrá“ er að finna á víð og dreif í löggjöfinni án þess að skilgreining þessara hugtaka liggi þó fyrir.
    Helsta forsenda þess að bæta megi réttarstöðu samkynhneigðra á þessu sviði er að tveir samkynhneigðir einstaklingar geti fengið sambúð sína skráða í þjóðskrá enda er ljóst að ýmis sérlög binda réttaráhrif sambúðar við að hún sé skráð í þjóðskrá. Til þess að ná megi því markmiði frumvarpsins að tryggja jafnan rétt samkynhneigðra og gagnkynhneigðra að þessu leyti er lagt til að lögum um lögheimili, nr. 21/1990, verði breytt og þar verði mælt fyrir um að tveir einstaklingar sem eru samvistum geti fengið sambúð sína skráða á sameiginlegu lögheimili að uppfylltum sömu skilyrðum og fram koma í ákvæðum II. kafla hjúskaparlaga, nr. 31/1993, 7.–12. gr., varðandi aldur, skyldleika, kröfu um lögræði og lok fyrri hjúskapar/staðfestrar samvistar. Með þessu yrði í reynd fest í lög núverandi framkvæmd Þjóðskrár við skráningu sambúðar auk þess sem samkynhneigðum pörum yrði gert kleift að fá slíka sambúð skráða. Með vísan til skilyrða hjúskaparlaga að þessu leyti gildir sjálfkrafa að litið yrði til lagaskilyrða fyrir stofnun staðfestrar samvistar, sbr. 2. gr. laga nr. 87/1996, um staðfesta samvist.
    Þá eru í 12.–13. gr. frumvarpsins lagðar til orðalagsbreytingar á ýmsum lagaákvæðum þar sem sérstök réttaráhrif eru bundin við óvígða sambúð til þess að taka af tvímæli um að í hugtakinu geti falist sambúð tveggja einstaklinga af sama kyni. Með frumvarpinu er leitast við að samræma skilgreiningu á því hvað sé óvígð sambúð. Meginskilyrði verður að hún sé skráð í þjóðskrá og að annaðhvort eigi parið barn saman eða von á barni saman eða þá að sambúðin hafi staðið í tiltekinn lágmarkstíma. Þessi lágmarkstími er mislangur eftir því hvaða löggjöf á í hlut og hefur ekki náðst samstaða um fulla samræmingu að því leyti. Sambúð verður ekki skráð í þjóðskrá eins og áður segir nema parið hafi sama lögheimili, sé samvistum og skilyrði hjúskaparlaga eða laga um staðfesta samvist um aldur, lögræði, bann við skyldleika og lok hjúskapar/staðfestrar samvistar séu uppfyllt.
    Þessi samræming orðalags í ákvæðum er lúta að óvígðri sambúð er í anda löggjafarþróunar síðustu ára þar sem í vaxandi mæli hefur verið vísað til þess að sambúð þurfi að vera skráð í þjóðskrá til þess að henni fylgi réttaráhrif. Er það einnig til þess fallið að eyða óvissu um það hvenær slík sambúð sé fyrir hendi en nokkur dæmi eru um ágreiningsmál sem risið hafa vegna óljósrar réttarstöðu að þessu leyti.
    Með fyrrgreindum breytingum á lögum um lögheimili og tiltölulega einföldum breytingum sem lagðar eru til á nokkrum lögum er unnt að koma á jafnrétti á þessu sviði á milli samkynhneigðra og gagnkynhneigðra para án þess að horfið verði frá þeirri stefnu löggjafans að skipa ekki á einum stað reglum um sambúð einstaklinga í ítarlegri heildarlöggjöf.

Ættleiðingar.
    Nefnd um réttarstöðu samkynhneigðs fólks stóð saman að tillögum varðandi ættleiðingar íslenskra barna en skiptist í tvo jafna hluta um þá þætti tillagnanna sem varða ættleiðingar erlendra barna og tæknifrjóvganir. Enginn skoðanamunur var uppi í umræðum nefndarinnar um að samkynhneigðir einstaklingar væru jafnhæfir uppalendur og gagnkynhneigðir. Fjallaði nefndin m.a. um niðurstöður margvíslegra rannsókna, sem gerðar hafa verið utan lands og innan varðandi börn sem alast upp með samkynhneigðum foreldrum, sem styðja þá niðurstöðu.
    Vegna óvissu um sálræna líðan erlendra ættleiddra barna, sem skera sig m.a. frá umhverfi sínu vegna ólíks uppruna síns, auk mikilvægis þess að stefna ekki í hættu árangursríkri samvinnu sem komist hefur á við erlend stjórnvöld um ættleiðingar barna þaðan, töldu þrír nefndarmenn ekki rétt að svo stöddu að heimila ættleiðingar samkynhneigðra para á erlendum börnum. Aðrir þrír nefndarmenn töldu að reglur annarra ríkja um ættleiðingar ættu ekki að hafa úrslitaáhrif á mótun íslenskrar löggjafar og vísuðu til þess að ekki væru dæmi um að erlend ríki hefðu útilokað samstarf við Svía þótt þeir hefðu breytt lögum í þessa veru.
    Markmið ættleiðingar er að útvega barni fjölskyldu og í hverju einstöku tilviki fer fram ítarleg könnun á grundvelli ættleiðingarlaga á högum og aðstæðum væntanlegra kjörforeldra og á því byggt að ættleiðingin sé viðkomandi barni fyrir bestu.
    Samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laganna um staðfesta samvist er réttur einstaklings í staðfestri samvist bundinn við stjúpættleiðingar íslenskra barna en ekki frumættleiðingar. Í tilvikum þar sem um ræðir frumættleiðingu á íslensku barni á hún sér stað að undangengnu fóstri samkvæmt reglum barnaverndarlaga eða annarri umsjá barns. Samkynhneigð pör hafa tekið börn í fóstur enda eru engar takmarkanir í íslenskum lögum eða reglum hvað það varðar og er ættleiðing því sjálfsagt framhald af fóstri og til þess fallin að tryggja börnum fyllsta öryggi.
    Engar rannsóknir hafa farið fram á því hvernig erlendum ættleiddum börnum vegnar hér á landi, hvernig þau aðlagast umhverfi sínu og upplifa tengslarof við heimaland sitt og uppruna. Samkvæmt erlendum rannsóknum sem nefndin kannaði og áliti sérfræðinga sem komu á fund nefndarinnar er ljóst að ættleiðing kjörbarna frá öðrum löndum hefur í för með sér allmikið sálrænt álag fyrir þau sem þeim gengur misjafnlega að vinna úr. Rannsóknir hafa sýnt að líkur eru á því að börn samkynhneigðra foreldra verði fyrir ákveðnu félagslegu álagi, einkum á fyrri hluta unglingsára. Um leið draga þessar rannsóknir skýrt fram að öryggi og umhyggja sé það sem skipti sköpum fyrir hamingju þessara barna og að rætt sé opinskátt og feimnislaust um sérstöðu þeirra. Því þarf sérstaklega að gæta þess að foreldrar verði færir um að veita barninu umönnun og ástúð og að takast á við það álag sem ættleiðing frá framandi menningarsvæðum veldur börnum.
    Á undanförnum tveimur áratugum hefur fjölgað verulega á Íslandi frumættleiðingum barna frá Asíulöndum en þessi ríki heimila ekki ættleiðingar til samkynhneigðra. Er því ljóst að samkynhneigðum pörum mundi við þessar aðstæður ekki nýtast sú leið sem ættleiðingarlög ráðgera, að erlend ættleiðing eigi sér stað fyrir milligöngu ættleiðingarfélags frá þeim ríkjum sem samvinna er við um ættleiðingar. Svíþjóð hefur nú eitt Norðurlandanna veitt samkynhneigðum fullan rétt til frumættleiðinga á börnum, erlendum sem innlendum, en lög þess efnis tóku gildi 1. febrúar 2002. Reynslan af þeirri löggjöf er lítil þar sem ekkert erlent ríki sem Svíar hafa samvinnu við heimilar ættleiðingu til samkynhneigðra en ekki finnast dæmi þess að erlent ríki hafi séð ástæðu til að útiloka samstarf um ættleiðingar til gagnkynhneigðra þar í landi.
    Ekki verður séð að nægileg rök séu til að gera upp á milli samkynhneigðra og gagnkynhneigðra hvað varðar rétt til ættleiðinga. Þá hefur það einnig þýðingu að afstaða samfélagsins til réttinda samkynhneigðra hefur á síðustu misserum færst í þessa átt.
    Með frumvarpinu er því lagt til að frumættleiðingar íslenskra og erlendra barna verði heimilaðar jafnt gagnkynhneigðum og samkynhneigðum pörum í hjúskap, staðfestri samvist og óvígðri sambúð og að viðeigandi breytingar verði gerðar á ættleiðingalögum, nr. 130/1999, í þessu skyni. Jafnframt verði felld úr gildi 1. mgr. 6. gr. laga um staðfesta samvist sem mælir fyrir um takmarkaðan rétt samkynhneigðra til ættleiðinga.

Tæknifrjóvganir.
    Nefnd um réttarstöðu samkynhneigðs fólks var ekki einhuga um það hvort rétt væri að heimila lesbískum pörum að gangast undir tæknifrjóvgun. Þrír nefndarmenn af sex töldu ekki rétt að ganga svo langt enda vægju þyngra hagsmunir barns af því að alast upp bæði með móður og föður. Aðrir þrír nefndarmenn lögðu hins vegar til að lesbískum pörum skyldi heimil aðstoð við tæknifrjóvgun á opinberum sjúkrastofnunum. Á meðan löngun til að eignast barn væri virt af löggjafanum og hún forsenda lagasetningar teldu þeir það stríða gegn jafnrétti að meina lesbískum pörum um rétt sem gagnkynhneigð pör nytu.
    Við setningu laga um tæknifrjóvgun, nr. 55/1996, var byggt á því skilyrði að kona, sem undirgengist tæknifrjóvgunaraðgerð, væri í hjúskap eða sambúð með karli. Skilyrðin byggjast á því markmiði að tryggja, eftir því sem kostur er, hagsmuni barns sem fæðist eftir getnað með tæknifrjóvgun þegar aðrar leiðir hjóna eða karls og konu í sambúð til að eignast barn hafa brugðist. Hefur skilyrðið um að eingöngu gagnkynhneigð pör eigi aðgang að þessari meðferð byggst á því viðhorfi að tryggja þurfi þá hagsmuni barnsins að það alist upp með bæði föður og móður en að það sé ekki sjálfstæður réttur einstaklings að eignast barn. Með vísan til þessa sjónarmiðs var við setningu laganna ekki fallist á að tryggja bæri einhleypum konum eða lesbískum pörum rétt til að gangast undir tæknifrjóvgun með gjafasæði.
    Réttur barna til að þekkja faðerni sitt er mikilvægur og undirstrikaður í barnalögum. Gagnkynhneigð pör hafa möguleika á aðstoð lækna til tæknifrjóvgunar með gjafasæði. Hér á Íslandi er það sótt til Danmerkur þar sem nafnleynd ríkir um sæðisgjafa og það þýðir að börn, sem verða til á þennan hátt, geta ekki komist að faðerni sínu. Þó að nýjar tækniaðferðir við frjóvgun hafi á síðustu árum orðið til þess að gagnkynhneigð hjón og pör leiti sjaldnar nafnlauss gjafasæðis en áður, þá er leiðin þeim samt heimil og tíðkast hér á landi. Verður að telja eðlilegt að samkynhneigðir njóti sama réttar og gagnkynhneigðir hvað þetta varðar. Þá hefur það einnig þýðingu að afstaða samfélagsins til réttinda samkynhneigðra hefur á síðustu misserum færst í þessa átt.
    Með frumvarpinu er því lagt til að lesbískum pörum verði heimil aðstoð við tæknifrjóvgun með sömu rökum og skilmálum og varða tæknifrjóvgun gagnkynhneigðra. Með brottfalli 1. mgr. 6. gr. laga nr. 87/1996 sem áður er minnst á er enn fremur undirstrikað að stofnun staðfestrar samvistar hefur sömu réttaráhrif og hjúskapur að þessu leyti.

Ákvörðun foreldris.
    Þegar lög um staðfesta samvist, nr. 87/1996, voru sett var ekki talin ástæða til gera breytingar á barnalögum varðandi réttarsamband barns sem kona í slíku sambandi eignast og samvistarmakans. Var raunar ákveðið með lögum nr. 52/2000 sem fyrr er getið að taka það sérstaklega fram að lagaákvæði, sem fela í sér sérstakar reglur um annan makann í hjúskap og bundin eru við kynferði hans, gildi ekki um staðfesta samvist. Var ákvæðinu ætlað að taka af allan vafa um réttarstöðuna þegar þannig hagar til að kynferði maka hefur eðli málsins samkvæmt þýðingu, t.d. varðandi feðrun barna. Hins vegar hefur það úrræði verið fyrir hendi eftir lagabreytingu með lögum nr. 52/2000 að einstaklingur hefur getað ættleitt barn samvistarmaka síns.
    Með frumvarpinu er lagt til að þegar kona í staðfestri samvist eignast barn í kjölfar tæknifrjóvgunar teljist samvistar- eða sambúðarmaki hennar foreldri barnsins. Skilyrði er að móðirin lýsi því yfir að makinn sé foreldri barnsins og að sú síðarnefnda hafi samþykkt tæknifrjóvgunina samkvæmt lögum um tæknifrjóvgun.
    Þýðing þessarar breytingar verður sú að báðir foreldrar munu hafa sömu réttindi og skyldur gagnvart barninu. Réttarstaða þeirra gagnvart barninu verður því sú sama og gagnkynhneigðs pars sem ákveður að grípa til tæknifrjóvgunar til að vinna bug á barnleysi.
    Ekki eru lagðar til neinar breytingar á lögunum um tæknifrjóvgun hvað varðar rétt sæðisgjafa til nafnleyndar. Þess má geta að í Svíþjóð, þar sem lesbískum pörum var fyrr á þessu ári heimilað að gangast undir tæknifrjóvgun, er nafnlaus sæðisgjöf ekki heimil. Er það talið mikilvægt að barn eigi möguleika síðar meir að komast að því hver kynfaðirinn er jafnvel þótt ekki sé um neitt réttarsamband þeirra á milli að ræða. Á það hefur verið bent að hætt væri við að færri treystu sér til að gefa sæði ef nafnleynd væri ekki tryggð og er það meðal annars skýringin á því að slík leynd er leyfð í íslenskum rétti og rétti ýmissa annarra ríkja eins og Danmerkur og Noregs.

Nokkur lagatæknileg atriði.
    Þótt frumvarp þetta verði að lögum er þó ekki þar með sagt að orðalag í löggjöfinni hafi alls staðar verið fært til samræmis við þá stefnumörkun sem fólst í setningu laga nr. 87/1996, um staðfesta samvist, og síðari löggjöf á því sviði. Til dæmis er enn víða í löggjöfinni talað um hjón sem vísar samkvæmt hefðbundinni orðanotkun eingöngu til karls og konu í hjúskap. Það ætti þó ekki að koma að sök því 5. gr. laga nr. 87/1996 er afdráttarlaus um það að staðfest samvist hafi að öllu leyti sömu réttaráhrif og hjúskapur með þeim fáu undantekningum sem greinir í 6. gr. sömu laga. Verður því ekki talin brýn þörf á að fara kerfisbundið yfir alla þá staði í löggjöfinni þar sem orðalag hefur ekki verið fært til fyllsta samræmis við hina nýju stefnumótun varðandi jafnan rétt allra óháð kynhneigð. Hugtakið hjón í lagatexta ber ætíð að skýra svo að það taki bæði til karls og konu í hjúskap og tveggja einstaklinga í staðfestri samvist. Sama á við um hugtakið maki sem reyndar er einnig stundum notað í enn víðari merkingu og látið ná yfir þá sem eru í óvígðri sambúð.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.

    Með greininni er lögð til sú breyting á lögum um lögheimili, nr. 21/1990, að berum orðum verði kveðið á um heimild fólks í sambúð til að fá hana skráða í þjóðskrá. Er lagt til að nýrri málsgrein þessa efnis, sem verður 3. mgr., verði bætt við 7. gr. laga nr. 21/1990. Fram til þessa hefur sú heimild verið ólögfest. Jafnframt eru tekin af tvímæli um að tveir einstaklingar af sama kyni geti fengið slíka sambúð skráða. Hingað til hefur Þjóðskrá eingöngu skráð sambúð karls og konu. Með hugtakinu sambúð og orðalaginu „samvistir“ er átt við sambúð sem jafna má að vissu marki til hjúskapar en ekki þau tilvik önnur þar sem tveir einstaklingar búa undir sama þaki. Ekki er ætlast til þess að af hálfu Þjóðskrár fari fram nein könnun á því hvernig sambandi einstaklinganna tveggja er háttað áður en skráning er heimiluð. Hins vegar er gert ráð fyrir að fram fari athugun á því hvort skilyrði II. kafla hjúskaparlaga, nr. 31/1993, 7.–12. gr., varðandi aldur, bann við nánum skyldleika og lok fyrri hjúskapar/staðfestrar samvistar, séu fyrir hendi.
    Lagt er til að við ákvörðun þess tímamarks er skráð sambúð hefst verði miðað við þann dag er Þjóðskrá berst tilkynning þar að lútandi.
    Þá er lagt til að lokamálsliður 1. mgr. 7. laga nr. 21/1990 falli brott en hann verður óþarfur eftir að ný 3. mgr. hefur bæst við.
    Vert er að taka fram að ekki þykir ástæða til að geta þess sérstaklega í 1. og 2. mgr. 7. gr. laga nr. 21/1990 að sama gildi um hjón og tvo einstaklinga í staðfestri samvist enda leiðir það af 5. gr. laga nr. 87/1996, um staðfesta samvist.

Um 2.–13. gr.

    Í 2.–13. gr. eru lagðar til orðalagsbreytingar á nokkrum lagaákvæðum þar sem sérstök réttaráhrif eru bundin við óvígða sambúð „karls og konu“ til þess að taka af tvímæli um að ákvæðin eigi einnig við um óvígða sambúð tveggja einstaklinga af sama kyni.
    Húsaleigulög, nr. 36/1994, eru sérstök að því leyti að þau veita einnig öðrum sambúðarformum en hjúskap og óvígðri sambúð sömu réttarvernd, sbr. 3. gr. laganna. Er tillit tekið til þess í 6. gr. frumvarpsins þar sem talað er um „sambúð af öðru tagi“. Ber að skýra það orðasamband eins og hugtakið „annað sambúðarform“ í núgildandi ákvæði.
    Lagt er til að skilgreining óvígðrar sambúðar sé samræmd þar sem það á við. Þannig sé það meginskilyrði að hún hafi verið skráð í þjóðskrá. Í því felst skv. 1. gr. frumvarpsins að viðkomandi einstaklingar hafi sama lögheimili, séu samvistum og uppfylli skilyrði II. kafla hjúskaparlaga, nr. 31/1993, sbr. einnig 2. gr. laga um staðfesta samvist, nr. 87/1996. Að auki er það yfirleitt skilyrði að hin skráða sambúð hafi varað í tiltekinn tíma eða þá að viðkomandi eigi barn saman eða von á barni saman.
    Ekki er talin þörf á að skilgreina sérstaklega í 13. gr. frumvarpsins hvað felist í óvígðri sambúð því þar er um það að ræða að sambúðarmaka sé getið í erfðaskrá. Má leggja það að jöfnu við skráningu í þjóðskrá.
    Þá er rétt að benda á að í 5. mgr. 2. gr. ættleiðingarlaga, nr. 130/1999, verður áfram við það miðað að líta megi til annarra gagna en skráningar þegar meta skal hvort óvígð sambúð sé fyrir hendi. Helgast þessi sérregla af ótvíræðum hagsmunum barnsins. Sömu sjónarmið eiga við um skilning hugtaksins óvígð sambúð í a-lið 1. mgr. 3. gr. laga um tæknifrjóvgun, nr. 55/1996.

Um 14. gr.

    Í greininni eru lagðar til breytingar á lögum um staðfesta samvist, nr. 87/1996, með síðari breytingum, er varða skilyrði fyrir því að staðfest samvist geti farið fram hér á landi. Samkvæmt lögunum um staðfesta samvist gilda um stofnun hennar, réttaráhrif og slit sömu reglur og eiga við um hjúskap nema annað sé tekið fram. Í 2. gr. laganna um staðfesta samvist kemur fram sérregla um skilyrði fyrir því að staðfest samvist geti farið fram hér á landi.
    Upp hafa komið tilvik sem sýna að núverandi búsetuskilyrði laganna geta falið í sér óeðlilega hindrun þar sem annar eða báðir einstaklingar eru íslenskir eða norrænir ríkisborgarar. Þannig má til dæmis nefna að íslenskir námsmenn annars staðar á Norðurlöndum, sem eiga þá ekki fasta búsetu á Íslandi, hafa átt í erfiðleikum með að fá samvist sína staðfesta hér á landi. Þessi hindrun gildir jafnt þótt þeir eigi búsetu í Danmörku, Noregi eða Svíþjóð og slíkt sambúðarform sé viðurkennt þar að lögum. Vilji þeir ganga í staðfesta samvist verður það að eiga sér stað í því ríki þar sem þeir eiga búsetu og þar sem slíkt sambúðarform er viðurkennt að lögum.
    Lagt er til að búsetuskilyrðið verði fellt niður í a-lið 2. mgr. 2. gr. laga nr. 87/1996. Fyrir vikið nægir að annar þeirra tveggja einstaklinga sem efna til staðfestrar samvistar sé íslenskur eða norrænn ríkisborgari. Enn fremur er dómsmálaráðherra samkvæmt núgildandi lögum heimilt að ákveða með reglugerð að ríkisborgarar fleiri ríkja njóti sama réttar að þessu leyti enda séu þar í gildi lög hliðstæð lögunum um staðfesta samvist.
    

Um 15. gr.

    Greinin þarfnast ekki skýringa.

Um 16. gr.

    Með greininni eru lagðar til breytingar á 2. gr. laga um ættleiðingar, nr. 130/1999, um það hverjir geta verið ættleiðendur, sem hafa það að markmiði að heimila einstaklingum í staðfestri samvist eða óvígðri sambúð að ættleiða börn. Í stað hjóna eða karls og konu sem hafa verið í óvígðri sambúð komi hjón eða einstaklingar í staðfestri samvist eða óvígðri sambúð og skilgreining á óvígðri sambúð verði víkkuð eins og lagt er til öðrum greinum frumvarpsins.

Um 17. gr.

     Um a-lið. Með ákvæðinu er lögð til sú grundvallarbreyting að afnumið verði það skilyrði 3. gr. gildandi laga um tæknifrjóvgun að einungis gagnkynhneigð pör í hjúskap eða óvígðri sambúð, sem staðið hefur samfellt í þrjú ár hið skemmsta, geti gengist undir tæknifrjóvgun. Með breytingunni er konu í staðfestri samvist eða í óvígðri sambúð með annarri konu sem staðið hefur í þrjú ár hið skemmsta gert kleift að gangast undir tæknifrjóvgun. Samkvæmt ákvæðinu gilda því sambærileg skilyrði um gagnkynhneigð pör og samkynhneigð pör hvað varðar hjónaband og staðfesta samvist eða óvígða sambúð sem staðið hefur í tiltekinn tíma.
     Um b-lið. Samkvæmt d-lið 3. gr. gildandi laga er það eitt skilyrða þess að tæknifrjóvgun megi framkvæma að aðrar aðgerðir til að sigrast á ófrjósemi hafi brugðist eða séu ekki tiltækar. Þetta skilyrði á eðli málsins samkvæmt ekki við um samkynhneigðar konur. Í samræmi við það er lagt til að orðalag d-liðar verði á þann veg að ljóst sé að umrætt skilyrði eigi ekki við í slíkum tilfellum.

Um 18. gr.

    Með ákvæðinu er lagt til að orðalagi 5. gr. laganna sem fjallar um skilyrði tæknisæðingar með gjafasæði verði breytt á þann veg að hún taki samkvæmt efni sínu bæði til gagnkynhneigðra og samkynhneigðra para. Lagt er til að við þau skilyrði núgildandi laga sem eiga eingöngu við um gagnkynhneigð pör bætist að tæknisæðingu megi framkvæma sé um að ræða konu sem er í staðfestri samvist eða óvígðri sambúð með annarri konu sem staðið hefur samfellt í þrjú ár hið skemmsta.

Um 19. gr.

    Með ákvæðinu er orðalag 6. gr. laganna um glasafrjóvgun lagfært svo greinin eigi jafnt við um gagnkynhneigða í hjúskap eða óvígðri sambúð og konur í staðfestri samvist eða óvígðri sambúð með annarri konu. Tekið er fram að heimilt sé að nota gjafasæði í síðarnefndu tilvikunum. Ákvæðið gerir því ráð fyrir að réttur kvenna í staðfestri samvist eða óvígðri sambúð til að gangast undir glasafrjóvgun og til notkunar gjafakynfrumna sé sá sami og réttur gagnkynhneigðra í hjúskap og óvígðri sambúð.

Um 20. gr.

    Með ákvæðinu er lagt til að orðalagi 2. mgr. 9. gr. laganna um geymslu fósturvísa verði breytt á þann veg að hún taki samkvæmt efni sínu bæði til gagnkynhneigðra og samkynhneigðra para.

Um 21. gr.

    Lagt er til að orðalagi 4. mgr. 10. gr. laganna sem fjallar um þau tilvik þegar eyða þarf fósturvísi við slit hjónabands eða sambúðar eða kynfrumugjafi andast verði breytt á þann veg að ákvæðið taki samkvæmt orðanna hljóðan bæði til gagnkynhneigðra og samkynhneigðra para.

Um 22. gr.

    Hér er lögð til breyting á 1. gr. barnalaga. Af ákvæðinu leiðir að móður er ekki skylt að feðra barn sitt þótt feðrunarreglur 2. gr. eigi ekki við ef 2. mgr. 6. gr. á við um réttarstöðu barns.

Um 23. gr.

    Í 3. gr. barnalaga er fjallað um það hvernig faðerni barns ákvarðast ef feðrunarreglur 2. gr. eiga ekki við. Nauðsynlegt þykir að taka fram til skýringar hvernig það ákvarðast hver telst foreldri barns þegar hvorki feðrunarreglur 2. gr. eiga við né aðrar feðrunarreglur barnalaga.

Um 24. gr.

    Í a-lið er fjallað um réttarstöðu barns sem getið er við tæknifrjóvgun. Samkvæmt ákvæðinu telst kona, sem samþykkt hefur að tæknifrjóvgun fari fram á samvistarmaka sínum eða sambúðarkonu samkvæmt lögum um tæknifrjóvgun, foreldri barns sem þannig er getið. Ekki er hægt að beita pater est reglunni sem slíkri í tilvikum eins og þessum – eðli málsins samkvæmt. Pater est reglan byggist á því að líkur séu á að eiginmaður móður sé faðir barns hennar en hægt er að fara í vefengingarmál ef staðreyndin er sú að annar maður er faðir barnsins. Þessi sjónarmið eiga ekki við um tvær konur. Gert er ráð fyrir að sams konar regla gildi við tæknifrjóvgun þegar tvær konur eiga í hlut og þegar um karl og konu er að ræða því þegar eiginmaður móður eða sambúðarmaður samþykkir að fram fari tæknifrjóvgun á henni byggist faðerni barnsins ekki á pater est reglunni heldur sérákvæði 1. mgr. 6. gr. barnalaga.
    Af ákvæðinu leiðir að almennar reglur um faðerni eiga við ef kona, í staðfestri samvist eða óvígðri sambúð með annarri konu, eignast barn sem ekki er getið við tæknifrjóvgun samkvæmt lögum um tæknifrjóvgun. Konan í sambandinu sem ekki elur barnið, þegar þannig stendur á, getur því ekki talist foreldri þess. Þá ber móðurinni að feðra barn sitt í samræmi við 1. gr. og maður sem telur sig föður barns þegar svona háttar til getur farið í faðernismál skv. 10. gr. Hafa ber á hinn bóginn í huga að maki móður getur óskað leyfis til ættleiðingar á barninu samkvæmt lögum um ættleiðingar og er ákvörðun um hvort ættleiðingarleyfi skuli gefið út tekin eftir því sem barni er fyrir bestu.
    Lagt er til að sama leið verði farin hér á landi og í Svíþjóð, þ.e. að lagatextinn skilgreini konuna, sem ekki elur barnið, sem foreldri barns en ekki móður þess. Í 5. gr. gildandi laga er með skýrum hætti tekið fram að kona sem elur barn eftir tæknifrjóvgun telst móðir þess og ekki er ástæða til þess að hrófla við því. Bent er á að í barnalögum er að finna ákvæði sem skírskota til móður barns, þ.e. þeirrar konu sem elur barn, og gæti verið afar villandi að tilgreina að barn ætti tvær mæður. Enn fremur er vakin athygli á lögum um ríkisborgararétt en þar kemur fram í 1. gr. að barn öðlist íslenskt ríkisfang við fæðingu ef móðir þess er íslenskur ríkisborgari. Orðið foreldri tekur yfir það réttarsamband sem orðin móðir og faðir fela í sér og því leikur enginn vafi á því hvað felst í þeirri réttarstöðu. Hafa verður í huga að sú skilgreining sem hér er lagt til að notuð verði hefur fyrst og fremst þann tilgang að skýra réttarstöðu barns að lögum og hefur lítið að segja þegar kemur að því hvernig barn ávarpar foreldra sína.

Um 25. gr.

    Í 7. gr. gildandi barnalaga er lögð sú skylda á lækni eða ljósmóður sem tekur á móti barni að spyrja móður sem ekki er í hjúskap um faðerni barns. Reglan byggist á því að eiginmaður móður telst ávallt faðir barns hennar en ef móðir er á hinn bóginn í óvígðri sambúð þarf hún að lýsa tiltekinn mann föður barns svo hann verði skráður faðir þess í þjóðskrá. Ef móðir er hvorki í hjúskap né óvígðri sambúð þarf hún að lýsa mann föður barns og hann að viðurkenna faðernið í kjölfarið svo hann skráist faðir þess í þjóðskrá. Í a-lið er fjallað um hvernig mál horfir við ef móðir er í staðfestri samvist eða óvígðri sambúð með konu. Eðli málsins samkvæmt gildir pater est reglan ekki og maki getur aðeins talist foreldri sé barnið getið við tæknifrjóvgun samkvæmt lögum um tæknifrjóvgun. Því er nauðsynlegt að móðir sé spurð út í þessi atriði og til þess að taka af öll tvímæli um réttarstöðu barnsins er tekið fram að kona verði ekki skráð foreldri nema 2. mgr. 6. gr. eigi við.

Um 26. gr.

    Í I. kafla laganna er nú bæði fjallað um móðerni og faðerni barns en einnig um réttarstöðuna þegar tæknifrjóvgun fer fram á konu í staðfestri samvist eða óvígðri sambúð. Kona sem samþykkir tæknifrjóvgun á maka sínum telst foreldri barns og því er rétt að breyta heiti kaflans.

Um 27. gr.

    Hér er lögð til breyting á 10. gr. barnalaga sem skýrir sig að mestu sjálf. Samkvæmt gildandi lögum getur maður sem telur sig föður barns höfðað faðernismál ef barn er ófeðrað. Barn tveggja kvenna, sem getið er samkvæmt lögum um tæknifrjóvgun, er eðli máls samkvæmt ófeðrað. Foreldri er í því tilfelli ákvarðað skv. 2. mgr. 6. gr. og eru hér tekin af öll tvímæli um að maður geti ekki höfðað faðernismál þegar svo háttar. Ef barnið er ekki getið undir þessum kringumstæðum er málshöfðunarheimildin á hinn bóginn fyrir hendi.

Um 28. gr.

    Greinin þarfnast ekki skýringa

Um 29. gr.

    Greinin skýrir sig að mestu sjálf. 25. gr. gildandi barnalaga er að stofni til gamalt ákvæði sem afar sjaldan reynir á en við síðustu endurskoðun barnalaga var engu að síður ákveðið að halda ákvæðinu í lögum. Ákvæðið eins og það hljóðar nú er kynbundið en með breytingum á lögum um tæknifrjóvgun er ekki útilokað að sá möguleiki geti komið upp að rétt sé að úrskurða konu sem samþykkt hefur tæknifrjóvgun á maka sínum eða sambúðarkonu til greiðslu framlaga af því tagi sem 25. gr. tekur til og því eru lagðar til orðalagsbreytingar.

Um 30. og 31. gr.

    Þær breytingar sem hér eru lagðar til eru afleiðing af þeirri breytingu sem felst í öðrum ákvæðum frumvarpsins að barn þurfi ekki alltaf að eiga bæði föður og móður heldur geti átt tvo foreldra af sama kyni.

Um 32. gr.

    Hér er lögð til orðalagsbreyting á 1. mgr. 2. gr. laga nr. 95/2000, um fæðingar- og foreldraorlof, til þess að undirstrika að það falli undir markmið laganna að gera báðum foreldrum kleift að vera samvistum við nýfætt barn sitt hvort sem foreldrarnir eru gagnkynhneigðir eða samkynhneigðir.

Um 33.–36. gr.

    Greinarnar þarfnast ekki skýringa.


Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lagaákvæðum er varða réttarstöðu samkynhneigðra (sambúð, ættleiðingar, tæknifrjóvgun).

    Með frumvarpinu eru lagðar til ýmsar lagabreytingar með það að markmiði að afnema mismunun sem enn finnst í lögum varðandi réttarstöðu samkynhneigðra.
    Ekki eru forsendur til að meta kostnaðaráhrif frumvarpsins til fjár, en gera má ráð fyrir að þau geti einkum snert útgjöld til heilbrigðismála vegna tæknifrjóvgana, útgjöld vegna fæðingarorlofs, útgjöld almannatrygginga, lífeyrissjóða og félagsþjónustu sveitarfélaga, auk áhrifa á skatttekjur ríkissjóðs samkvæmt lögum um tekjuskatt og eignarskatt og lögum um erfðafjárskatt.