Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 314. máls.
132. löggjafarþing 2005–2006.
Þskj. 559  —  314. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um breyt. á l. um hollustuhætti og mengunarvarnir, nr. 7/1998, með síðari breytingum.

Frá meiri hluta umhverfisnefndar.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Sigrúnu Ágústsdóttur frá umhverfisráðuneyti og Sigurð Óla Kolbeinsson frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga. Nefndinni bárust umsagnir frá Félagi heilbrigðis- og umhverfisfulltrúa, Heilbrigðiseftirliti Austurlands, Heilbrigðiseftirliti Hafnarfjarðar- og Kópavogssvæðis, Heilbrigðiseftirliti Kjósarsvæðis, Heilbrigðiseftirliti Norðurlands eystra, Heilbrigðiseftirliti Norðurlands vestra, Heilbrigðiseftirliti Suðurlands, Heilbrigðiseftirliti Vestfjarða, Læknafélagi Íslands, Neytendastofu, Samtökum atvinnulífsins og Samtökum iðnaðarins, Umhverfisstofnun og Viðskiptaráði Íslands.
    Með frumvarpinu er lagt til að umhverfisráðherra verði heimilt að kveða á um að innra eftirlit skuli sæta úttekt faggilts aðila, að hluta eða í heild. Mikilvægt er að kveða á um að innra eftirlit sæti slíkri úttekt þar sem öryggi fólks er í húfi, sérstaklega barna.
    Samkvæmt upplýsingum Lýðheilsustöðvar verða flest frítímaslys á börnum í aldurshópnum 0–4 ára (þ.e. þegar börn eru með forráðamönnum) á skipulögðum leiksvæðum. Alvarlegir höfuðáverkar eru oft raktir til þess að undirlag er ekki samkvæmt staðli. Á leikskólum verða jafnmörg slys inni og úti á leiksvæði. Í grunnskólum verða langflest slys á börnum á skólalóðinni eða inni í íþróttasal.
    Meiri hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt.

Alþingi, 8. des. 2005.



Guðlaugur Þór Þórðarson,


form., frsm.


Kristinn H. Gunnarsson.


Ásta Möller.



Kjartan Ólafsson.


Sigurrós Þorgrímsdóttir.