Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 367. máls.
132. löggjafarþing 2005–2006.
Þskj. 686  —  367. mál.




Svar



heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra við fyrirspurn Ástu R. Jóhannesdóttur um Framkvæmdasjóð aldraðra.

     1.      Hversu mikið fé hefur runnið til Framkvæmdasjóðs aldraða árlega sl. 10 ár?
    Tekjur Framkvæmdasjóðs aldraðra námu samtals 6.164,0 millj. kr. frá árinu 1995 til ársins 2004. Í meðfylgjandi yfirliti eru tekjur Framkvæmdasjóðs eftir árum (í millj. kr.).

Tekjur 1995 1996 1997 1998 1999 2000 2001 2002 2003 2004 Samtals
Gjöld í Framkvæmdasjóð aldraða 464,3 474,7 469,7 523,8 570,8 561,8 612,7 750,6 846,8 884,6 6.159,9
Vextir og aðrar tekjur 1,3 0,8 0,8 0,3 0,4 0,4 0,1 0,0 0,0 0,0 4,0
Tekjur samtals 465,6 475,5 470,5 524,1 571,2 562,2 612,8 750,6 846,8 884,6 6.164,0

     2.      Hversu háar fjárveitingar fóru á hverju ári til
                  a.      uppbyggingar,
                  b.      rekstrar,
                  c.      annars og þá hvers?
     a.      Greiðslur úr Framkvæmdasjóði aldraðra til uppbyggingar í formi stofnkostnaðar, endurbóta og viðhalds námu samtals 3.605,8 millj. kr. Þar af voru endurbætur og stofnkostnaður 3.229,8 millj. kr. og viðhald 376,0 millj. kr. Greiðslur hvers árs eru birtar í eftirfarandi yfirliti (í millj. kr.).

1995 1996 1997 1998 1999 2000 2001 2002 2003 2004 Samtals
Endurbyggingar- og byggingarkostnaður 551,3 211,5 281,2 162,1 249,9 256,1 305,4 333,6 391,6 487,1 3.229,8
Viðhald fasteigna 0,0 0,0 0,0 0,0 0,0 0,0 0,0 0,0 188,0 188,0 376,0
Gjöld samtals 551,3 211,5 281,2 162,1 249,9 256,1 305,4 333,6 579,6 675,1 3.605,8

     b.      Greiðslur úr Framkvæmdasjóði aldraðra til rekstrar hjúkrunarheimila námu samtals 2.842,0 millj. kr. á árunum 1995–2004. Framlög hvers árs eru í eftirfarandi yfirliti (í millj. kr.).

1995 1996 1997 1998 1999 2000 2001 2002 2003 2004 Samtals
Framlag til rekstrar hjúkrunarheimila 130,0 330,0 218,0 295,0 289,0 300,0 362,5 409,5 276,5 231,5 2.842,0
Gjöld samtals 130,0 330,0 218,0 295,0 289,0 300,0 362,5 409,5 276,5 231,5 2.842,0

     c.      Aðrar greiðslur námu 117,7 millj. kr. á árunum 1995–2004. Hér er um að ræða kostnað við rekstur sjóðsins, starfsemi samstarfsnefndar um málefni aldraðra og framlög sem féllu m.a. undir 5.–6. tölul. 9. gr. laga nr. 125/1999. Stærstu gjaldaliðirnir sem falla undir 5.–6. tölul. 9. gr. laga nr. 125/1999 er rekstur á vistunarmati og frá árinu 1998 hönnun á rafrænum gagnagrunni fyrir RAI-NH (kerfisbundið mat á heilsufari og aðbúnaði einstaklinga sem dveljast á stofnunum) og vistunarmat og rekstur á þessum kerfum. Auk þess hafa verið veittir styrkir til verkefna er tengjast öldrunarmálum.
                  Árið 2001 var byrjað að afskrifa og gjaldfæra í rekstri álögð iðgjöld sem renna til sjóðsins sem talið var að mundu ekki innheimtast hjá skattyfirvöldum. Þótt hér sé ekki um að ræða greiðslur úr sjóðnum er hér gjaldfærður kostnaður sem hefur áhrif á rekstrarstöðu hans. Afskrifuð iðgjöld á rekstrarreikningi námu samtals 55,1 millj. kr. fram til ársins 2004.
                  Aðrar greiðslur hvers árs og kostnaður vegna afskrifta er í eftirfarandi yfirliti (í millj. kr.).

1995 1996 1997 1998 1999 2000 2001 2002 2003 2004 Samtals
Rekstrarsjóður 5,8 6,7 6,3 9,4 14,6 8,4 14,4 19,4 15,8 16,9 117,7
Afskrifuð iðgjöld 0,0 0,0 0,0 0,0 0,0 0,0 4,3 5,9 23,3 21,7 55,1
Gjöld samtals 5,8 6,7 6,3 9,4 14,6 8,4 18,7 25,3 39,1 38,6 172,9

     3.      Hversu háar greiðslur til uppbyggingar komu frá öðrum en ríkisvaldinu, svo sem sveitarfélögum, félagasamtökum o.s.frv., skipt eftir árum?
    Ráðuneytið hefur ekki upplýsingar um endanlegar greiðslur til uppbyggingar sem komu frá öðrum en ríkisvaldinu. Sé hins vegar miðað við greiðsluþátttöku Framkvæmdasjóðs í endurbótum og stofnkostnaði voru greiðslur frá öðrum en ríkisvaldinu samtals um 5.979,0 millj. kr. á árunum 1995–2004, sbr. eftirfarandi yfirlit.

1995 1996 1997 1998 1999 2000 2001 2002 2003 2004 Samtals
Byggingarkostnaður annarra 1.275,0 478,0 491,0 195,0 500,0 469,0 543,0 578,0 656,0 794,0 5.979,0
Byggingarkostnaður samtals 1.275,0 478,0 491,0 195,0 500,0 469,0 543,0 578,0 656,0 794,0 5.979,0

     4.      Hversu margar voru einkaframkvæmdir á þessu sviði á tímabilinu?
    Bygging og rekstur Sóltúns er eina einkaframkvæmdin á þessu sviði á tímabilinu.

     5.      Hefur verið sótt um heimildir til að byggja hjúkrunarheimili án mótframlags? Ef svo er, hversu oft og hafa þær heimildir verið veittar?
    
Fyrir utan byggingu Sóltúns hefur ekki verið formlega sótt um heimildir til að byggja hjúkrunarheimili án mótframlags. Hins vegar ber að benda á að í daggjaldi Sóltúns er greidd leiga fyrir húsnæði hjúkrunarheimilisins.

     6.      Hvaða framkvæmdir og uppbygging á hjúkrunarheimilum eru fyrirhugaðar og vanda hversu margra munu þær leysa? Listi yfir framkvæmdirnar óskast og upplýsingar um hvenær gert er ráð fyrir að þeim verði lokið.

    Fyrirhugaðar framkvæmdir og uppbygging á hjúkrunarheimilum eru bygging hjúkrunarheimilis í Sogamýri í Reykjavík fyrir 110 hjúkrunarvistmenn og bygging hjúkrunarheimilis á Lýsislóðinni í Reykjavík fyrir 90 hjúkrunarvistmenn. Gert er ráð fyrir að bygging hjúkrunarheimilis í Sogamýri verði lokið á árinu 2007 og bygging hjúkrunarheimilis á Lýsislóðinni verði lokið árið 2009. Þá má geta þess að nú er unnið að byggingu 60 hjúkrunarrýma á Akureyri, 12 á Neskaupstað, 23 á Eskifirði og 27 á Selfossi, auk þess sem verið er að fjölga rýmum á Fellsenda í Búðardal. Ekki er í öllum tilvikum um fjölgun rýma að ræða heldur endurnýjun húsnæðis. Þótt ákvarðanir liggi ekki fyrir um frekari framkvæmdir hefur ráðuneytið að undanförnu átt í viðræðum um uppbyggingu stofnanaþjónustu aldraðra við heimamenn í Reykjanesbæ, Kópavogi, Hafnarfirði, á norðanverðum Vestfjörðum og á Suðurlandi. Að lokum má nefna að nýverið veitti Alþingi, að tillögu fjárlaganefndar, 30 millj. kr. til undirbúnings stækkunar á Jaðri í Ólafsfirði.