Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 490. máls.
132. löggjafarþing 2005–2006.
Þskj. 722  —  490. mál.




Fyrirspurn



til viðskiptaráðherra um stöðu bankanna.

Frá Jóhönnu Sigurðardóttur.



     1.      Hvert er álit Fjármálaeftirlitsins á mati greiningarfyrirtækjanna Barclays Capital og Credit Sights að staða viðskiptabankanna þriggja sé veikari en ársskýrslur þeirra gefa til kynna og að hraður vöxtur þeirra geti valdið þeim vandræðum í framtíðinni?
     2.      Er ástæða til að ætla að fámennur hópur tengdra aðila hafi haft áhrif til hækkunar á hlutabréfaverði umfram það sem eðlilegt getur talist og að bankarnir séu þar í lykilhlutverki? Hvaða áhrif getur það haft á fjármálastöðugleikann að útlánaþensla fjármálafyrirtækja sé að mestu fjármögnuð erlendis?
     3.      Er það rétt að bæði Moody's og Fitch reikni inn í lánshæfismat bankanna vilja íslenskra stjórnvalda til að koma þeim til bjargar ef í nauðir rekur?
     4.      Hvert er mat Fjármálaeftirlitsins á þeirri aðvörun greiningarfyrirtækisins Credit Sights að ekki sé hægt að reiða sig um of á getu íslenska ríkisins til að bjarga bönkunum ef í harðbakka slær?
     5.      Hvert er mat samkeppnisyfirvalda og Fjármálaeftirlitsins á því sem fram hefur komið nýlega í skýrslu greiningarfyrirtækisins Barclays Capital að í íslenska bankakerfinu séu óvenjulega náin og óheilbrigð eignatengsl og að slík eignatengsl og óbeinar fjárfestingar í eigin fyrirtækjum geti haft óæskileg áhrif á hagkerfið í heild sinni? Er ástæða til að bregðast við þeirri þróun?
     6.      Eru einhver þau einkenni á fjármálamarkaðnum nú og í næstu framtíð að ástæða sé til að upp geti komið alvarleg skakkaföll í fjármálakerfinu og hvernig er staða innstæðueigenda tryggð við þær aðstæður? Er ástæða til að bregðast við til að tryggja betur hag innstæðueigenda og þá hvernig?


Skriflegt svar óskast.