Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 222. máls.
132. löggjafarþing 2005–2006.
Þskj. 761  —  222. mál.




Nefndarálit




um frv. til l. um breyt. á höfundalögum, nr. 73/1972, með síðari breytingum.

Frá menntamálanefnd.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Jón Vilberg Guðjónsson frá menntamálaráðuneytinu, Knút Bruun frá Myndstefi, Gunnar Guðmundsson frá Sambandi flytjenda- og hljómplötuframleiðenda, Ragnheiði Tryggvadóttur frá Rithöfundasambandi Íslands, Jón Yngva Jóhannsson frá Hagþenki, Ólöfu Benediktsdóttur og Sigurð Vigfússon frá Upplýsingu, félagi bókasafns- og upplýsingafræða, Helgu Ólafsdóttur frá Blindrabókasafni Íslands, Halldór Þ. Birgisson frá Félagi íslenskra bókaútgefenda og Fjölís, Guðrúnu Björk Bjarnadóttur frá Samtökum atvinnulífsins og Hrein Beck frá Netfrelsi.
    Umsagnir bárust nefndinni frá Upplýsingu, félagi bókasafns- og upplýsingafræða, Höfundaréttarfélagi Íslands, Viðskiptaráði Íslands, Blindrabókasafni Íslands, Félagi íslenskra bókaútgefenda, Fjölís, Neytendasamtökunum, Sambandi íslenskra myndlistarmanna, STEF, sambandi tónskálda og eigenda flutningsréttar, Myndstefi, Sambandi flytjenda og hljómplötuframleiðenda og Samtökum atvinnulífsins.
    Með frumvarpinu eru leidd í lög ákvæði tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins 2001/ 29/EB frá 22. maí 2001 um samræmingu tiltekinna þátta höfundaréttar og skyldra réttinda í upplýsingasamfélaginu. Efni tilskipunarinnar tekur sérstaklega á þeim vandamálum sem hin stafræna tækni hefur í för með sér fyrir eigendur höfundaréttar og skyldra réttinda. Í frumvarpinu eru eingöngu tekin upp þau atriði tilskipunarinnar sem skylt er að lögleiða samkvæmt henni. Þar að auki leggur nefndin fram breytingartillögu sem felur í sér að lögfest verði undanþága frá einkarétti höfunda með þarfir fatlaðra í huga.
    Frumvarpið er fyrsti áfangi í heildarendurskoðun höfundalaga sem er orðin brýn vegna lagaþróunar á sviði höfundaréttar og telur nefndin mikilvægt að heildarendurskoðun höfundalaga fari fram sem allra fyrst.
    Þónokkrar umræður urðu í nefndinni um þær athugasemdir sem henni bárust og getur nefndin tekið undir margar þeirra. Í athugasemdum sem nefndinni bárust frá Upplýsingu, félagi bókasafns- og upplýsingafræða, varðandi 2. gr. frumvarpsins var m.a. lýst áhyggjum af heimild sjónskertra, lestrarhamlaðra o.fl. til eftirgerðar. Nefndin hefur ákveðið að bregðast við þeim ábendingum og athugasemdum sem bárust frá Blindrabókasafni Íslands og er því lögð til breyting sem varðar 19. gr. laganna. Enn fremur er í umsögn Upplýsingar bent á að æskilegt væri að bóka- og skjalasöfn hefðu möguleika á að miðla safnefni til notenda innan veggja safnsins, t.d. stafrænt af netþjóni. Nefndin telur að meinbugir séu á núgildandi löggjöf hvað þetta atriði varðar en telur að slík breyting þarfnist nokkurs undirbúnings og samstarfs við hagsmunaaðila. Því vill nefndin leggja áherslu á að taka þurfi tillit til þessara athugasemda við heildarendurskoðun á höfundalögunum.
    Nefndin mælir með samþykkt frumvarpsins með breytingum sem gerð er grein fyrir í sérstöku þingskjali. Helstu breytingar eru eftirfarandi:
     1.      Í fyrsta lagi komi orðið „skal“ í stað orðsins „má“ í fyrri efnismálslið 3. gr. frumvarpsins. Með því verði ráðuneytinu gert skylt en ekki heimilt að setja reglugerð.
     2.      Í öðru lagi leggur nefndin til að við frumvarpið bætist ný grein sem felur í sér breytingu á 19. gr. laganna. Athugasemdir hafa borist við 2. gr. frumvarpsins er fjallar um heimild einstaklinga til eftirgerðar. Skv. b-lið 3. mgr. 5. gr. tilskipunar 2001/29/EB geta aðildarríkin kveðið á um undanþágur eða takmarkanir á einkarétti höfunda til eftirgerðar og miðlunar verka sinna til almennings, auk réttar til að gera annað efni aðgengilegt, ef um er að ræða notkun í þágu fólks sem er fatlað og notkunin er í beinu sambandi við fötlunina og ekki viðskiptalegs eðlis og að svo miklu leyti sem nauðsynlegt er vegna þessarar tilteknu fötlunar. Nefndin leggur til að heimild til undanþágu verði nýtt til að setja í höfundalög tvenns konar ákvæði um eintakagerð o.fl. í þágu blindra, sjónskertra, heyrnarlausra og lestrarhamlaðra, þ.e. annars vegar eftirgerð og dreifing í þágu blindra, sjónskertra og heyrnarlausra og hins vegar gerð hljóðbóka í þágu blindra, sjónskertra og lestrarhamlaðra.
                  Í 1. efnismgr. greinarinnar er ákvæði sem felur í sér almenna reglu sem heimilar eftirgerð og dreifingu verka sem út hafa verið gefin, þegar eftirgerðin og eintökin sem þannig er dreift eru sérstaklega ætluð blindum, sjónskertum, heyrnarlausum eða lestrarhömluðum. Ákvæðið er ekki bundið við ákveðna tækni og heimilar því bæði hliðræna og stafræna eintakagerð. Heimildin felur í sér afnotaheimild án endurgjalds, þ.e. höfundar eiga hvorki rétt til endurgjalds né geta þeir lagt bann við notkun verka sinna í þessum tilgangi. Framangreind heimild á þó ekki við ef notkun er í fjárhagslegum tilgangi og er það í samræmi við b-lið 3. mgr. 5. gr. tilskipunarinnar.
                  Með upptalningunni blindir, sjónskertir, heyrnarlausir og lestrarhamlaðir er átt við alla þá sem vegna líkamlegs eða andlegs ástands eru ófærir um að njóta viðeigandi verka með venjulegum hætti, þ.m.t. lesblindir og stafblindir.
                  Sú notkun sem heimiluð er með ákvæðinu er eftirgerð og dreifing eintaka. Í því felst jafnframt heimild til gerðar eintaka sem hægt er að sýna og dreifa til annarra, þ.m.t. er m.a. útlán eintaka, og framleiðsla og dreifing bókmenntaverka með talgervlum og blindraletri. Framangreind eintök geta verið í stafrænu formi og heimildin tekur til dreifingar þeirra með rafrænum hætti um netið.
                  Ákvæði 2. efnismgr. greinarinnar felur í sér undantekningu frá 1. efnismgr. að því er varðar hljóðupptökur. Hefur það þá þýðingu að hljómdiskar og hljóðbönd sem hafa að geyma tónverk falla utan þeirra verka sem sæta takmörkun á einkarétti höfunda eftir 1. efnismgr. Aðilum sem taldir eru upp í 1. efnismgr. er þannig ekki heimil eftirgerð eða sambærileg hagnýting á hljóðupptökum með tónverkum. Þrátt fyrir þetta fellur hljóðupptaka tónverks sem er hluti margmiðlunarverks undir ákvæði 1. efnismgr. Hljóðupptökur á bókmenntaverkum falla undir 4. efnismgr. þessarar greinar. Af 2. mgr. greinarinnar leiðir að útlán og útleiga sambærilegra eftirgerða og um getur í 1. efnismgr. til almennings fellur utan þess ákvæðis.
                  Ákvæði 3. efnismgr. veitir heimild til þess að gera sérstök notkunareintök og öryggisafrit af tilteknum eftirgerðum sem gerðar eru og dreift á grundvelli 1. efnismgr. Er þetta sambærileg heimild og er í 1. mgr. 11. gr. a í gildandi lögum til gerðar öryggisafrita af tölvuforritum og öðrum verkum á stafrænu formi. Heimild þessi á aðeins við þegar notandinn hefur öðlast eignarrétt að eintaki verks sem gert hefur verið á grundvelli 1. efnismgr. með eignayfirfærslu, t.d. með kaupum eða gjöf. Heimild notenda til að nota sérstök notkunareintök og öryggisafrit er tímabundin og fellur hún niður eftir að yfirfært eintak skv. 1. efnismgr. hefur verið birt almenningi. Þrátt fyrir þetta er opinberum stofnunum eða öðrum félagslegum stofnunum sem starfa í almannaþágu heimilt að varðveita notkunareintök sín og öryggisafrit, þrátt fyrir að aðaleintakið skv. 1. efnismgr. sé sett í útlán eða leigu með samþykki rétthafa. Rökin fyrir þessum mun byggjast á því að framangreindar stofnanir sæti ríkara eftirliti hvað varðar meðferð notkunareintaka og öryggisafrita.
                  Ákvæði 4. efnismgr. veitir heimild til hljóðbókagerðar eftir útgefnum bókmenntaverkum fyrir blinda, sjónskerta, lestrarhamlaða og aðra sem eru ófærir um að lesa venjulegar bækur. Sá fyrirvari gildir að framangreind eintakagerð má ekki vera í fjárhagslegum tilgangi og á þann sem nýtir sér þessa heimild fellur skylda til að greiða höfundum sanngjarnt gjald. Ákvæðið felur enn fremur í sér heildarleyfi (samningskvöð), því ekki er gert ráð fyrir því að leitað sé heimildar höfunda, né getur höfundur bannað þvílíka notkun á útgefnu verki sínu. Hljóðbækur þær sem framleiddar eru á grundvelli ákvæðisins má aðeins lána út til þeirra sem taldir eru upp í ákvæðinu. Í ákvæðinu felst ekki heldur réttur til að framleiða hljóðbækur í fjárhagslegum tilgangi með sölu til almennings í huga en til þess þarf sérstakt leyfi höfunda. Ekki er í ákvæðinu gert ráð fyrir miðlun framangreindra hljóðbóka með öðrum hætti en útláni eintaka, þannig að rafræn miðlun, t.d. um netið, er óheimil án samþykkis höfunda.
     3.      Í þriðja lagi er lögð til breyting á 8. gr. frumvarpsins þar sem tilvísun til 24. gr. laganna er breytt í samræmi við breytingar á greininni samkvæmt frumvarpinu.
     4.      Í fjórða lagi leggur nefndin til breytingu á fjölda nefndarmanna í höfundaréttarnefnd. Samkvæmt gildandi ákvæði 58. gr. laganna skal nefnd fimm sérfróðra manna á sviði höfundaréttar vera menntamálaráðherra til ráðuneytis um höfundaréttarmál og skal ráðherra við skipun nefndarinnar hafa samráð við helstu höfundaréttarsamtök landsins. Hefð er fyrir því að nefndarmenn í höfundaréttarnefnd hafi sérþekkingu á þeim sviðum sem helstu höfundaréttarsamtök landsins starfa á. Þannig hafa setið í nefndinni sérfræðingar í höfundaréttarmálum rithöfunda og útgefenda, tónskálda og textahöfunda, myndlistarmanna, listflytjenda og framleiðenda, auk kvikmyndaleikstjóra og -framleiðenda. Á undanförnum árum hafa komið fram ný höfundaréttarsamtök á sviði hugbúnaðarframleiðslu og upplýsingatækni, kvikmynda, tölvuleikja og tónlistar. Má í þessu sambandi nefna Samtök upplýsingatæknifyrirtækja, Samtón, sameiginlegan vettvang tónlistarrétthafa, og SMÁÍS, rétthafasamtök fyrir myndbönd og tölvuleiki. Ástæða þykir til að bregðast við þessu með fjölgun nefndarmanna í höfundaréttarnefnd um tvo þannig að kostur gefist á því að skipa sérfróða aðila á síðastnefndu sviðunum í höfundaréttarnefnd. Nefndin leggur einnig áherslu á að við heildarendurskoðun verði komið á fót höfundaréttarráði sem gert er ráð fyrir í 58. gr. höfundalaga og þar verði vettvangur fyrir sjónarmið neytenda, einkum með tilliti til hagsmuna þeirra.
    Björgvin G. Sigurðsson, Einar Már Sigurðarson og Hjálmar Árnason voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 3. febr. 2006.



Sigurður Kári Kristjánsson,


form., frsm.


Sigurrós Þorgrímsdóttir.


Dagný Jónsdóttir.



Kjartan Ólafsson.


Kolbrún Halldórsdóttir.


Mörður Árnason.