Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 574. máls.
132. löggjafarþing 2005–2006.
Þskj. 832  —  574. mál.




Skýrsla



Íslandsdeildar Norðurlandaráðs um norrænt samstarf árið 2005.

1. Inngangur.
    Norðurlandaráð var stofnað árið 1952 og er samstarfsvettvangur þjóðþinga á Norðurlöndum. Sjálfstjórnarsvæðin Álandseyjar, Færeyjar og Grænland taka jafnframt þátt í samstarfinu. Alþingi hefur átt aðild að ráðinu frá stofnun þess. Norðurlandaráð kemur saman til þingfundar einu sinni á ári og ræðir og ályktar um norræn málefni. Auk þess kemur Norðurlandaráð saman til nefndarfunda fjórum sinnum á ári. Á vegum Norðurlandaráðs er unnið að margvíslegum norrænum verkefnum sem þingmenn, nefndir eða flokkahópar ráðsins hafa átt frumkvæði að. Norðurlandaráð hefur tillögu- og umsagnarrétt um fjármagn sem er veitt til norrænnar samvinnu árlega. Norræna ráðherranefndin tekur verulegt tillit til þeirra ábendinga.
    Í Norðurlandaráði sitja 87 þingmenn, þar af sjö íslenskir alþingismenn. Hvert hinna landanna fjögurra (ásamt sjálfstjórnarsvæðunum) á 20 þingmenn í Norðurlandaráði. Hvert land skipar forseta Norðurlandaráðs á fimm ára fresti. Á árlegum þingfundi Norðurlandaráðs, sem stendur í þrjá til fjóra daga í senn um mánaðarmótin október/nóvember, er fjallað um framkomnar tillögur og sendir þingið frá sér tilmæli til ríkisstjórna landanna eða Norrænu ráðherranefndarinnar. Forsætisráðherrar og utanríkisráðherrar Norðurlanda gefa þinginu skýrslu og samstarfsráðherrar svara fyrirspurnum í sérstökum fyrirspurnatíma. Fjárlög komandi starfsárs eru jafnframt ákveðin á þinginu og skipað í nefndir og trúnaðarstöður. Í Norðurlandaráði starfa fjórir flokkahópar: jafnaðarmenn, miðjumenn, hægrimenn og vinstrisósíalistar og grænir. Flokkahóparnir móta sameiginlega afstöðu til einstakra mála og velja þingmenn í nefndir. Að öðru leyti byggist starf Norðurlandaráðs á landsdeildum aðildarríkjanna.
    Málefnastarf Norðurlandaráðs fer að mestu fram í fimm málefnanefndum auk forsætisnefndar. Á milli þinga stýrir forsætisnefnd starfi ráðsins, vísar tillögum til nefnda eða afgreiðir þær. Forsætisnefnd fer jafnframt með utanríkis- og öryggismál svo og samskipti Norðurlandaráðs við aðrar alþjóðastofnanir. Þá fer eftirlitsnefnd yfir ársreikninga ráðsins og stofnana sem starfa innan Norðurlandasamvinnunnar. Loks kemur kjörnefnd saman á þingum til að gera tillögu að skipan í nefndir og trúnaðarstöður á vegum Norðurlandaráðs.

2. Íslandsdeild Norðurlandaráðs.
2.1. Skipan Íslandsdeildar Norðurlandaráðs.
    Í upphafi starfsársins 2005 skipuðu Íslandsdeildina þau Jónína Bjartmarz formaður, þingflokki Framsóknarflokks, Drífa Hjartardóttir varaformaður, þingflokki Sjálfstæðisflokks, Rannveig Guðmundsdóttir, þingflokki Samfylkingarinnar, Ásta R. Jóhannesdóttir, þingflokki Samfylkingarinnar, Arnbjörg Sveinsdóttir, þingflokki Sjálfstæðisflokks, Steingrímur J. Sigfússon, þingflokki Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs og Sigurður Kári Kristjánsson þingflokki Sjálfstæðisflokks. Varamenn voru Kjartan Ólafsson, þingflokki Sjálfstæðisflokks, Mörður Árnason, þingflokki Samfylkingarinnar, Siv Friðleifsdóttir, þingflokki Framsóknarflokks, Bjarni Benediktsson, þingflokki Sjálfstæðisflokks, Jón Gunnarsson, þingflokki Samfylkingarinnar, Kolbrún Halldórsdóttir, þingflokki Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs og Pétur H. Blöndal, þingflokki Sjálfstæðisflokks.
    Ný Íslandsdeild var kosin 3. október við upphaf 132. þings. Ein breyting varð á skipan aðalmanna þar sem Kjartan Ólafsson tók við af Sigurði Kára Kristjánssyni. Þær breytingar urðu á varamönnum að Ásta Möller tók við af Kjartani Ólafssyni, Katrín Júlíusdóttir tók við af Jóni Gunnarssyni og Sigurrós Þorgrímsdóttir tók sæti Péturs H. Blöndals. Á fundi Íslandsdeildar 5. október var Jónína Bjartmarz kjörin formaður deildarinnar og Drífa Hjartardóttir varaformaður.
    Stígur Stefánsson alþjóðaritari gegndi starfi ritara Íslandsdeildar Norðurlandaráðs á starfsárinu 2005.

2.2. Nefndaskipan Íslandsdeildar Norðurlandaráðs.
    Á 56. þingi Norðurlandaráðs í Stokkhólmi 1.–3. nóvember 2004 var kosið í embætti og nefndir fyrir starfsárið 2005. Rannveig Guðmundsdóttir var kjörin forseti Norðurlandaráðs og Jónína Bjartmarz varaforseti. Nefndarseta Íslandsdeildar var sem hér segir: Rannveig Guðmundsdóttir og Jónína Bjartmarz áttu sæti í forsætisnefnd. Í efnahags- og viðskiptanefnd sátu Drífa Hjartardóttir sem formaður og Steingrímur J. Sigfússon sem varaformaður. Arnbjörg Sveinsdóttir sat í velferðarnefnd. Í umhverfis- og náttúruauðlindanefnd sat Ásta R. Jóhannesdóttir og Sigurður Kári Kristjánsson átti sæti í borgara- og neytendanefnd. Sigurður Kári sat einnig í eftirlitsnefnd. Þegar Kjartan Ólafsson tók sæti í Íslandsdeildinni í stað Sigurðar Kára Kristjánssonar tók hann jafnframt sæti Sigurðar Kára í borgara- og neytendanefnd og eftirlitsnefnd.
    Auk nefndarsetu sátu meðlimir Íslandsdeildar í vinnuhópum á vegum Norðurlandaráðs, auk þess sem þeir sátu í stjórnum stofnana og ráða tilnefndir af Norðurlandaráði. Rannveig Guðmundsdóttir gegndi stöðu áheyrnarfulltrúa Norðurlandaráðs hjá Þingmannanefnd um norðurskautsmál. Jónína Bjartmarz gegndi formennsku í stjórn Norræna menningarsjóðsins og Steingrímur J. Sigfússon átti sæti í eftirlitsnefnd Norræna fjárfestingarbankans.

2.3. Starfsemi Íslandsdeildar Norðurlandaráðs.
    Íslandsdeild Norðurlandaráðs kom saman til fundar fjórum sinnum á árinu. Að venju var þátttaka í fundum Norðurlandaráðs undirbúin en þar að auki voru fjöldamörg mál á dagskrá svo og gagnkvæm upplýsingaskipti meðlima Íslandsdeildar um stöðu mála í einstökum nefndum og vinnuhópum Norðurlandaráðs. Þá var ítarlega rætt um undirbúning og skipulag 57. þing Norðurlandaráðs sem fram fór í Reykjavík 25.–27. október (sjá 7. kafla). Töluvert var rætt um eftirfylgni við tilmæli Norðurlandaráðs en eftir breytingar á skipulagi ráðsins sem tóku gildi 1. janúar 2002 hefur verið lögð áhersla á nánari tengsl við þing ríkjanna og hlutverk landsdeilda við að fylgja tilmælum eftir heima í héraði. Voru tilmæli Norðurlandaráðs frá starfsárinu 2004 þýdd á íslensku og send fastanefndum Alþingis. Hugmyndin að baki þessari ráðstöfun er sú að fastanefndirnar fái tilmælin til upplýsingar og geti jafnframt fylgt þeim eftir í löggjafarstarfi þegar við á. Þá var á fundum Íslandsdeildar rætt um skipan meðlima Íslandsdeildar í nefndir Norðurlandaráðs og nauðsyn þess að Íslandsdeild fengi fulltrúa í sem flestum af hinum fimm málefnanefndum Norðurlandaráðs.
    Íslandsdeildin hélt einn fund með Sigríði A. Þórðardóttur, samstarfsráðherra Norðurlanda, og fór hann fram í ráðherrabústaðnum við Tjarnargötu 12. október. Fundurinn var haldinn í aðdraganda 57. Norðurlandaráðsþings og var þingið sjálft, dagskrá þess og skipulag helsta umræðuefnið. Rætt var um áherslur í starfi Norðurlandaráðs annars vegar og Norrænu ráðherranefndarinnar hins vegar. Jónína Bjartmarz kynnti áherslumál Norðurlandaráðs fyrir starfsárið 2006 en fjögur þemu hafa verið sett á oddinn:
          áframhaldandi vinna að afnámi landamærahindrana á Norðurlöndum,
          þróun norræns samstarfs með nánari tengingu við þjóðþingin,
          alþjóðastarf sem beinist m.a. að því að brúa bilið á milli ESB/ESS-svæðisins og Rússlands, og
          umhverfis- og atvinnumál á Norðurskautssvæðinu og Vestur-Norðurlöndum.
Hver málefnanefnd Norðurlandaráðs skilgreinir svo forgangsmál sín út frá þessum fjórum þemum. Nokkuð var rætt um skipulagsbreytingar hjá Norrænu ráðherranefndinni þar sem ráðherranefndum var fækkað úr 18 í 11 og þá lýstu meðlimir Íslandsdeildar áhyggjum af hugmyndum um breytingar á sameiginlegri upplýsingadeild Norðurlandaráðs og Norrænu ráðherranefndarinnar.
    Þá hélt Íslandsdeildin fund með upplýsingaskrifstofu Norðurlandaráðs og Norrænu ráðherranefndarinnar. Farið var yfir skipulag fjölmiðlamála á Norðurlandaráðsþinginu í Reykjavík og rætt hvernig vekja mætti athygli fjölmiðla og tryggja umfjöllun um norræn málefni. Kynnti upplýsingaskrifstofa hugmyndir um útgáfuefni, blaðamannafundi og aðrar uppákomur.
    Fréttamannastyrkir Norðurlandaráðs voru veittir á fundi Íslandsdeildar 31. ágúst en samanlagt var styrkupphæðin sem kom í hlut Íslendinga 90 þúsund danskar krónur eða ein milljón íslenskra króna. Alls bárust sjö umsóknir og ákvað Íslandsdeildin að veita fimm umsækjendum styrk. Hugrún B. Hjaltadóttir hlaut styrk að upphæð 350.000 kr., Helgi Bjarnason og Auðunn Arnórsson hlutu 250.000 kr. hvor, Agnes Bragadóttir hlaut 100.000 kr. og Brynja Dögg Friðriksdóttir 50.000 kr.
    Norðurlandaráð hefur ár hvert boðið hópi þingmanna frá Eystrasaltsríkjunum og Rússlandi í námsferð til norrænnar höfuðborgar til að kynna sér lýðræðislega og gagnsæja stjórnarhætti. Eftir að Eystrasaltsríkin gengu í ESB verða einungis rússneskir þingmenn í þessum námsferðum og tók sú breyting gildi árið 2005. Þá var námsheimsókn skipulögð til Íslands í fyrsta skipti og var Íslandsdeildin gestgjafi 19 rússneskra þingmanna dagana 23.–24. maí. Rússnesku þingmennirnir kynntu sér starfsemi Alþingis, áttu fundi með Íslandsdeild Norðurlandaráðs, fulltrúum þingflokka og Valgerði Sverrisdóttur, samstarfsráðherra Norðurlanda. Þá heimsóttu þingmennirnir félagsmálaráðuneytið, landbúnaðarráðuneytið, heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið og Samband íslenskra sveitarfélaga.
         
2.4. Forseti Norðurlandaráðs.
    Rannveig Guðmundsdóttir gegndi starfi forseta Norðurlandaráðs á árinu og Jónína Bjartmarz starfi varaforseta. Hlutverk forseta er einkum að leiða og samhæfa störf forsætisnefndar, stjórna fundum nefndarinnar og ekki síst að koma fram fyrir hönd Norðurlandaráðs gagnvart öðrum alþjóðastofnunum. Þá hefur forseti mikilvægu hlutverki að gegna varðandi stefnumótun í málefnum skrifstofu Norðurlandaráðs og vinnur náið með framkvæmdastjóra skrifstofunnar. Forseti sótti fjölmarga fundi og ráðstefnur erlendis fyrir hönd Norðurlandaráðs en allur kostnaður við störf forsetans er greiddur af skrifstofu ráðsins. Er hér greint frá þeim helstu en að öðru leyti er vísað til kafla 3.1 um starfsemi forsætisnefndar.
    Fyrsta opinbera verkefni forseta var að opna ráðstefnu Norræna menningarsjóðsins um norrænan málskilning sem fram fór á ráðstefnusetrinu Schæffergården skammt fyrir utan Kaupmannahöfn 12.–13. janúar. Þá var forseti heiðursgestur og aðalræðumaður við opnun norrænnar óperuhátíðar í Kristjánssundi í Noregi 3. febrúar.
    Forseti tók þátt í fundi þings Samveldis sjálfstæðra ríkja sem fram fór í Pétursborg 15.–16. apríl. Þingið er samráðsvettvangur þingmanna frá ríkjum Sovétríkjanna fyrrverandi. Þingið var helgað því að 60 ár eru liðin frá lokum seinni heimsstyrjaldar og heiðraði framlag og fórnir þjóða austantjaldslandanna fyrrverandi í baráttunni gegn nasismanum. Forseti Norðurlandaráðs flutti ávarp við þingsetningu og sagði m.a. að það væri sárt að sjá nýjustu einræðistilburði í Evrópu í ljósi þeirrar reynslu sem menn hafa af einræðisstjórn og skorti á lýðræði. Það væri verkefni stjórnmálamanna að vera öryggisventill lýðræðisins og beina kastljósinu að öllu sem ógnar lýðræðinu. Í Pétursborg átti forseti fund með Sergei Mironov, forseta Sambandsráðsins (efri deildar rússneska þingsins) og forseta þings Samveldis sjálfstæðra ríkja, og var rætt um leiðir til að auka samstarf rússneska þingsins og Norðurlandaráðs.
    Forseti sótti alþjóðlegan fund um efnahagsmál (International Economic Forum) í Pétursborg 12.–16. júní. Í tengslum við hann fór fram fundur Þingmannanefndar um norðurskautsmál sem forseti sótti einnig. Fyrrnefndi fundurinn var helgaður efnahagsþróun á norðurslóðum en Rússar fóru með formennsku í Norðurskautsráðinu. Í tengslum við fundinn átti forseti fund með fulltrúum rússnesku Dúmunnar, þeim Artur Chilingarov, varaforseta og Valentin Luntsevich þingmanni.
    Í byrjun júlí tók forseti þátt í norræna deginum á heimssýningunni EXPO 2005 í Aichi í Japan en Norðurlöndin stóðu sameiginlega að þátttöku í sýningunni og reistu sameiginlegan sýningarskála. Meginþemu á norræna deginum voru norræn og japönsk reynsla af jafnrétti og sérstök málstofa var haldin um það málefni. Í ávarpi sínu lagði forseti sérstaka áherslu á hvernig norræna velferðarkerfið hefur gert fólki kleift að sameina fjölskyldulíf og starfsframa, og hvernig það er grunnur þess að Norðurlönd skara fram úr í jafnréttismálum á heimsvísu.
    Í ágúst sótti forseti ársfund Vestnorræna ráðsins sem fram fór á Ísafirði. Í ávarpi forseta var gerð grein fyrir því hvernig Norðurlandaráð hefur beint sjónum sínum að vestnorræna svæðinu á íslenska forsetaárinu og nefndi forseti sérstaklega starf efnahags- og viðskiptanefndar ráðsins. Nefndin tók vestnorræn samgöngu- og byggðamál til sérstakrar umfjöllunar á starfsárinu (sjá kafla 3.3).
    Forseti fór fyrir sendinefnd Norðurlandaráðs á 14. Eystrasaltsþinginu í Vilníus í lok ágúst þar sem meginþemu voru þingmannasamvinna á Eystrasaltssvæðinu og hvernig mætti stuðla að stöðugleika og tryggja lýðræði í sessi. Þá ávarpaði forseti fund jafnréttisnefndar Evrópuráðsþingsins í Reykjavík um miðjan september. Í byrjun október kynnti forseti Sjón, handhafa bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs, fyrir dönsku fjölmiðlafólki á blaðamannafundi sem haldinn var í salarkynnum Norðurlandaráðs í Kaupmannahöfn. Fundurinn var haldinn til að kynna danska útgáfu verðlaunabókarinnar Skugga-Baldurs (sjá 4. kafla). Dagana 6.–8. október hélt forseti til Pétursborgar og sótti alþjóðlegu ráðstefnuna Konur og lýðræði. Forseti flutti lokaræðu ráðstefnunnar og ræddi þar m.a. aðgerðir gegn mansali barna og kvenna, og fæðingarorlofslög sem tæki í jafnréttisbaráttu. Í nóvember sótti forseti ársfund Svartahafsþingsins í Tirana og hélt erindi um norrænt samstarf og skipulag þess. Jafnframt átti forseti tvíhliða fund með Jozefina Topalli, forseta albanska þingsins og Svartahafsþingsins. Var einkum rætt um spillingu í Albaníu og baráttu gegn glæpastarfsemi og mansali. Að loknu Svartahafsþinginu fór forseti fyrir sendinefnd forsætisnefndar Norðurlandaráðs á Eystrasaltsþinginu sem haldið var í Tallinn 24.–26. nóvember.
    
3. Starfsemi nefnda Norðurlandaráðs.
3.1. Forsætisnefnd.
    Af hálfu Íslandsdeildar sátu Rannveig Guðmundsdóttir og Jónína Bjartmarz í forsætisnefnd. Rannveig stýrði starfi og fundum nefndarinnar sem forseti Norðurlandaráðs.
    Forsætisnefnd er skipuð forseta, og tólf fulltrúum sem kosnir eru af þingi Norðurlandaráðs. Allar landsdeildir á Norðurlöndunum og allir flokkahópar skulu eiga fulltrúa í forsætisnefnd. Forsætisnefnd annast víðtæk pólitísk og stjórnunarleg málefni, og hefur yfirumsjón með öllum málum í sambandi við þing Norðurlandaráðs. Forsætisnefnd fjallar um norrænu fjárlögin en sérstakur vinnuhópur á vegum nefndarinnar tók þá fjárlagavinnu sérstaklega að sér árið 2005, líkt og áður hafði verið gert. Eftir breytingar á nefndakerfi Norðurlandaráðs sem tóku gildi árið 2002 er aukin áhersla lögð á utanríkis- og öryggismál í starfi forsætisnefndar, þar á meðal friðargæslu og málefni hinnar norðlægu víddar ESB. Þá sér forsætisnefnd um tengsl við svæðisbundnar og alþjóðlegar stofnanir og á í samstarfi við ESB/EES, ÖSE, Sameinuðu þjóðirnar og fleiri stofnanir. Forsætisnefnd fjallar um þær tillögur sem til hennar er beint og vísar öðrum tillögum sem lagðar eru fyrir ráðið til viðeigandi málefnanefnda. Forsætisnefnd fer með æðsta vald Norðurlandaráðs á milli þinga og hefur vald til þess að samþykkja tillögur fyrir hönd þingsins í sérstökum tilvikum og taka til afgreiðslu ákveðin málefni sem ekki þykir fært að bíði næsta þings.
    Forsætisnefnd hélt sjö fundi á árinu en auk þess fóru fram sameiginlegir fundir forsætisnefndar og ýmissa aðila, m.a. hefðbundnir fundir nefndarinnar með norrænu forsætisráðherrunum og utanríkisráðherrunum á þingi Norðurlandaráðs.
    Venja er að forsætisnefnd haldi marsfund sinn í því landi sem fer með embætti forseta. Forsætisnefnd fundaði því hér á landi 7.–8. mars í boði Íslandsdeildar. Fundurinn fór fram í fundarsölum nefndasviðs Alþingis en auk þess gekkst forsætisnefnd fyrir málstofu um jafnréttismál í Norræna húsinu á alþjóðlegum baráttudegi kvenna 8. mars. Málstofan var haldin að frumkvæði íslensku fulltrúanna og á henni var fjallað um þrjú þemu frá norrænum sjónarhóli: Konur og atvinnulíf, konur og stjórnmálin, og karla og jafnréttisbaráttuna. Jónína Bjartmarz stjórnaði málstofunni en frummælendur voru Rannveig Guðmundsdóttir, Valgerður Sverrisdóttir, samstarfsráðherra Norðurlanda, Lilja Mósesdóttir, verkefnastjóri norrænnar úttektar á kynbundnum launamun, Kristín Ástgeirsdóttir, fyrrverandi formaður lýðræðisnefndar Norrænu ráðherranefndarinnar, Lenita Freidenvall frá Stokkhólmsháskóla, Knut Oftung frá Norrænu rannsóknarstofnuninni í kvenna- og kynjafræðum og Gísli Hrafn Atlason mannfræðingur.
    Af helstu málum sem forsætisnefnd fjallaði um, fyrir utan hefðbundin störf, má nefna viðræður við forseta norrænu þjóðþinganna um stöðu og framtíð norræns samstarfs sem hófust í maí árið 2004. Jørgen Kosmo, forseti Stórþingsins, var talsmaður þingforsetanna í þessum viðræðum þar sem m.a. var rætt um að efla tenginguna milli starfsins í Norðurlandaráði og á þjóðþingunum, leiðir til að tryggja skilvirkni í starfi ráðsins auk þess sem hlutverk ráðsins í þingmannasamstarfi í Norður-Evrópu var skoðað. Viðræðunum lauk á fundi Kosmos og forsætisnefndar Norðurlandaráðs í Bodø 29. júní. Þar var m.a. ákveðið að til þess að efla tengslin við þingin mundi Norðurlandaráð bjóða forsetum þjóðþinganna til árlegra viðræðna um forgangsröðun í starfi ráðsins. Fulltrúum þingnefnda þjóðþinganna verður jafnframt boðið á nefndarfundi á vegum Norðurlandaráðs þegar tilefni þykir til. Auk þess verður leitast við að tryggja að nefndarseta þingmanna í Norðurlandaráði svari til nefndarsetu þeirra í þjóðþingunum. Fjárhagsáætlun Norðurlandaráðs verður kynnt og rædd við forseta þjóðþinganna en um það sjá formenn einstakra landsdeilda. Norðurlandaráð á að geta gegnt samhæfingarhlutverki á milli þeirra mörgu stofnana þar sem þingmannasamstarf fer fram í Norður-Evrópu þegar það á við til að koma í veg fyrir óskilvirkni og tvíverknað. Norðurlandaráð verður áfram þingræðisleg vídd í norræna ráðherrasamstarfinu, þróar samstarfið við Eystrasaltsráðið og eykur tengsl við Rússland.
    Flóðin í Suðaustur-Asíu í lok ársins 2004 voru til umræðu á fundi forsætisnefndar í janúar. Nefndin taldi að reynslan af náttúruhamförunum sýndi að hægt væri, með betra skipulagi, að bæta norræna samvinnu um neyðarhjálp þegar hamfarir verða og hættuástand skapast. Það mundi gagnast Norðurlandabúum hvar sem er í heiminum og jafnframt gera aðgerðir á hamfarasvæðum skilvirkari. Í yfirlýsingu forsætisnefndar kom fram að það ætti að vera hægt að nota NORDCAPS-kerfið svokallaða (norræna friðargæsluliðið) sem fyrirmynd að norrænni verkskiptingu og samræmdri aðstoð við hamfarir og hættuástand. Á árinu starfaði sérstakur vinnuhópur forsætisnefndar um samfélagsöryggi á breiðum grunni og átti Jónína Bjartmarz sæti í hópnum.
    Á árinu vann sameiginlegur vinnuhópur forsætisnefndar Norðurlandaráðs og forsætisnefndar Eystrasaltsþingsins að skýrslu um framtíð og skipulag samstarfs þessara samtaka í ljósi breyttrar pólitískrar stöðu við Eystrasaltið eftir stækkun ESB og NATO til austurs. Lokaskýrsla vinnuhópsins var lögð fyrir sameiginlegan fund Norðurlandaráðs og Eystrasaltsþingsins (sjá 6. kafla). Í skýrslunni er m.a. kveðið á um að löndin eigi ýmsa sameiginlega hagsmuni innan ESB/EES-samstarfsins og að þau geti nýtt samtakamátt sinn til að halda þeim á lofti. Sérstök áhersla er lögð á samstarfið við hina nýju granna ESB til austurs. Skipulag framtíðarstarfsins verður sveigjanlegra en áður, málefnanefndir samtakanna tveggja munu eiga beint samstarf eftir því sem tilefni gefst til, sameiginlegum vinnuhópum verður komið á og árlegir samráðsfundir forsætisnefnda og nefndarformanna leysa stóru sameiginlegu fundina af hólmi.
    Forsætisnefnd tók málefni sem varða stöðu sjálfsstjórnarsvæðanna í norrænu samstarfi til sérstakrar umræðu á árinu. Rót þess var ósk Færeyinga um fulla aðild að ráðinu sem sett var fram árið 2003 og ný umræða um þau mál í kjölfar heimsóknar Anders Fogh Rasmussen, forsætisráðherra Danmerkur, til Færeyja í ágúst sl. Forsætisnefnd tók málefni sjálfsstjórnarsvæðanna upp á árlegum fundi með forsætisráðherrunum á þingi Norðurlandaráðs. Forsætisráðherranir fólu norrænu samstarfsráðherrunum að gera úttekt á því hvernig efla megi hlut sjálfsstjórnarsvæðanna í norrænu samstarfi.

3.2. Menningar- og menntamálanefnd.
    Menningar- og menntamálanefnd annast málefni sem varða menningu og listir á Norðurlöndum og á alþjóðavísu, fjölmenningarleg Norðurlönd, kvikmyndir og fjölmiðla, tungumál, íþróttir, óháð félagasamtök, menningu barna og unglinga, grunnmenntun, framhaldsmenntun, fullorðinsfræðslu, rannsóknir, menntun vísindamanna og fræðimannaskipti. Enginn íslenskur fulltrúi sat í nefndinni á starfsárinu 2005.
    Menningar- og menntamálanefnd vann tillögu um stuðning til eflingar tengslaneti frjálsra félagasamtaka á Norðurlöndum og í Eystrasaltsríkjunum. Þá voru norðurskautsrannsóknir á borði nefndarinnar og var tillaga unnin um greiningu á þekkingarþörf og áframhaldandi norrænum rannsóknum á sviði loftslags- og umhverfisbreytinga á norðurskautssvæðinu. Málefni sem varða fjárhættuspil, happadrætti og spilafíkn voru einnig til umfjöllunar. Þá var tillaga Norrænu ráðherranefndarinnar um nýtt skipulag samstarfs á sviði menningarmála tekin fyrir í nefndinni.
    
3.3.     Efnahags- og viðskiptanefnd.
    Fulltrúar Íslandsdeildar í efnahags- og viðskiptanefnd voru Drífa Hjartardóttir og Steingrímur J. Sigfússon sem gegndu stöðu formanns og varaformanns nefndarinnar. Efnahags- og viðskiptanefnd annast málefni sem varða efnahags- og framleiðsluskilyrði, atvinnulíf, innri markað Norðurlanda, frjálsa fólksflutninga, afnám landamærahindrana, viðskipti, byggðastefnu, atvinnumál og vinnumarkað, vinnuvernd, innra skipulag, samgöngur og upplýsingatækni.
    Á starfsárinu beindi nefndin sjónum að afnámi landamærahindrana í atvinnulífi Norðurlanda og fjallaði um málefni sem varða opinn hugbúnað og opna hugbúnaðarstaðla, vinnumarkaðssamstarf Norðurlanda og Eystrasaltsríkjanna, útvistun (e. outsourcing) og vestnorræna samgöngu- og byggðastefnu. Þá vann vinnuhópur, sem Steingrímur J. Sigfússon átti sæti í, tillögu um tilhögun evrópsks hugbúnaðareinkaleyfis.
    Í maí gekkst nefndin fyrir ráðstefnu um útvistun og innvistun (e. outsourcing/insourcing) í Kaupmannahöfn í samvinnu við Norrænu ráðherranefndina og Norrænu nýsköpunarmiðstöðina. Rætt var um aukna útvistun norrænna fyrirtækja á framleiðslu sinni til landa eins og Kína og Indlands þar sem framleiðslukostnaður er mun lægri en á Norðurlöndum og hvernig það styrkti samkeppnisstöðu fyrirtækjanna á heimsmarkaði. Jafnframt var rætt um hvernig Norðurlönd gætu laðað til sín auknar fjárfestingar og möguleika þess að þær stofnanir sem vinna að því að laða að fjárfestingar í einstökum löndum gætu unnið saman að því að markaðssetja Norðurlönd sem fjárfestingarsvæði. Áhersla var lögð á að samkeppnin nú snerist ekki lengur einungis um ódýrara vinnuafl heldur í vaxandi mæli um háskólamenntað fólk sem Asíuríki væru sérstaklega dugleg að mennta, t.d. hönnuði, hugbúnaðarfólk, verkfræðinga o.s.frv. Þess vegna yrði að leggja ofuráherslu á rannsóknir og menntun á Norðurlöndum því samkeppnisstaða þeirra stæði og félli með því að löndin haldi sessi sínum sem háþróuð þekkingarsamfélög í fremstu röð.
    Í samræmi við áherslur Norðurlandaráðs og Norrænu ráðherranefndarinnar á málefni Vestur-Norðurlanda árið 2004 hóf efnahags- og viðskiptanefnd að kynna sér vestnorræn samgöngu- og byggðamál. Því var haldið áfram á starfsárinu 2005 og var sumarfundur nefndarinnar helgaður þessum málefnum. Sumarferðin var farin til Íslands og Grænlands dagana 15.–19. ágúst. Átti nefndin fundi með rekstrarfélagi ferjunnar Norrænu, Flugfélagi Íslands, Grænlandsflugi og óháðum sérfræðingum. Á Grænlandi kynnti nefndin sér stöðu ferðaþjónustu og framtíðarhorfur í greininni, m.a. möguleika á nánari samvinnu ferðaþjónustuaðila á Íslandi og Grænlandi á þeim stöðum þar sem boðið er upp á beint flug á milli landanna. Þá heimsótti nefndin bóndabæi og ræddi við fulltrúa landbúnaðarstofnunar heimastjórnarinnar um stöðu landbúnaðar á Grænlandi. Í Qaqortoq, stærsta bæ Suður-Grænlands, átti nefndin fund með bæjaryfirvöldum og heimsótti fiskmarkað, fiskvinnslu og verslunarskóla bæjarins auk skinnavinnslu Great Greenland.
    Á árinu sóttu Drífa Hjartardóttir og Steingrímur J. Sigfússon nokkrar ráðstefnur sem formaður og varaformaður efnahags- og viðskiptanefndar. Þau fóru fyrir sendinefnd í vinnuheimsókn til Efnahags- og framfarastofnunarinnar (OECD) í París og Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar (WTO) í Genf í mars. Þá sótti Drífa ráðstefnu Norrænu ráðherranefndarinnar um veikindafjarveru frá vinnustöðum í Kaupmannahöfn í apríl, 14. Eystrasaltsráðstefnuna í Vilníus í ágúst, og fund WTO í Hong Kong í desember.

3.4. Umhverfis- og náttúruauðlindanefnd.
    Fulltrúi Íslandsdeildar í umhverfis- og náttúruauðlindanefnd var Ásta R. Jóhannesdóttir. Nefndin annast málefni sem varða umhverfismál, landbúnað og skógrækt, sjávarútveg, sjálfbæra þróun og orkumál.
    Á starfsárinu 2005 lagði umhverfis- og náttúruauðlindanefnd m.a. áherslu á orkumál og vann tillögu um úttekt á framtíðarspám um raforkunotkun á Norðurlöndum og fyrirliggjandi áætlunum til að auka raforkuframnleiðslu. Þá fjallaði nefndin um framkvæmdaáætlun Norrænu ráðherranefndarinnar um norrænt samstarf um orkumál 2006–2009. Fleiri áætlanir ráðherranefndarinnar komu til afgreiðslu nefndarinnar, svo sem endurnýjuð stefna um sjálfbæra þróun 2005–2008, framkvæmdaáætlun um norrænt samstarf á sviði umhverfismála 2005–2008, og framkvæmdaáætlun um norrænt samstarf á sviði fiskveiða, landbúnaðar, skógræktar og matvæla 2005–2008.
    Þá fjallaði nefndin um umhverfismál hafsins með áherslu á Eystrasaltið og vann að þeim málum í samvinnu við umhverfisnefnd Eystrasaltsþingsins.
    Á starfsárinu 2004 kom umhverfis- og náttúruauðlindanefnd á fót vinnuhópi til að skipuleggja ráðstefnu um framtíðarhorfur strandveiða á Norðurlöndum í samvinnu við Norrænu ráðherranefndina. Arnbjörg Sveinsdóttir, sem sat í nefndinni sem varamaður, tók sæti í vinnuhópnum og starfaði í honum þar til ráðstefnan fór fram í Grenå 2.–3. maí.
    Sumarfundur nefndarinnar fór fram í Kalmar og var orkubúskapur Svíþjóðar til skoðunar, möguleikar á endurnýjanlegri orku en einnig litið til þess hvernig kjarnorkuframleiðslu og meðhöndlun kjarnorkuúrgangs er háttað.
    Í tengslum við þing Norðurlandaráðs í Reykjavík hélt umhverfis- og náttúruauðlindanefnd fund með fulltrúum sjávarútvegsnefndar Alþingis þar sem skipst var á skoðunum um stjórnkerfi fiskveiða og þróun strandveiða.
    Ásta R. Jóhannesdóttir var fulltrúi nefndarinnar á Eystrasaltsdeginum í Pétursborg og á ráðstefnu um olíu- og gasvinnslu á norðurskautssvæðinu á sama stað.

3.5. Velferðarnefnd.
    Arnbjörg Sveinsdóttir var fulltrúi Íslandsdeildar í velferðarnefnd. Velferðarnefnd sinnir velferðar- og tryggingamálum, félagsþjónustu og heilbrigðismálum, málefnum fatlaðra, bygginga- og húsnæðismálum, fjölskyldumálum, börnum og unglingum, og baráttu gegn misnotkun vímuefna.
    Á árinu 2005 fjallaði nefndin sérstaklega um geðheilbrigðismál, aðbúnað geðsjúkra og stöðu þeirra í heibrigðiskerfum norrænu landanna. Meðal annars var horft til þess hvernig Norðurlöndin geta miðlað reynslu sín á milli, aðkomu frjálsra félagasamtaka að aðstoð við geðsjúka, og barnageðlækningar og aðstæður ungmenna á geðdeildum. Við almenna nefndarfundi hafa sérfræðingar í hverju landi fyrir sig gengið á fund nefndarinnar og gert grein fyrir stöðu mála. Sumarfundur nefndarinnar fór fram í Nord-Karelen í Finnlandi og var helgaður stöðu geðheilbrigðismála í Finnlandi, bæði almennt og einnig staðbundið í Nord-Karelen. Á árinu vann velferðarnefnd tilmæli til Norrænu ráðherranefndarinnar um aðlögun laga og ákvæða sem varða málefni fatlaðra svo þau taki einnig til geðfatlaðra. Velferðarnefnd mun vinna áfram með geðheilbrigðismál á yfirstandandi ári.
    Arnbjörg sótti í apríl ráðstefnu Norrænu ráðherranefndarinnar um veikindafjarveru frá vinnustöðum fyrir hönd nefndarinnar.

3.6.     Borgara- og neytendanefnd.
    Í upphafi árs sat Sigurður Kári Kristjánsson í borgara- og neytendanefnd Norðurlandaráðs. Eftir að ný Íslandsdeild var kosin 3. október tók Kjartan Ólafsson við sæti Sigurðar í nefndinni. Borgara- og neytendanefnd annast málefni sem varða lýðræði, mannréttindi, borgararéttindi, jafnrétti, neytendamál, hollustu matvæla, baráttu gegn glæpastarfsemi, löggjöf, innflytjendur, flóttafólk og baráttu gegn kynþáttafordómum.
    Á starfsárinu beindi nefndin sjónum sínum sérstaklega að málefnum sem varða jafnréttismál frá sjónarhóli karla, stöðu minnihlutahópa með áherslu á réttindi frumbyggja, skipulagðri glæpastarfsemi og mansali, auk baráttu gegn spillingu. Nefndin vann tillögu til Norrænu ráðherranefndarinnar um að kanna áhrif þess á rannsóknir lögreglu á mansali að veita fórnarlömbum þess dvalarleyfi í móttökulandinu. Að auki vann nefndin tillögu um að utanríkisráðherrar Norðurlanda gefi Norðurlandaráðsþingi 2006 skýrslu um starf vinnuhóps Norðurlanda og Eystrasaltsríkjanna um baráttu gegn mansali. Þá var unnin tillaga um þróun heilbrigðis- og atvinnumála meðal frumbyggja á Barentssvæðinu. Einnig lagði nefndin til að haldin yrði ráðstefna um spillingu í Pétursborg. Þá hafði nefndin tillögu Norrænu ráðherranefndarinnar um áætlun um norrænt samstarf á sviði jafnréttismála 2006–2010 til afgreiðslu.
    Sumarfundur borgara- og neytendanefndar var haldinn í Strassborg þar sem nefndin fundaði með fulltrúum ólíkra nefnda Evrópuráðsþingsins.

3.7.     Eftirlitsnefnd.
    Í upphafi árs var Sigurður Kári Kristjánsson fulltrúi Íslands í eftirlitsnefnd Norðurlandaráðs. Eftir að ný Íslandsdeild var kosin 3. október tók Kjartan Ólafsson við sæti Sigurðar í nefndinni. Eftirlitsnefndin fylgist fyrir hönd Norðurlandaráðsþings með starfsemi sem fjármögnuð er úr sameiginlegum sjóðum Norðurlandanna. Nefndin hefur einnig umsjón með málefnum sem snerta túlkun samninga um norræna samvinnu, vinnutilhögun Norðurlandaráðs og önnur innri málefni. Hluti af fastri starfsemi nefndarinnar er að fara yfir skýrslur dönsku ríkisendurskoðunarinnar um ársreikninga Norðurlandaráðs, Norrænu ráðherranefndarinnar og Norræna menningarsjóðsins. Fyrir utan hefðbundin störf gerði eftirlitsnefnd á starfsárinu 2005 sérstaka úttekt á tungumálaskilningi og tungumálasamstarfi á Norðurlöndum.

4. Verðlaun Norðurlandaráðs.
    Verðlaun Norðurlandaráðs eru fern, þ.e. bókmenntaverðlaun, tónlistarverðlaun, náttúru- og umhverfisverðlaun, og kvikmyndaverðlaun. Verðlaunin voru afhent við hátíðlega athöfn í Borgarleikhúsinu í tengslum við þing Norðurlandaráðs í Reykjavík 26. október.
    Bókmenntaverðlaunum Norðurlandaráðs hefur verið úthlutað á hverju ári frá 1962. Markmið verðlaunanna er að auka áhuga á norrænum bókmenntum. Sjón (Sigurjón Birgir Sigurðsson) hlaut verðlaunin árið 2005 fyrir Skugga-Baldur en verkið er rómantísk skáldsaga sem gerist á Íslandi um miðja 19. öld. Í rökstuðningi dómnefndar segir m.a. að í Skugga-Baldri þræði Sjón einstigið milli ljóðs og prósa. Í skáldsögunni séu ofin saman minni úr íslenskum þjóðsögum, rómantísk frásögn og heillandi saga þar sem siðfræðilegar spurningar nútímans skjóti upp kollinum.
    Tónlistarverðlaun Norðurlandaráðs voru fyrst veitt árið 1965. Fram til ársins 1988 voru þau einungis afhent annað hvert ár. Frá 1990 hafa þau hins vegar verið veitt á ári hverju, annað árið til tónskálda og hitt árið til tónlistarflytjenda. Tónlistarhópurinn Cikada frá Noregi hlaut verðlaunin árið 2005. Dómnefndin rökstuddi val sitt með því að Cikada væri mikilvægur fulltrúi nútímatónlistar á Norðurlöndum og lagði ríka áherslu á sérstakan stíl hópsins og lifandi og nýstárlegan flutning tónlistar í ýmiss konar stíl.
    Á þingi Norðurlandaráðs í Reykjavík árið 1995 var samþykkt að koma á árlegum náttúru- og umhverfisverðlaunum. Verðlaunin á að veita einstaklingi sem hefur sett mark sitt á náttúru- og umhverfisvernd á Norðurlöndum eða hópi fólks, samtökum, fjölmiðlum, fyrirtækjum eða stofnunum sem hefur í störfum sínum tekist að sýna náttúrunni tillitssemi. Norski líffræðingurinn Ann-Cecilie Norderhaug hlaut verðlaunin árið 2005 fyrir framlag sitt til verndunar menningarlandslags á Norðurlöndum.
    Norðurlandaráð veitti kvikmyndaverðlaun í fyrsta sinn á 50 ára afmælisþingi sínu árið 2002. Frá 2005 verða þau veitt árlega og fá því fastan sess í norrænu samstarfi og viðburðum á vegum þess. Danska kvikmyndin Morðið (Drabet) eftir Per Fly hlaut verðlaunin árið 2005. Í rökstuðningi dómnefndar segir m.a. að Morðið sé látlaus mynd sem fjalli um að bera ábyrgð á gerðum sínum og fylgja samvisku sinni. Í frásögn séu aðferðir raunsæis nýttar og flókin harmsaga sé sögð á einfaldan hátt, án þess þó að dregið sé úr áhrifamætti hennar. Þetta sé norræn kvikmyndalist, saga sem sé sögð beint frá hjartanu um sígilt efni, og það sé gert á tungumáli og forsendum okkar tíma.
    Framangreind verðlaun Norðurlandaráðs nema 350 þúsund dönskum krónum.

5. Sameiginlegir fundir Norðurlandaráðs.
    Norðurlandaráð kemur að jafnaði saman til nefndafunda fjórum sinnum á ári til þess að vinna þær tillögur og þau mál sem lögð eru fyrir Norðurlandaráðsþing. Í tengslum við þessa nefndafundi fara fram stuttir sameiginlegir fundir alls ráðsins þar sem eitthvert eitt efni er tekið fyrir.

5.1. Janúarfundur Norðurlandaráðs í Kaupmannahöfn.
    Janúarfundir Norðurlandaráðs voru haldnir í Kaupmannahöfn dagana 26.–27. janúar. Auk hefðbundinna funda í nefndum og flokkahópum var haldinn einn sameiginlegur fundur alls ráðsins og fjallaði hann um líftækni og möguleika á samræmdri norrænni líftæknistefnu. Í upphafsávarpi sínu sagði Rannveig Guðmundsdóttir, forseti Norðurlandaráðs, að líftækni væri hlutgervingur hinnar hröðu tækniþróunar síðustu áratuga, en þótt hún byði upp á ótrúlega möguleika bæði á sviði læknavísinda og sem atvinnugrein, þá vekti hún upp margar áleitnar siðferðislegar spurningar. Sem dæmi um það vísaði forseti til þeirra umræðna og deilna sem hafa verið um klónun annars vegar og notkun á stofnfrumum í lækningaskyni hins vegar. Á fundinum var einnig rætt um þá efnahagslegu möguleika sem líftækni býður upp á, bæði sem sjálfstæð atvinnugrein og til hagræðingar í heilbrigðismálum. Hið síðastnefnda gerði Lena Koch að umtalsefni í erindi sínu og sagði skorta á að talað væri hreint út um notkun á líftækni í heilbrigðiskerfinu. Hún nefndi sem dæmi að dönsk heilbrigðisyfirvöld byðu ófrískum konum upp á rannsókn til að ganga úr skugga um hvort fóstur væri með erfðagalla. Hinn duldi tilgangur væri að spara samfélaginu útgjöld, en það gætu stjórnmálamenn ekki leyft sér að segja. Á fundinum kom enn fremur fram að löggjöf á Norðurlöndum á sviði líftækni er mismunandi og færði Børge Diedrichsen, rannsóknarstjóri hjá Novo Nordisk, rök að því að samræmd lög og stefna á sviði líftækni mundi gera Norðurlöndin að aðlaðandi rannsóknar- og athafnasvæði fyrir alþjóðleg líftæknifyrirtæki.
    Það er hefð í Norðurlandaráði að halda janúarfundina í því landi sem tekið hefur við formennsku í Norrænu ráðherranefndinni en Danir tóku við formennsku af Íslendingum 1. janúar 2005. Hugsunin að baki því er sú að gefa norrænum samstarfsráðherra formennskulandsins færi á að kynna formennskuáætlunina í grófum dráttum, auk þess sem málefnanefndir Norðurlandaráðs eiga kost á að funda nánar með einstökum fagráðherrum um áherslur formennskulandsins á afmarkaðri sviðum. Vegna þingslita og boðunar kosninga í Danmörku gátu ráðherrar þó ekki tekið þátt í janúarfundunum að þessu sinni. Það kom því í hlut Søren Christensen, stjórnanda Norðurlandaskrifstofu danska utanríkisráðuneytisins, að kynna formennskuáætlun Dana á fundi með forsætisnefnd Norðurlandaráðs. Áætlunin ber nafnið „Norðurlönd á nýjum tímum: Þekking, þróttur og samstarf“. Megináherslur hennar eru þrjár: Þekking og nýsköpun, landamæralaus Norðurlönd og skilvirkni í norrænu samstarfi. Søren Christensen lagði áherslu á hagræðingu í norrænu samstarfi og sagði ýmsa möguleika til athugunar, t.d. að fækka fagráðherranefndum. Markmiðið er ekki að draga úr norrænu samstarfi heldur að þétta það á afmörkuðum sviðum eins og þegar er gert á rannsóknasviðinu. Norðurlöndin geta ekki keppt við lág laun en þau geta keppt á þekkingargrundvelli. Þess vegna leggja Danir áherslu á rannsóknir og nýsköpun í formennskuáætlun sinni.
    Þrjár nefndir Norðurlandaráðs, umhverfis- og náttúruauðlindanefnd, borgara- og neytendanefnd og efnahags- og viðskiptanefnd, gengust fyrir sameiginlegri málstofu um REACH-tilskipun Evrópusambandsins um meðferð hættulegra efnasambanda. Sidsel Dyekjær, ráðgjafi Norrænu ráðherranefndarinnar í umhverfismálum, hélt erindi á fundinum ásamt Rasmus Kjeldahl, forseta evrópsku neytendasamtakanna, og Owe Fredholm, forstjóra úr sænska plast- og efnaiðnaðinum. Sumir ræðumanna lýstu áhyggjum af því að hagsmunaaðilar í efnaiðnaði mundu með áhrifum sínum útvatna þá sameiginlegu löggjöf Evrópusambandsins um meðferð hættulegra efnasambanda sem væntanleg er. Owe Fredholm lagði áherslu á að hagsmunaaðilar í efnaiðnaði væru fylgjandi sameiginlegri löggjöf. Hann lýsti eftir aukinni miðstýringu svo koma mætti á traustu og skilvirku samstarfi hagsmunaaðila. Fredholm sagði jafnframt að það væri liðin tíð að Norðurlönd stæðu ein í fremstu víglínu í umhverfisverndarmálum. Rasmus Kjeldahl nefndi í erindi sínu nokkur dæmi um algengar neysluvörur á Norðurlöndum sem innihéldu hættuleg efnasambönd, svo sem loftkælitæki, leikföng, hárlit og húðkrem. Asmund Kristoffersen, formaður umhverfis- og náttúruauðlindanefndarinnar, dró saman niðurstöður málfundarins og sagði afar mikilvægt að norrænu ríkin þrýstu á um að hættuleg efnasambönd yrðu fjarlægð úr umhverfinu. Nefndi hann norðurskautssvæðið sem sérlega viðkvæmt svæði fyrir utanaðkomandi mengun og tók dæmi af miklu magni af þrávirka efninu PCB sem mælst hefur í ísbjörnum á norðurslóðum og ógnar þeim.

5.2. Júnífundir Norðurlandaráðs í Bodø.
    Júnífundir Norðurlandaráðs og Barentsráðstefna þingmanna fóru fram í Bodø í Noregi dagana 28.–30. júní. Í vinnuáætlun Norðurlandaráðs fyrir árið 2005 voru Norðurskautssvæðið, Barentssvæðið og Vestur-Norðurlönd tilgreind sem eitt af fjórum áherslusviðum í starfi ráðsins. Í samræmi við það voru málefni sem varða þessi svæði, loftslagsbreytingar á norðurhveli jarðar og stöðu frumbyggja í brennidepli á fundum Norðurlandaráðs í Bodø og Barentsráðstefnunni sem fylgdi í kjölfar þeirra. Einstakar málefnanefndir Norðurlandaráðs beindu sjónum sínum að þessum málaflokkum. Umhverfis- og náttúruauðlindanefnd og menningar- og menntamálanefnd efndu til málstofu þar sem hinar hröðu loftslagsbreytingar á norðurskautssvæðinu voru ræddar, m.a. á grunni hinnar fjölþjóðlegu skýrslu um loftslagsbreytingar sem Norðurskautsráðið sendi frá sér í október 2004. Borgara- og neytendanefnd fékk einnig kynningu á loftslagsbreytingunum og enn fremur skýrslu Norðurskautsráðsins um sjálfbæra samfélagsþróun á norðurslóðum.
    Barentsráðstefna þingmanna hófst 29. júní en hún var skipulögð í samstarfi Stórþingsins og Norðurlandaráðs. Yfir 300 þátttakendur mættu og voru í þeim hópi þingmenn frá Norðurlöndunum og Rússlandi, sveitarstjórnarmenn og fylkisþingmenn frá nyrstu héruðum landanna, fulltrúar samtaka frumbyggja og annarra frjálsra félagasamtaka. Ráðstefnan hafði þrjú meginþemu: samstarf í Norður-Evrópu, sjálfbæra efnahagsþróun á Barentssvæðinu og aðstæður og stöðu frumbyggja á Barentssvæðinu.
    Jørgen Kosmo hélt opnunarræðu ráðstefnunnar og sagði að frumbyggjasamfélögin fyndu fyrst allra fyrir hinum miklu umhverfisbreytingum á svæðinu. Frumbyggjarnir væru í nánustum tengslum við náttúruna, þeir merktu það að ísinn hefði bráðnað á gömlum veiðislóðum og væri vart mannheldur. Samarnir merkja það fyrst þegar túndrurnar þiðna upp þar sem þeir hafast við með hreindýrahjarðir sínar. Þá gerði Kosmo möguleika Rússa og Norðmanna á olíu- og gasvinnslu að umræðuefni svo og nauðsyn þess að gæta að vörslu kjarnorkuúrgangs á Barentssvæðinu sem væri arfur kalda stríðsins.
    Rannveig Guðmundsdóttir, forseti Norðurlandaráðs, flutti opnunarræðu fyrir hönd ráðsins. Forseti sagði aðstæður á Barents- og norðurskautssvæðinu einkennast af köldu loftslagi og harðri veðráttu, gríðarlegu landflæmi, miklum fjarlægðum og strjálum byggðum. Þessar sérstöku aðstæður kölluðu á sérstakar aðgerðir og því væri rík áhersla lögð á málefni svæðisins í starfi Norðurlandaráðs. Á Barentssvæðinu væru erfið úrlausnarefni á sviði umhverfismála en jafnframt miklir möguleikar til efnahagslegrar þróunar vegna ríkulegra náttúruauðlinda. Stærstu áskoranirnar væru umhverfisvá af völdum loftslagsbreytinga sem hafa mikil áhrif á hina viðkvæmu náttúru og jafnframt mengunarhætta af völdum kjarnavopna og kjarnorkuknúinna sjófara sem eru úr sér gengin og illa haldið við. Möguleikarnir felast hins vegar í því að nýta náttúruauðlindir á borð við olíu, gas, málma, fiskistofna og skóglendi. Forsenda allrar nýtingar er þó að hún sé sjálfbær og að fyllsta tillit sé tekið til viðkvæmrar náttúru og lítilla samfélaga, einkum samfélaga frumbyggja þar sem hefðbundin menning og lífsmáti fá að njóta sín.
    Jan Pedersen, utanríkisráðherra Noregs, ræddi nauðsyn samráðs um olíu- og gasvinnslu á milli Noregs og Rússlands þótt það væri ekki eiginlegt samstarfssvið Barentssamstarfsins. Mjög miklir möguleikar eru fyrir hendi á þessu sviði og slík vinnsla hefði þau hliðaráhrif að efla almenna hagþróun á svæðinu. Pedersen sagði stöðu frumbyggja vera á dagskrá næsta fundar Barentsráðsins og lagði áherslu á að þess yrði gætt að frumbyggjarnir hefðu sömu möguleika og aðrir íbúar svæðisins til þess að taka þátt í hinni efnahagslegu þróun auk áhrifa á það hvernig náttúruauðlindir væru nýttar.
    Í umræðum tók Roald Nystö, forseti Samaþingsins, undir með Pedersen um nauðsyn þess að Sömum yrði gert kleift að taka þátt í efnahagsuppbyggingunni og reyna fyrir sér í nútímalegum atvinnugreinum. Dian Wallis, þingmaður á Evrópuþinginu, ræddi nauðsyn þess að efla hina norðlægu vídd ESB og tryggja henni bein framlög á fjárlögum sambandsins. Þá komu m.a. fram hugmyndir um formbindingu á þingmannasamstarfi á Barentssvæðinu og sérstakan fund þingforseta norðurskautslandanna.
    Ráðstefnunni var slitið af Jónínu Bjartmarz, varaforseta Norðurlandaráðs. Jónína sagði að rauði þráðurinn í máli flestra ræðumanna hefði verið nauðsyn þess að finna jafnvægi á milli hinna miklu andstæðna á Barentssvæðinu sem einkennist annars vegar af viðkvæmri náttúru og hins vegar náttúruauðlindum í ríkum mæli. Áskorunin sem allir ráðstefnugestir færu með heim í farteskinu væri að tryggja sjálfbæra þróun á svæðinu, jafnt með tilliti til umhverfis sem efnahagslegrar og félagslegrar þróunar. Mikilvægt væri að þátttakendur héldu málefnum svæðisins á lofti þegar þeir væru komnir heim til þjóðþinga sinna og höfuðborga sem flestar væru á mun suðlægari breiddargráðum en Bodø sem liggur við heimskautsbaug. Þá minnti Jónína á að Stórþingið og Norðurlandaráð munu skipuleggja fund í Ósló til að fylgja á eftir þeim umræðum sem áttu sér stað á Barentsráðstefnunni.

5.3. Septemberfundir Norðurlandaráðs í Karlstad.
    Septemberfundir Norðurlandaráðs voru haldnir í Karlstad í Svíþjóð dagana 21.–23. september 2005. Fundirnir voru haldnir í tengslum við hátíðarhöld til þess að fagna því að öld er liðin frá friðsamlegum slitum á ríkjasambandi Noregs og Svíþjóðar en viðræðunefndir ríkjanna náðu einmitt samkomulagi um aðskilnaðinn eftir samningalotu í Karlstad. Forsætisráðherrar Noregs og Svíþjóðar og þingforsetar ríkjanna voru viðstaddir hátíðarhöldin auk Norðurlandaráðsliða. Sérstök málstofa um stjórnvisku var haldin í hátíðarsal háskólans í Karlstad og fluttu Björn von Sydow, forseti sænska Ríkisdagsins, Jørgen Kosmo, forseti norska Stórþingsins, og Rannveig Guðmundsdóttir, forseti Norðurlandaráðs, þar framsögu auk fræðimanna sem hafa sérhæft sig í þessu tímabili í sögu þjóðanna. Yfirskrift ráðstefnunnar var stjórnviska og stjórnkænska og hvernig hún getur ráðið úrslitum við lausn ágreiningsmála á milli þjóða.
    Rannveig lagði í erindi sínu áherslu á að friðsamleg sambúð Norðurlanda síðustu tvær aldir væri ekki sjálfgefið eða náttúrulegt ástand í samskiptum frændþjóða. Oft væri sagt að grundvöllur þessa samstarfs væri skyldleiki tungumála og menningar og söguleg tengsl, en það væri vert að hafa í huga að öldum saman voru Norðurlöndin erkifjendur sem bárust á banaspjótum. Friðsamleg sambúð Norðurlanda byggist því ekki á einhvers konar náttúrulegu eða sjálfgefnu samlyndi heldur sé hún árangur af þeirri vinnu sem lögð hefur verið í að leysa ágreiningsmál með friðsamlegum hætti. Rannveig velti fyrir sér hvort þessi arfur og reynsla gæti verið skýringin á áhuga og góðum árangri Norðurlandaþjóða í starfi að lausn deilumála á alþjóðavettvangi. Hún nefndi sem dæmi að Norðurlönd hefðu aðstoðað við friðarviðræður í Bosníu, Ísrael/Palestínu, á Srí Lanka og í Indónesíu og að stjórnmálamenn á borð við Olof Palme og Carl Bildt frá Svíþjóð, Thorvald Stoltenberg frá Noregi og Martti Ahtisaari frá Finnlandi væru kunnir víða um lönd fyrir störf sín að lausn deilumála þjóða í milli.

6. Fimmti sameiginlegi fundur Norðurlandaráðs og Eystrasaltsþingsins.
    Dagana 27.–29. apríl héldu Norðurlandaráð og Eystrasaltsþingið fimmta sameiginlega fund sinn. Eystrasaltsþingið er þingmannasamkunda Eistlands, Lettlands og Litháens sem stofnuð var að fyrirmynd Norðurlandaráðs árið 1991. Fundurinn fór fram í Pärnu í Eistlandi. Fyrri sameiginlegir fundir þessara aðila voru haldnir í Vilnius árið 1996, Helsinki árið 1999, Riga árið 2001 og Lundi árið 2003. Hefð hefur verið fyrir að halda sameiginlega fundi annað hvert ár til skiptis á Norðurlöndum eða í Eystrasaltsríkjunum.
    Áður en hinn sameiginlegi fundur hófst áttu málefnanefndir Norðurlandaráðs fundi með samsvarandi nefndum Eystrasaltsþingsins. Menningar- og menntamálanefndirnar ræddu Bologna-ferlið og vinnu að gagnkvæmri viðurkenningu á prófskírteinum. Á dagskrá umhverfisnefndanna var vinna að alþjóðlegri viðurkenningu Eystrasaltsins sem sérlega viðkvæms hafsvæðis og hvernig tryggja mætti stuðning Rússa við þá vinnu. Efnahags- og viðskiptanefndirnar fjölluðu um sameiningu vinnumarkaða Norðurlanda og Eystrasaltsríkjanna nú eftir að hin síðarnefndu eru orðnir aðilar að ESB. Borgara- og neytendanefndirnar ræddu um baráttuna gegn spillingu. Velferðarnefndirnar fjölluðu um stefnu í áfengismálum á Norðurlöndum og Eystrasaltsríkjunum en streymi ódýrs áfengis frá Eystrasaltsríkjunum til Norðurlanda er sérstakt áhyggjuefni í Finnlandi.
    Þá áttu forsætisnefndir Norðurlandaráðs og Eystrasaltsþingsins fund þar sem þær samþykktu skýrslu sérstaks vinnuhóps sem unnið hefur tillögur um form og forgangsröðun samstarfs þessara tveggja samtaka í ljósi breyttrar pólitískrar stöðu við Eystrasaltið eftir stækkun ESB og NATO til austurs.
    Aðalumræðuefni sameiginlega fundarins voru forgangsröðun og skipulag samstarfs Norðurlandaráðs og Eystrasaltsþingsins í ljósi hnattvæðingar, og stuðningur við uppbyggingu lýðræðis og borgaralegs samfélags í nágrannalöndunum til austurs. Forseti Eistlands, Arnold Rüütel, setti fundinn og gerði stuðning Norðurlanda við sjálfstæði Eystrasaltsríkjanna að umræðuefni. Hann sagði mikilvægi samstarfsins við Norðurlönd hafa verið mikið, bæði þegar Eystrasaltsríkin endurheimtu sjálfstæði sitt og einnig við þá lýðræðisuppbyggingu sem þá tók við. Sagði Rüütel að þótt samstarf innan ESB og NATO væri nú kjölfestan í utanríkissamskiptum Eistlands væri samstarfið við Norðurlönd enn mjög mikilvægt og full ástæða til að endurmeta og skapa nýjan grunn fyrir samstarf Norðurlandaráðs og Eystrasaltsþingsins í ljósri breyttra aðstæðna í alþjóðamálum.
    Rannveig Guðmundsdóttir, forseti Norðurlandaráðs, hélt opnunarræðu fyrir hönd ráðsins og sagði samstarf Norðurlandanna og Eystrasaltsríkjanna síst veigaminna eftir inngöngu hinna síðarnefndu í ESB. Þó mætti með einföldun segja að ESB-aðildin breytti forsendum samstarfsins einkum á tvo vegu. Hvað varðar innra samstarf Norðurlanda og Eystrasaltsríkjanna má ætla að ESB-aðildin auki tengsl landanna. Efnahagsleg tengsl munu aukast, fleiri fyrirtæki munu starfa þvert á landamæri og flæði vinnuafls mun stóraukast við sameiningu vinnumarkaða. Að auki má búast við auknu menningarsamstarfi og grasrótarsamskiptum. Hins vegar eiga Norðurlönd og Eystrasaltsríkin sameiginlegra hagsmuna að gæta varðandi samstarf við hina nýju nágranna ESB til austurs, einkum Norðvestur-Rússland. Það er mikilvægt fyrir stöðugleika í Norður-Evrópu að stækkun ESB leiði ekki til þess að varanleg velferðargjá myndist við eystri landamæri sambandsins og Norðurlandaráð og Eystrasaltsþingið geta lagt sitt á vogarskálarnar til að hamla gegn því með samstarfi við Rússa.
    Í ræðu sinni lagði Anders Taimla, forseti Eystrasaltsþingsins, áherslu á að umhyggja fyrir umhverfi, menningararfi og hinu mannlega mætti ekki gleymast á tímum hnattvæðingar. Virðingin fyrir manninum og náttúrunni ætti að vera grunngildi í alþjóðlegu samstarfi.
    Utanríkisráðherra Eistlands, Urmas Paet, fjallaði m.a. um öryggis- og varnarmálasamstarf Eistlands við Norðurlönd og sagði það mikilvægt, bæði samstarfið við norrænu NATO-ríkin og þau sem standa utan bandalagsins. Almennt taldi Paet samstarf landanna vera að aukast hratt, sérstaklega á efnahagssviðinu. Nefndi hann sem dæmi að 58% af útfluttum iðnaðarvörum frá Eistland fari til Norðurlanda og að 50% innflutnings komi þaðan. Þá koma um 75% erlendrar fjárfestingar í Eistlandi frá Norðurlöndum. Að lokum lýsti Paet yfir áhuga Eistlands á að tengjast fleiri norrænum stofnunum en Norræna fjárfestingarbankanum, sem Eystrasaltsríkin eru orðin aðilar að, og nefndi m.a. Norræna genabankann, Nordregio og Norrænu nýsköpunarmiðstöðina í því sambandi.
    Til snarpra orðaskipta kom á milli gesta frá rússnesku dúmunni og nokkurra þingmanna Eystrasaltsþingsins þegar rætt var um arfleifð síðari heimsstyrjaldar. Gennadij Khripel gagnrýndi stjórnvöld í Eistlandi og Lettlandi harðlega fyrir að mismuna rússneskum borgurum og leyfa ofsóknir á hendur rússneskum uppgjafahermönnum úr seinna stríði á meðan fyrrverandi eistlenskum og lettneskum hermönnum úr SS-sveitum nasista er hampað. Nokkur andsvör komu fram gegn Khripel og var ítrekað krafist afsökunarbeiðni frá Rússlandi vegna 50 ára ólöglegs hernáms Eystrasaltsríkjanna.
    Gabriel Romanus og Trivimi Velliste kynntu skýrslu forsætisnefndanna um skipulag framtíðarsamstarfs Norðurlandaráðs og Eystrasaltsþingsins. Í henni er m.a. kveðið á um að löndin eigi ýmsa sameiginlega hagsmuni innan ESB/EES-samstarfsins og að þau geti nýtt samtakamátt sinn til að halda þeim á lofti. Sérstök áhersla er lögð á samstarfið við hina nýju granna ESB til austurs. Skipulag framtíðarstarfsins verður sveigjanlegra en áður, málefnanefndir samtakanna tveggja munu eiga beint samstarf eftir því sem tilefni gefst til, sameiginlegum vinnuhópum verður komið á og árlegir samráðsfundir forsætisnefnda og nefndarformanna leysa stóru sameiginlegu fundina af hólmi.
    Áherslur skýrslunnar endurspegluðust í lokayfirlýsingu sameiginlega fundarins sem Rannveig Guðmundsdóttir og Anders Taimla undirrituðu fyrir hönd samtaka sinna. Kváðu forsetarnir nýtt sveigjanlegt skipulag, byggt á beinu samstarfi nefnda, vinnuhópum og minni fundum, sýna að samstarf Norðurlandaráðs og Eystrasaltsþingsins væri lifandi og í takt við breytingar á öðru alþjóðlegu samstarfi í Evrópu.
    
7. 57. þing Norðurlandaráðs.
    Þing Norðurlandaráðs var haldið í Reykjavík dagana 25.–27. október 2005. Þing er haldið á Íslandi fimmta hvert ár, síðast árið 2000. Alls sóttu um 800 þátttakendur þingið, þar af 41 norrænn ráðherra, 87 norrænir þingmenn og 20 þingmenn frá Eystrasaltsríkjunum og Rússlandi.
    Íslandsdeild Norðurlandaráðs og alþjóðasvið Alþingis höfðu veg og vanda af skipulagningu þingsins í samstarfi við fjölmarga starfsmenn skrifstofu Alþingis og aðra. Hófst undirbúningur þess strax að loknu 56. þingi Norðurlandaráðs í Stokkhólmi í nóvember 2004 og stóð óslitið fram að setningu þingsins í Reykjavík 25. október 2005. Verkaskipting milli Alþingis og skrifstofu Norðurlandaráðs við skipulagningu var í grófum dráttum sú að Alþingi sá um allan ytri ramma þingsins og yfirbragð, fundaraðstöðu, þ.m.t. túlkakerfi, skrifstofuaðstöðu, verklega framkvæmd, skipulag fundarhalda, prentun, ferðir og flutninga. Norðurlandaráð sá um þingfundinn, framkvæmd hans og stjórnun, nefndarfundi, útgáfu þingskjala og almennt skrifstofuhald Norðurlandaráðs. Skemmst er frá því að segja að allt skipulag og framkvæmd þingsins tókst með eindæmum vel og var Alþingi og starfsfólki þess til sóma.
    Þingið var haldið á Hótel Nordica en þar var þingsalur, fundarherbergi nefnda, skrifstofur landsdeilda, flokkahópa og skrifstofu Norðurlandaráðs, prentsmiðja, aðstaða ræðuritara, túlka og tæknimanna, fréttamannaaðstaða og aðstaða fyrir blaðamannafundi. Auk þess fóru nokkrir nefndafundir og málsverðir fram á Grand hóteli.
    Forseti Alþingis, Sólveig Pétursdóttir, setti þingið 25. október og bauð þátttakendur velkomna til Íslands. Minntist forseti á kvennaverkfallið sem fram fór daginn áður til að fagna 30 ára afmæli kvennaverkfallsins mikla og sagðist vona að sem flestir þingfulltrúa hefðu orðið vitni að því. Verkfallið væri þörf áminning um það að enn væri margt óunnið í jafnréttismálum hér á Norðurlöndum. Forseti lagði enn fremur áherslu á að litið væri á norrænt samstarf sem einn af hornsteinum íslenskrar utanríkisstefnu og að þrátt fyrir ýmsar breytingar á skipulagi og inntaki samstarfsins undanfarin ár væri sú skoðun óbreytt.
    Forseti Norðurlandaráðs, Rannveig Guðmundsdóttir, hélt opnunarræðu og sagði að þinghald á Íslandi væri sérlega viðeigandi í ljósi þess að málefni hinna norðlægari slóða,Vestur- Norðurlanda, norðurskautsins og Barentssvæðisins hefðu verið í brennidepli í starfi ráðsins á árinu. Forseti fjallaði um umhverfismál við norðurskaut og sagði helstu umhverfisvána vera hraðar loftslagsbreytingar sem hafa áhrif langt út fyrir norðurslóðir. Ef ísinn bráðnar stígur yfirborð sjávar bæði í Eystrasalti og við norðurströnd Skandinavíu. Loftslagsbreytingarnar skapa í senn alvarlegan umhverfisvanda og ný tækifæri. Líklegt er að í framtíðinni opnist ný siglingaleið milli Asíu og Evrópu og tækifæri gefist til að nýta auðugar gas- og olíulindir á svæðinu. Við slíkt yrði þó að gæta fyllstu varkárni og taka tillit til viðkvæmrar náttúru norðurskautsins. Þá ræddi forseti jafnréttismál og lagði áherslu á að þrátt fyrir að Norðurlönd væru í fararbroddi á heimsvísu hvað varðar jafnréttindi kynjanna, og þar með fyrirmynd kvenna sem berjast fyrir jafnrétti í öðrum löndum, þá væru mörg verkefni óunnin. Brýnast væri að vinna bug á ofbeldi gegn konum og börnum, mansali og kynbundnu launamisrétti.
    Forsætisráðherrarnir Halldór Ásgrímsson og Anders Fogh Rassmussen fluttu þá skýrslur sínar og norski samstarfsráðherrann, Heidi Grande Røys, gerði grein fyrir formennskuáætlun Norðmanna í Norrænu ráðherranefndinni fyrir árið 2006. Áætlunin ber nafnið „Hin nýju Norðurlönd – Endurnýjun og samstarf í Norður-Evrópu“. Megináherslurnar eru samstarf á norðurslóðum, norræna velferðarkerfið og vægi þekkingar á tímum hnattvæðingar. Þá fóru fram almennar stjórnmálaumræður. Steingrímur J. Sigfússon var talsmaður flokkahóps vinstrisósíalista og grænna í umræðunum og gagnrýndi að framlög til norræns samstarfs hafa ekki aukist í samræmi við verðlagsbreytingar og aukningu þjóðarframleiðslu á Norðurlöndum undanfarin 10–15 ár. Í ræðu sinni hvatti hann auk þess til þess að orðið yrði við óskum Færeyinga um fulla aðild að Norðurlandaráði og að málinu yrði ekki frestað. Steingrímur gagnrýndi að fyrirhugaðar breytingar á norrænu samstarfi stefndu allar í þá átt að draga úr samstarfinu, t.d. með því að fækka ráðherra- og embættismannanefndum og með því að færa norrænar stofnanir yfir til einstakra ríkja. Hann kvartaði jafnframt yfir því að þrír af fimm forsætisráðherrum Norðurlanda hefðu ekki gefið sér tíma til að sitja fyrsta dag Norðurlandaráðsþingsins heldur væru þegar farnir frá Íslandi. Í ræðu sinni hvatti Steingrímur jafnframt til aukins samstarfs við Skotland og Kanada og benti á að í Kanada byggju fleiri en í öllum norrænu ríkjunum samanlagt og þar byggi fólk við aðstæður sem um margt minntu á Norðurlönd.
    Annar dagur þingsins hófst á umræðum um endurnýjun norræns samstarfs og var þar rætt um fyrirliggjandi skipulagsbreytingar á Norrænu ráðherranefndinni þar sem ákveðið var að fækka ráðherranefndum úr 18 í 11. Því næst var umræða um landamærahindranir og afnám þeirra. Þá fór fram fyrirspurnatími norrænu samstarfsráðherranna. Steingrímur J. Sigfússon beindi þeirri spurningu til Connie Hedegaard, samstarfsráðherra Danmerkur og formanns samstarfsráðherranna, hvernig Norðurlöndin ynnu saman til þess að sporna gegn ólöglegu vinnuafli. Það væri vandamál að ólöglegt vinnuafl kæmi til Norðurlanda sem ekki nyti sömu launa og réttinda og innlent vinnuafl. Hedegaard sagði ráðherranefndina hafa fylgst með þessum málum eftir stækkun ESB til austurs. Vandinn væri ekki stórvægilegur en atvinnumálaráðherrarnir fylgdust með þróun mála.
    Utanríkis- og varnarmálaumræðan fór fram eftir hádegi annan þingdag og fluttu ráðherrar þá skýrslur sínar. Rannveig Guðmundsdóttir, forseti Norðurlandaráðs, flutti jafnframt skýrslu forsætisnefndar Norðurlandaráðs um alþjóðlegt samstarf ráðsins. Minnti forseti á að löng hefð væri fyrir því að Norðurlandabúar sæktu út fyrir landsteinanna og nefndi siglingu Leifs Eiríkssonar til Norður-Ameríku sem dæmi. Sagði forseti samstarfið við Eystrasaltsþingið hornsteininn í starfi Norðurlandaráðs út á við og gerði grein fyrir niðurstöðum sameiginlegs fundar þessara aðila í Pärnu í Eistlandi þar sem ákvarðanir voru teknar um framtíðarskipulag samstarfsins. Sameiginlega munu Norðurlandaráð og Eystrasaltsríkin efla samstarfið við Norðvestur-Rússland og munu í þeim tilgangi styrkja tengslin við þingmenn rússneska sambandsráðsins og dúmunnar auk rússneskra svæðisþinga í norðvestri.
    Þá fylgdi umræða um samstarf á norðurslóðum þar sem samstarfsáætlun Norrænu ráðherranefndarinnar um norðurskautsmál var m.a. lögð fram. Forseti Norðurlandaráðs var áheyrnarfulltrúi ráðsins í Þingmannanefnd um norðurskautsmál og var forseti því talsmaður forsætisnefndar í málinu. Fagnaði forseti samstarfsáætluninni og undirstrikaði að rannsóknir á hinum hröðu loftslagsbreytingum við Norðurskautið sýndu hvaða þróunar væri að vænta víða um heim á næstu áratugum.
    Að kvöldi annars þingdags fór afhending verðlauna Norðurlandaráðs fram í Borgarleikhúsinu við hátíðlega athöfn. Athöfnin hófst á því að Eivör Pálsdóttir söngkona steig á svið og söng gamlar færeyskar vögguvísur. Því næst bauð Jónína Bjartmarz, formaður Íslandsdeildar Norðurlandaráðs, gesti velkomna. Jónína sagði Eivöru ekki einungis færeyska heldur væri hún norrænn listamaður sem tilheyrði okkur öllum rétt eins og segja mætti um verðlaunahafa kvöldsins. Jónína sagði verðlaunahafa Norðurlandaráðs fánabera fyrir Norðurlönd í heild sinni. Að baki hvers verðlaunahafa væri land og efalaust væri hver þjóð stolt af sínum sigurvegara en norræn samkennd væri fyrst og fremst ríkjandi þegar verðlaunin væru afhent. Rannveig Guðmundsdóttir, forseti Norðurlandaráðs, afhenti verðlaunin en verðlaunahafar voru Ann-Cecilie Norderhaug sem hlaut náttúru- og umhverfisverðlaunin, hljómsveitin Cikada sem fékk tónlistarverðlaunin, Per Fly sem hlaut kvikmyndaverðlaunin og Sjón sem hlaut bókmenntaverðlaunin (sjá nánar 4. kafla). Sagði forseti að þótt ekki mætti gera upp á milli verðlaunahafa þá yrði hún að fá að geta þess að það væri sérstaklega ánægjulegt að fá að afhenda íslenskum rithöfundi bókmenntaverðlaunin á Norðurlandaráðsþingi í Reykjavík. Að verðlaunaafhendingu lokinni bauð ríkisstjórn Íslands til kvöldverðar í Perlunni þar sem samstarfsráðherra Norðurlanda, Sigríður A. Þórðardóttir, var gestgjafi.
    Þriðji þingdagur hófst á umræðu um norræna menningarstefnu og því næst voru málefni fatlaðra á dagskrá. Þar var m.a. lögð fram tillaga um aðlögun laga og ákvæða sem varða málefni fatlaðra svo þau taki einnig til geðfatlaðra. Arnbjörg Sveinsdóttir tók til máls og gerði grein fyrir þeirri skoðun flokkahóps hægrimanna að úttekt yrði gerð á stöðu þessara mála sem svo gæti legið til grundvallar úrbótum. Þó minnti Arnbjörg á að hér væri um að ræða löggjöf einstakra landa sem lægi utan við hið norræna starf og að það væri ekki stefna að samræma löggjöf á Norðurlöndum.
    Þá tók við umræða um jafnréttis- og mannréttindamál. Fyrst var rætt um tillögu að norrænni samstarfsáætlun í jafnréttismálum 2006–2010. Steingrímur J. Sigfússon taldi tillöguna metnaðarlitla og að róttækari stefnu þyrfti til að taka á tveimur meginvandamálum í jafnréttismálum, kynbundnum launamun og ofbeldi gegn konum. Forsendu þess að takast af alvöru á við launamuninn sagði Steingrímur vera að afnema launaleynd og tryggja gagnsæi í launamálum. Varðandi ofbeldi gegn konum þyrfti að taka á klámiðnaðinum og herða baráttuna gegn vændi og mansali. Þá var rædd tillaga flokkahóps vinstrisósíalista og grænna um vatn sem sameiginlega auðlind. Meiri hluti borgara- og neytendanefndar lagði í nefndaráliti til að ekkert yrði aðhafst frekar með tillöguna. Steingrímur tók til máls og sagðist undrandi á afstöðu nefndarinnar og þeirri röksemdafærslu að Norðurlandaráð væri ekki rétti vettvangurinn fyrir slíkan tillöguflutning. Taldi Steingrímur tillöguna í takt við þá umræðu sem hefur farið fram um réttinn til vatns innan Sameinuðu þjóðanna og Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar og lýsti eftir því að nefndarmenn kynntu sér þá umfjöllun.
    Næst á dagskrá þingsins voru rannsóknir og nýsköpun og mælti Valgerður Sverrisdóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra, fyrir tillögu að norrænni samstarfsáætlun í iðnaðar- og atvinnumálum fyrir tímabilið 2006–2010. Markmið áætlunarinnar er að Norðurlönd haldi stöðu sinni sem leiðandi svæði á heimsvísu hvað varðar hagvöxt og samkeppnishæfni. Fjögur aðgerðasvið eru tiltekin í áætluninni, afnám landamærahindranna, nýsköpun, samstarf þeirra aðila sem vinna að eflingu atvinnulífs í hverju landi fyrir sig og samstarf við aðrar alþjóðastofnanir. Drífa Hjartardóttir, formaður efnahags- og viðskiptanefndar Norðurlandaráðs, mælti fyrir nefndaráliti um áætlunina og sagði margt í henni gott en þó hefði nefndin nokkrar athugasemdir. Fyrirséð væri að samkeppni við Kína og Indland yrði mikil áskorun fyrir rannsóknar- og fjárfestingarumhverfi á Norðurlöndum á næstu árum og að ekki væri tekið á hvernig Norðurlönd gætu mætt þeirri áskorun. Þá ætti nýsköpunarstefnan í ríkari mæli að miðast við norrænar aðstæður smárra fyrirtækja. Að síðustu skorti skilgreind markmið og forgangsröðun varðandi vinnu með landamærahindranir. Steingrímur J. Sigfússon tók einnig þátt í umræðunni og taldi áætlunina metnaðarlausa og að mun framsæknari hluti væri að finna í skýrslunni „Norðurlönd, sigursvæði á heimsvísu“. Lagði hann til að tillögur skýrslunnar yrðu teknar upp í samstarfsáætlunina.
    Þá fór fram umræða um norræna orkustefnu og mælti Valgerður Sverrisdóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra, fyrir tillögu að framkvæmdaáætlun fyrir norræna orkumálasamstarfið 2006–2009. Markmið þess er að tryggja framboð orku, samkeppnishæfni og sjálfbæra þróun. Þrjú helstu svið áætlunarinnar varða þróun orkumarkaða, sjálfbær orkukerfi og þátt Norðurlanda í alþjóðlegu starfi, m.a. hvað varðar takmörkun á losun gróðurhúsalofttegunda. Kolbrún Halldórsdóttir tók þátt í umræðunni, sem varamaður Steingríms J. Sigfússonar, og taldi það bera vott um tvöfalt siðgæði að halda áfram orkuframleiðslu í kjarnorkuverum á meðan talað væri um sjálfbæra þróun. Sömuleiðis færi stóriðjustefna íslenskra stjórnvalda ekki saman við sjálfbæra þróun.
    Við þinglok fóru fram kosningar í nefndir og kjör forseta og varaforseta Norðurlandaráðs. Danski þingmaðurinn Ole Stavad, flokkahópi jafnaðarmanna, var kjörinn forseti fyrir árið 2006 og landi hans Kristian Phil Loerentzen, flokkahópi miðjumanna, varaforseti. Í ræðu nýkjörins forseta kvaðst Ole Stavad hafa mikinn metnað fyrir hönd norræns samstarfs. Áfram yrði unnið að nánari tengingu milli starfs Norðurlandaráðs og starfsins í þjóðþingunum eins og kveðið hefði verið á um í viðræðum ársins við norrænu þingforsetanna. Brýnt væri að gera Norðurlandaráð sýnilegra og sjá til þess að það virkaði ekki út á við sem lokaður klúbbur. Því yrði samstarf og tenging málefnanefnda ráðsins og nefnda þjóðþinganna aukið. Stavad lýsti því markmiði sínu að Norðurlandaráðsþing yrði að árlegum leiðtogafundi ráðherra og flokksleiðtoga og markaði ekki einungis stefnu fyrir norrænt samstarf, heldur einnig fyrir samstarf Norðurlanda við ríkisstjórnir annarra landa og þjóðþing. Þá lagði Stavad áherslu á að Norðurlönd tækjust best á við áskoranir hnattvæðingar í samstarfi og að þau sköruðu þegar fram úr á heimsvísu, það staðfestu ýmsar alþjóðlegar mælingar á samkeppnishæfni og lífskjörum þjóða.
    Eftir kosningar í nefndir og ráð er nefndarseta Íslandsdeildar sem hér segir fyrir starfsárið 2006: Rannveig Guðmundsdóttir og Jónína Bjartmarz halda sætum sínum í forsætisnefnd. Í efnahags- og viðskiptanefnd situr Drífa Hjartardóttir sem formaður og Steingrímur J. Sigfússon sem varaformaður. Arnbjörg Sveinsdóttir tekur sæti í menningar- og menntamálanefnd, Ásta R. Jóhannesdóttir í umhverfis- og náttúruauðlindanefnd og Kjartan Ólafsson í borgara- og neytendanefnd. Kjartan er jafnframt í eftirlitsnefnd.
    Í lokaræðu þingsins þakkaði Rannveig Guðmundsdóttir, forseti Norðurlandaráðs, þátttakendum fyrir þrjá annasama en góða þingdaga í fallegu haustveðri í Reykjavík. Þar sem þetta var síðasta ræða forseta fyrir ráðinu notaði forseti tækifærið og þakkaði þingheimi samstarfið og stuðninginn á árinu. Forseti sagði það hafa verið heiður og forréttindi að leiða starf ráðsins og vera fulltrúi þess út á við og að forsetastarfið væri hápunkturinn á pólitískum ferli sínum. Þá óskaði forseti Ole Stavad til hamingju með kjörið og velfarnaðar í starfi forseta. Því næst sleit forseti 57. þingi Norðurlandaráðs.
    Næsta þing Norðurlandaráðs verður haldið í Kaupmannahöfn 31. október til 2. nóvember 2006.

8. Starfsáætlun og áherslur Norðurlandaráðs 2006.
    Í starfsáætlun Norðurlandaráðs fyrir árið 2006 er megináhersla lögð á fjögur svið. Þau eru áframhaldandi starf að afnámi landamærahindrana á Norðurlöndum, þróun norræns samstarfs og nánari tengsl Norðurlandaráðs við þjóðþingin, alþjóðlegt samstarf sem m.a. beinist að því að efla tengsl við Rússland og halda málefnum norðurskautsins á lofti. Hvað varðar málefnaáherslur einstakra nefnda Norðurlandaráðs fyrir árið 2006, þá leggur umhverfis- og náttúruauðlindanefnd sérstaka áherslu á lausn vandamála sem tengjast þörungablóma í Eystrasaltinu og umhverfismál hafsins á breiðum grundvelli. Borgara- og neytendanefnd beinir sjónum sínum að jafnréttismálum og baráttunni gegn skipulagðri glæpastarfsemi, einkum mansali. Að auki skoðar nefndin hvernig persónuvernd og réttarstöðu einstaklingsins er háttað í tengslum við baráttuna gegn hryðjuverkum. Efnahags- og viðskiptanefnd leggur m.a. áherslu á mál sem varða útvistun (e. outsourcing), samgöngu- og samskiptakerfi á jaðarsvæðum og efnahagslegar afleiðingar loftslagsbreytinga á norðurslóðum. Velferðarnefnd tekur geðheilbrigðismál á Norðurlöndum til áframhaldandi skoðunar. Menningar- og menntamálanefnd setur málefni sem varða norrænu tungumálin og tungumálaskilning á oddinn auk þess sem nefndin beinir sjónum sínum að þeim skipulagsbreytingum sem Norræna ráðherranefndin gengst nú fyrir í norræna menningarsamstarfinu.

Alþingi, 28. febr. 2006.



Jónína Bjartmarz,


form.


Drífa Hjartardóttir,


varaform.


Arnbjörg Sveinsdóttir.



Ásta R. Jóhannesdóttir.


Kjartan Ólafsson.





Fylgiskjal.


Tilmæli og ákvarðanir um innra starf
samþykkt á starfsárinu 2005.


     1.      Tilmæli 1/2005: Endurnýjuð stefna um sjálfbæra þróun 2005–2008 (B 225/miljø).
     2.      Tilmæli 2/2005: Aðgerðir til að efla umræður um sjálfbæra þróun á alþjóðavettvangi (B 225/miljø).
     3.      Tilmæli 3/2005: Framkvæmdaáætlun um norrænt samstarf á sviði umhverfismála 2005–2008 (B 223/miljø).
     4.      Tilmæli 4/2005: Aðgerðir til að efla umræður um umhverfismál á alþjóðlegum vettvangi (B 223/miljø).
     5.      Tilmæli 5/2005: Jafnréttisstefna í norrænu samstarfi (B 232/medborger).
     6.      Tilmæli 6/2005: Samkomulag milli norrænu landanna um gagnkvæm upplýsingaskipti til að koma í veg fyrir landamærahindranir (A 1367/presidiet).
     7.      Tilmæli 7/2005: Framkvæmdaáætlun um norrænt samstarf á sviði fiskveiða, landbúnaðar, skógræktar og matvæla 2005–2008 (B 224/miljø).
     8.      Tilmæli 8/2005: Endurnýjuð starfsáætlun um erfðaauðlindir í fiskveiðum, landbúnaði, skógrækt og matvælum á Norðurlöndum 2005–2008 (B 222/miljø).
     9.      Tilmæli 9/2005: Efnavörulöggjöf ESB, REACH (A 1368/medborger/miljø/næring).
     10.      Tilmæli 10/2005: Kröfur til hugbúnaðareinkaleyfis ESB (A 1372/næring).
     11.      Tilmæli 11/2005: Mat á tillögu ESB að tilskipun um hugbúnaðareinkaleyfi (A 1372/næring).
     12.      Tilmæli 12/2005: Staða orkumála á Norðurlöndum (A 1362/miljø).
     13.      Tilmæli 13/2005: Ráðstefna um spillingu (A 1373/medborger).
     14.      Tilmæli 14/2005: Nýtt skipulag Norrænu ráðherranefndarinnar (B 234/presidiet).
     15.      Tilmæli 15/2005: Rússlandsáætlun Norrænu ráðherranefndarinnar (B 239/presidiet),
     16.      Tilmæli 16/2005: Samstarfsáætlun Norrænu ráðherranefndarinnar um málefni Norðurskautsins 2006–2008 (B 236/presidiet).
     17.      Tilmæli 17/2005: Norrænt-baltneskt tengslanet frjálsra félagasamtaka (A 1352/kultur).
     18.      Tilmæli 18/2005: Norðurskautsrannsóknir (A 1370/kultur).
     19.      Tilmæli 19/2005: Þróun heilbrigðis- og atvinnumála meðal frumbyggja á Barentssvæðinu (A 1374/medborger).
     20.      Tilmæli 20/2005: Nýtt skipulag samstarfs á sviði menningarmála (B 241/kultur).
     21.      Tilmæli 21/2005: Fjárhættuspil og happdrætti á Norðurlöndum (A 1361/kultur).
     22.      Tilmæli 22/2005: Ráðherranefndartillaga um Hönnun fyrir alla – norræn framkvæmdaáætlun (B 237/velferd).
     23.      Tilmæli 23/2005: Aðlögun laga og ákvæða sem varða málefni fatlaðra svo þau taki einnig til geðfatlaðra (A 1344/välfärd).
     24.      Tilmæli 24/2005: Áætlun um norrænt samstarf á sviði jafnréttismála 2006–2010 (B 233/medborger).
     25.      Tilmæli 25/2005: Barátta gegn mansali (A 1371/medborger).
     26.      Tilmæli 26/2005: Skýrsla um baráttu gegn mansali (A 1371/medborger).
     27.      Tilmæli 27/2005: Norræn samstarfsáætlun í iðnaðar- og atvinnumálum 2006–2010 (B 238/næring).
     28.      Tilmæli 28/2005: Samanburðarúttekt á kennaramenntun á Norðurlöndum (A 1355/kultur).
     29.      Tilmæli 29/2005: Framkvæmdaáætlun um norrænt samstarf um orkumál 2006–2009 (B 235/miljø).
     30.      Tilmæli 30/2005: Fjárlög Norrænu ráðherranefndarinnar fyrir árið 2006.