Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 675. máls.

Þskj. 991  —  675. mál.



Frumvarp til laga

um breyting á lögum um fullnustu refsidóma, sem kveðnir hafa verið upp í Danmörku, Finnlandi, Noregi eða Svíþjóð, o.fl., nr. 69 12. desember 1963.

(Lagt fyrir Alþingi á 132. löggjafarþingi 2005–2006.)




1. gr.

    Við 20. gr. laganna bætist nýr málsliður er orðast svo: Dómsmálaráðherra er heimilt að fela lögreglustjóra eða öðrum aðila á landsvísu að ákveða hvort verða skuli við tilmælum skv. 1. gr.

2. gr.

    Við 26. gr. laganna bætist nýr málsliður er orðast svo: Dómsmálaráðherra er heimilt að fela lögreglustjóra eða öðrum aðila á landsvísu að bera fram tilmæli eftir ákvæði 2. gr.

3. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Frumvarp þetta er samið í dóms- og kirkjumálaráðuneytinu og er það liður í flutningi verkefna á vegum ráðuneytisins og stofnana þess til sýslumannsembætta utan höfuðborgarsvæðisins. Nánar tiltekið lýtur frumvarpið að breytingu á fyrirkomulagi hér á landi við framkvæmd innheimtu sekta og sakarkostnaðar á milli Norðurlandanna, en hingað til hefur hún farið fram fyrir milligöngu dóms- og kirkjumálaráðuneytisins.
    Eins og kunnugt er hefur verið ákveðið að flytja innheimtu sekta og sakarkostnaðar á landinu í heild til embættis sýslumannsins á Blönduósi, sbr. 1. mgr. 70. gr. laga um fullnustu refsinga, nr. 49 17. maí 2005, þar sem segir að dómsmálaráðherra sé heimilt að ákveða að innheimta sekta og sakarkostnaðar verði á hendi eins lögreglustjóra eða annars aðila á landsvísu.
    Þann 17. nóvember 2005 var skipuð undirbúningsnefnd sem hafði það hlutverk að undirbúa og skipuleggja uppsetningu innheimtumiðstöðvarinnar, og hefur nú verið ákveðið að innheimtumiðstöðin verði sett á fót í áföngum, þar sem gert er ráð fyrir yfirfærslu verkefna á tímabilinu frá apríl og fram í nóvember 2006.
    Lagt er til að hið nýja fyrirkomulag á framkvæmd innheimtu sekta og sakarkostnaðar taki líka til innheimtu slíkra krafna á milli Norðurlandanna, en eins og áður segir hefur sú vinnsla hingað til farið í gegnum ráðuneytið, sbr. lög um fullnustu refsidóma, sem kveðnir hafa verið upp í Danmörku, Finnlandi, Noregi eða Svíþjóð, o.fl. Í 1. gr. laganna kemur fram að á Íslandi megi fullnægja sektarrefsingu og sakarkostnaðarákvörðunum sem aðila hefur verið gerð í Danmörku, Finnlandi, Noregi eða Svíþjóð. Þá segir í 2. gr. laganna að sömuleiðis megi fullnægja í Danmörku, Finnlandi, Noregi eða Svíþjóð ákvörðunum sem gerðar hafa verið hér á landi sem eru sams konar þeim sem fjallað er um í 1. gr. laganna. Í 20. gr. laganna segir síðan að fullnusta refsingar og ákvörðun um umsjón hér á landi skv. 1. gr. laganna komi aðeins til framkvæmdar að tilmæli komi um slíkt frá þar til bærum aðila í Danmörku, Finnlandi, Noregi eða Svíþjóð. Dómsmálaráðherra ákveði hvort verða skuli við tilmælunum. Sömuleiðis segir í 26. gr. laganna að dómsmálaráðuneytið beri fram tilmæli til stjórnvalda í Danmörku, Finnlandi, Noregi eða Svíþjóð um fullnustu refsingar o.fl. og um framkvæmd umsjónar eftir ákvæðum 2. gr. laganna. Til þess að Innheimtumiðstöð sekta og sakarkostnaðar sem staðsett verður á Blönduósi geti tekið yfir það hlutverk dómsmálaráðuneytisins sem mælt er fyrir um í 20. og 26. gr. laganna að því er varðar fullnustu sektarrefsinga og sakarkostnaðarákvarðana, sbr. 1. og 2. gr. laganna, þarf því að koma til breyting á lögunum, sbr. 1. og 2. gr. frumvarps þessa.



Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um breyting á lögum nr. 69/1963, um fullnustu refsidóma, sem kveðnir hafa verið upp í Danmörku, Finnlandi,
Noregi eða Svíþjóð, o.fl.

    Frumvarpið miðar að breyttu fyrirkomulagi hér á landi við framkvæmd innheimtu sekta og sakarkostnaðar á milli Norðurlandanna, sem dóms- og kirkjumálaráðuneytið hefur annast hingað til. Samkvæmt frumvarpinu verður heimilt að fela lögreglustjóra eða öðrum aðila á landsvísu að afgreiða slík mál og er áformað að verkefnið verði fært til sýslumannsembættisins á Blönduósi, sem einnig mun hafa með höndum innheimtumiðstöð fyrir allar sektir og sakarkostnað hér á landi. Ekki er gert ráð fyrir að lögfesting frumvarpsins hafi í för með sér útgjöld fyrir ríkissjóð.