Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 686. máls.

Þskj. 1003  —  686. mál.



Tillaga til þingsályktunar

um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 102/2005, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

(Lögð fyrir Alþingi á 132. löggjafarþingi 2005–2006.)




    Alþingi ályktar að heimila ríkisstjórninni að staðfesta fyrir Íslands hönd ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 102/2005 frá 8. júlí 2005, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn frá 2. maí 1992, og að fella inn í samninginn tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2001/77/EB frá 27. september 2001 um að auka framleiðslu rafmagns með endurnýjanlegum orkugjöfum til notkunar á innri raforkumarkaði.

Athugasemdir við þingsályktunartillögu þessa.


1. Inngangur.
    Með þingsályktunartillögu þessari er leitað heimildar Alþingis til staðfestingar á ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 102/2005 frá 8. júlí 2005, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn frá 2. maí 1992, og til að fella inn í samninginn tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2001/77/EB frá 27. september 2001 um að auka framleiðslu rafmagns með endurnýjanlegum orkugjöfum til notkunar á innri raforkumarkaði.
    Ákvörðun þessi kallar á lagabreytingar hér á landi og var tekin af sameiginlegu EES- nefndinni með stjórnskipulegum fyrirvara af Íslands hálfu. Í tillögu þessari er gerð nánari grein fyrir því hvað felst í slíkum fyrirvara, sbr. 103. gr. EES-samningsins. Jafnframt er gerð grein fyrir efni þeirrar gerðar sem hér um ræðir. Gerð þessi felur ekki í sér breytingar á þeim meginreglum sem í EES-samningnum felast.
    Ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar sem hér um ræðir er prentuð sem fylgiskjal með tillögu þessari ásamt gerðinni sjálfri.

2. Um stjórnskipulegan fyrirvara.
    EES-samningurinn er reglulega uppfærður með breytingum á viðaukum og bókunum við samninginn. Ákvarðanir um þessar breytingar eru teknar í sameiginlegu EES-nefndinni og með þær hefur ávallt verið farið sem hverja aðra þjóðréttarsamninga. Samkvæmt EES-samningnum skuldbinda þær aðildarríkin að þjóðarétti um leið og þær hafa verið teknar, nema eitthvert þeirra beiti heimild í 103. gr. EES-samningsins til að setja fyrirvara um að ákvörðun geti ekki orðið bindandi strax vegna stjórnskipulegra skilyrða heima fyrir. Viðkomandi aðildarríki hefur þá sex mánaða frest frá töku ákvörðunar í sameiginlegu nefndinni til að aflétta fyrirvaranum. Að því er Ísland varðar hefur slíkur fyrirvari almennt einungis verið settur þegar innleiðing ákvörðunar kallar á lagabreytingar hér landi, en í því tilviki leiðir af 21. gr. stjórnarskrárinnar að leita ber eftir samþykki Alþingis áður en ákvörðun er staðfest. Slíkt samþykki getur Alþingi alltaf veitt með viðeigandi lagabreytingu, en einnig hefur tíðkast að heimila stjórnvöldum að skuldbinda sig að þjóðarétti með þingsályktun áður en landsréttinum er með lögum breytt til samræmis við viðkomandi ákvörðun. Í seinni tíð hefur það verið viðtekinn háttur við staðfestingu þeirra ákvarðana sameiginlegu EES-nefndarinnar, sem krefst lagabreytinga að innleiða, enda kemur hvortveggja til, að frestur til að aflétta hinum stjórnskipulega fyrirvara er tiltölulega skammur, auk þess sem ekki er alltaf tímabært að innleiða ákvörðun um leið og hún er tekin

3. Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2001/77/EB frá 27. september 2001 um að auka framleiðslu rafmagns með endurnýjanlegum orkugjöfum til notkunar á innri raforkumarkaði.
    Markmið gerðarinnar er að hvetja til frekari notkunar á raforku sem framleidd er með endurnýjanlegum orkugjöfum. Er þetta gert í því skyni að freista þess að draga úr umhverfisáhrifum raforkuframleiðslu sem ekki byggist á endurnýjanlegum orkugjöfum.
    Gert er ráð fyrir að hvert ríki setji sér markmið um að auka raforkuframleiðslu sem byggist á endurnýjanlegum orkulindum. Viðmiðunarár er árið 1997 og skulu ríkin setja sér markmið fyrir árið 2010. Sameiginlegt markmið ESB fyrir árið 2010 er 22% en raunveruleg framleiðsla raforku úr endurnýjanlegum orkugjöfum var árið 1997 13,9%. Markmið þau sem aðildarríki setja sér samkvæmt tilskipuninni eru ekki bindandi fyrir aðildarríkin þannig að það hefur engar afleiðingar í för með sér þó að markmiðin náist ekki.
    Breytingar sem gera þarf á lögum hérlendis varða tilkynningar um hlutfall raforkuframleiðslu úr endurnýjanlegum orkulindum og vottorð um uppsprettu orkunnar.
    Markmið það sem lagt hefur verið til af Íslands hálfu er að 99,5% af raforku verði framleidd með endurnýjanlegum orkugjöfum árið 2010. Markmið þetta er nokkuð undir meðaltali áranna 1991–2003 sem liggur nærri 99,9%. Sjónarmið er varða áhrif veðurfars á vatnshæð lóna og hugsanlegar bilanir í flutnings- og dreifkerfum raforku ráða því að lagt er til að markmið Íslands verði nokkru lægra en fyrrgreint meðaltal.



Fylgiskjal I.


ÁKVÖRÐUN SAMEIGINLEGU EES-NEFNDARINNAR nr. 102/2005

frá 8. júlí 2005

um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn


SAMEIGINLEGA EES-NEFNDIN HEFUR,

með hliðsjón af samningnum um Evrópska efnahagssvæðið, með áorðnum breytingum samkvæmt bókun um breytingu á samningnum um Evrópska efnahagssvæðið, er nefnist hér á eftir „samningurinn“, einkum 98. gr.,


og að teknu tilliti til eftirfarandi:

1)        IV. viðauka við samninginn var breytt með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 43/2005 frá 11. mars 2005 ( 1 ).

2)         Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2001/77/EB frá 27. september 2001 um að auka framleiðslu rafmagns með endurnýjanlegum orkugjöfum til notkunar á innri raforkumarkaði ( 2 ) skal felld inn í samninginn.

ÁKVEÐIÐ EFTIRFARANDI:

1. gr.


Eftirfarandi liður bætist við á eftir 18. lið (reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 2422/2001) í IV. viðauka við samninginn:

„19.              32001 L 0077: Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2001/77/EB frá 27. september 2001 um að auka framleiðslu rafmagns með endurnýjanlegum orkugjöfum til notkunar á innri raforkumarkaði (Stjtíð. EB L 283, 27.10.2001, bls. 33).

                Ákvæði tilskipunarinnar skulu, að því er samning þennan varðar, aðlöguð sem hér segir:

                a)    Tilskipun þessi gildir ekki í Liechtenstein.

                b)    Í stað dagsetninganna „27. október 2002“ í 2. mgr. 3. gr. og „27. október 2003“ í 3. mgr. 3. gr., 1. mgr. 5. gr. og 2. mgr. 6. gr. komi orðin „sex mánuðum eftir að ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 102/2005 frá 8. júlí 2005 öðlast gildi“.

                c)    Í stað orðanna „Bandalagið hefur“ í öðrum undirlið 2. mgr. 3. gr. komi orðin „EFTA-ríkin hafa“.

                d)    Ákvæði 8. mgr. bókunar 1 skulu ekki gilda um annan undirlið 4. mgr. 3. gr.

                e)    Í stað orðanna „87. og 88. gr. sáttmálans“ í 1. mgr. 4. gr. komi orðin „61. og 62. gr. EES-samningsins“. Í stað orðanna „6. og 174. gr. sáttmálans“ komi orðin „73. gr. EES-samningsins“.

                f)    Í viðaukanum bætist eftirfarandi við:

                    “

Ísland 5,58 99,90 99,50 (7)
Noregur 110,95 96,30 90,00 (8)

                    

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



                        ( 7)    Að því er Ísland varðar er talan tilgreind með þeim fyrirvara að engar breytingar verði á samtengingu við önnur raforkukerfi. Sökum mikilla áhrifa veðurfars á raforkuframleiðslu með vatnsafli, raforkueftirspurn og truflana á raforkudreifingu er sömuleiðis rétt að reikna töluna fyrir árið 2010 með hliðsjón af langtímalíkani þar sem tekið er mið af vatnsbúskap og veðurfari.

                        ( 8)    Hvort Norðmenn geta náð 90 hundraðshluta takmarkinu er undir því komið að rafmagnsnotkun aukist ekki meira en sem nemur 1 % á ári. Það svarar til þess að orkuframleiðsla með endurnýjanlegum orkugjöfum verði aukin um því sem næst 6–7 TWh frá 1997 til 2010.

                                Vegna verulegra sveiflna í raforkuframleiðslu með vatnsafli í Noregi getur hugsast að Norðmenn þurfi að hafa hliðsjón af meðaltali raforkuframleiðslugetu með vatnsafli í skýrslum um leiðbeinandi markmið.“ “

2. gr.


Íslenskur og norskur texti tilskipunar 2001/77/EB, sem verður birtur í EES-viðbæti við Stjórnartíðindi Evrópusambandsins, telst fullgiltur.

3. gr.


Ákvörðun þessi öðlast gildi hinn 9. júlí 2005 að því tilskildu að allar tilkynningar samkvæmt 1. mgr. 103. gr. samningsins hafi borist sameiginlegu EES-nefndinni ( * ).

4. gr.


Ákvörðun þessi skal birt í EES-deild Stjórnartíðinda Evrópusambandsins og EES-viðbæti við þau.


Gjört í Brussel 8. júlí 2005.

     Fyrir hönd sameiginlegu EES-nefndarinnar
    Formaður

    Nikulás prins af Liechtenstein


    Ritarar
    sameiginlegu EES-nefndarinnar

    Ø. Hovdkinn     M. Brinkmann
Fylgiskjal II.


TILSKIPUN EVRÓPUÞINGSINS OG RÁÐSINS 2001/77/EB
frá 27. september 2001
um að auka framleiðslu rafmagns með endurnýjanlegum orkugjöfum til notkunar á innri raforkumarkaði


EVRÓPUÞINGIÐ OG RÁÐ EVRÓPUSAMBANDSINS HAFA,
með hliðsjón af stofnsáttmála Evrópubandalagsins, einkum 1. mgr. 175. gr.,
með hliðsjón af tillögu framkvæmdastjórnarinnar ( 1 ),
með hliðsjón af áliti efnahags- og félagsmálanefndarinnar ( 2 ),
með hliðsjón af áliti svæðanefndarinnar ( 3 ),
í samræmi við málsmeðferðina sem mælt er fyrir um í 251. gr. sáttmálans ( 4 ),
og að teknu tilliti til eftirfarandi:
1)          Eins og sakir standa er möguleikinn á að nýta endurnýjanlega orkugjafa vannýttur í Bandalaginu. Bandalagið viðurkennir að þörfin á að efla endurnýjanlega orkugjafa er forgangsatriði þar eð nýting þeirra stuðlar að umhverfisvernd og sjálfbærri þróun. Þar að auki getur það skapað atvinnu, haft jákvæð áhrif á félagslega samheldni, stuðlað að öruggu orkuframboði og flýtt fyrir því að markmiðum Kýótóbókunarinnar verði náð. Því er nauðsynlegt að tryggja að þessi möguleiki sé nýttur betur innan ramma innri raforkumarkaðarins.
2)          Rík áhersla er lögð á það í Bandalaginu, eins og gerð er grein fyrir í hvítbók um endurnýjanlega orkugjafa (hér á eftir nefnd „hvítbókin“), að auka framleiðslu rafmagns með endurnýjanlegum orkugjöfum með tilliti til þess að tryggja orkuframboð og stuðla að fjölbreytileika orkugjafa, umhverfisvernd og félagslegri og efnahagslegri samheldni. Ráðið studdi þetta í ályktun sinni frá 8. júní 1998 um endurnýjanlega orkugjafa ( 5 ) og Evrópuþingið í ályktun sinni um hvítbókina ( 6 ).
3)          Aukin notkun rafmagns, sem er framleitt með endurnýjanlegum orkugjöfum, er mikilvægur hluti þeirra ráðstafana, sem eru nauðsynlegar til að fara að Kýótóbókuninni við rammasamning Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar og öðrum stefnumiðuðum ráðstöfunum til að standa við frekari skuldbindingar.
4)          Í niðurstöðum ráðsins frá 11. maí 1999 og ályktun Evrópuþingsins frá 17. júní 1998 um rafmagn frá endurnýjanlegum orkugjöfum ( 7 ) var framkvæmdastjórnin hvött til að leggja fram raunhæfa tillögu um rammaákvæði Bandalagsins um aðgang að innri markaðnum fyrir rafmagn sem er framleitt með endurnýjanlegum orkugjöfum. Í ályktun sinni frá 30. mars 2000 um rafmagn frá endurnýjanlegum orkugjöfum og innri markaðinn ( 8 ) lagði Evrópuþingið enn fremur áherslu á að bindandi og metnaðarfull markmið um endurnýjanlega orku á landsvísu væru afar nauðsynleg til að ná árangri og til að ná markmiðum Bandalagsins.
5)          Í því skyni að tryggja til meðallangs tíma aukna markaðssókn rafmagns, sem er framleitt með endurnýjanlegum orkugjöfum, skulu öll aðildarríkin setja sér innlend, leiðbeinandi markmið um notkun rafmagns sem er framleitt með endurnýjanlegum orkugjöfum.
6)          Þessi innlendu, leiðbeinandi markmið skulu vera í samræmi við innlendar skuldbindingar sem Bandalagið hefur samþykkt um loftlagsbreytingar samkvæmt Kýótóbókuninni.
7)          Framkvæmdastjórnin skal meta að hve miklu leyti aðildarríkjunum hefur miðað í þá átt að ná innlendum, leiðbeinandi markmiðum og að hve miklu leyti hin innlendu, leiðbeinandi markmið eru í samræmi við hið leiðbeinandi heildarmarkmið um 12% af heildarorkunotkun innanlands eigi síðar en árið 2010, með hliðsjón af því að leiðbeinandi markmið hvítbókarinnar um 12% af heildarorkunotkun í öllu Bandalaginu eigi síðar en árið 2010 veitir gagnlegar leiðbeiningar um aukið átak á vettvangi Bandalagsins sem og í aðildarríkjunum, að teknu tilliti til mismunandi innlendra aðstæðna. Ef það er nauðsynlegt til að ná markmiðunum skal framkvæmdastjórnin leggja fyrir Evrópuþingið og ráðið tillögur sem kunna að fela í sér lögboðin markmið.
8)          Ef aðildarríkin nota úrgang sem orkugjafa verða þau að fara að gildandi löggjöf Bandalagsins um meðhöndlun úrgangs. Beiting þessarar tilskipunar er með fyrirvara um skilgreiningar í 2. viðauka a og b við tilskipun ráðsins 75/442/EBE frá 15. júlí 1975 um úrgang ( 1 ). Stuðningur við endurnýjanlega orkugjafa skal vera í samræmi við önnur markmið Bandalagsins, einkum að því er varðar forgangsröðunarkerfi vegna meðhöndlunar úrgangs. Þar af leiðandi mega stuðningskerfi fyrir endurnýjanlega orkugjafa ekki stuðla að brennslu óflokkaðs húsasorps ef það kann að grafa undan forgangsröðunarkerfinu.
9)          Sú skilgreining á lífmassa, sem er notuð í þessari tilskipun, útilokar ekki aðra skilgreiningu í innlendri löggjöf í öðrum tilgangi en fram kemur í þessari tilskipun.
10)          Með þessari tilskipun er þess ekki krafist að aðildarríkin viðurkenni kaup á upprunaábyrgð frá öðrum aðildarríkjum eða samsvarandi kaup á rafmagni sem lið í því að standa við innlenda kvótaskyldu. Samt sem áður er upprunaábyrgð á slíku rafmagni nauðsynleg til að greiða fyrir viðskiptum með rafmagn, sem er framleitt með endurnýjanlegum orkugjöfum, og til að auka gagnsæi varðandi möguleika notenda á að velja milli rafmagns, sem er framleitt með óendurnýjanlegum orkugjöfum, og rafmagns sem er framleitt með endurnýjanlegum orkugjöfum. Kerfi fyrir upprunaábyrgð fela sem slík ekki í sér rétt til þess að njóta góðs af innlendum stuðningskerfum sem komið er á í aðildarríkjunum. Mikilvægt er að allt rafmagn, sem er framleitt með endurnýjanlegum orkugjöfum, falli undir slíka upprunaábyrgð.
11)          Mikilvægt er að gera skýran greinarmun á upprunaábyrgðum og skiptanlegum, grænum vottorðum.
12)          Þörfin á opinberum stuðningi við endurnýjanlega orkugjafa er viðurkennd í viðmiðunarreglum Bandalagsins um ríkisaðstoð til umhverfisverndar ( 2 ) þar sem, meðal annarra valkosta, er tekið tillit til þess að þörf er á því að stuðningurinn nái yfir ytri kostnað við rafmagnsframleiðslu. Ákvæði sáttmálans, einkum 87. og 88. gr., gilda þó áfram um slíkan opinberan stuðning.
13)          Setja þarf lagaramma fyrir markaðinn fyrir endurnýjanlega orkugjafa.
14)          Aðildarríkin reka mismunandi stuðningskerfi fyrir endurnýjanlega orkugjafa á landsvísu, þ.m.t. græn vottorð, fjárfestingaraðstoð, undanþágur frá skatti eða skattalækkanir, skattendurgreiðslur og beinar niðurgreiðslur. Mikilvæg úrræði til að ná markmiði þessarar tilskipunar er að tryggja að öll þessi kerfi starfi eðlilega uns rammaákvæðum Bandalagsins hefur verið hrint í framkvæmd þannig að tiltrú fjárfesta haldist.
15)          Með tilliti til þess hve reynslan af innlendum kerfum er lítil og hve hluti rafmagns, sem er framleitt með endurnýjanlegum orkugjöfum og fellur undir niðurgreiðslur í Bandalaginu, er tiltölulega lítill er of snemmt að setja rammaákvæði fyrir allt Bandalagið um stuðningskerfi.
16)          Samt sem áður er nauðsynlegt, eftir nægilega langt aðlögunartímabil, að laga stuðningskerfin að þróun innri raforkumarkaðarins. Því þykir rétt að framkvæmdastjórnin fylgist með stöðu mála og leggi fram skýrslu um reynsluna af beitingu innlendra kerfa. Ef þörf er á skal framkvæmdastjórnin, í ljósi niðurstaðna þeirrar skýrslu, leggja fram tillögu um rammaákvæði Bandalagsins um stuðningskerfi fyrir rafmagn sem er framleitt með endurnýjanlegum orkugjöfum. Tillagan skal stuðla að því að innlend, leiðbeinandi markmið náist, vera samrýmanleg meginreglum innri raforkumarkaðarins og við gerð hennar skal taka tillit til eiginleika mismunandi endurnýjanlegra orkugjafa, mismunandi tækni og landfræðilegs mismunar. Hún skal einnig stuðla að skilvirkri notkun endurnýjanlegra orkugjafa, vera einföld en jafnframt eins skilvirk og unnt er, einkum með tilliti til kostnaðar, ná yfir nægilega löng aðlögunartímabil, sem eru minnst sjö ár, viðhalda tiltrú fjárfesta og forðast að óafturkræfur kostnaður (stranded costs) myndist. Rammaákvæðin hefðu þau áhrif að rafmagn, sem er framleitt með endurnýjanlegum orkugjöfum, yrði samkeppnishæft gagnvart rafmagni, sem er framleitt með óendurnýjanlegum orkugjöfum, og myndu takmarka kostnað notenda jafnframt því að minnka til meðallangs tíma þörfina fyrir opinberan stuðning.
17)          Aukin markaðssókn rafmagns, sem er framleitt með endurnýjanlegum orkugjöfum, býður upp á stærðarhagkvæmni og dregur þar með úr kostnaði.
18)          Mikilvægt er að nota markaðsöflin og innri markaðinn og gera rafmagn, sem er framleitt með endurnýjanlegum orkugjöfum, samkeppnishæft og aðlaðandi í augum evrópskra borgara.
19)          Þegar stuðlað er að þróun markaðarins fyrir endurnýjanlega orkugjafa er nauðsynlegt að taka tillit til jákvæðra áhrifa á svæðis- og staðbundna þróunarmöguleika, útflutningsmöguleika, félagslega samheldni og atvinnutækifæri, einkum að því er varðar lítil og meðalstór fyrirtæki og sjálfstæða orkuframleiðendur.
20)          Taka verður tillit til sérstakrar uppbyggingar geirans fyrir endurnýjanlega orkugjafa, einkum við endurskoðun á stjórnsýslureglum um leyfi til byggingar orkuvera sem framleiða rafmagn með endurnýjanlegum orkugjöfum.
21)          Við tilteknar aðstæður er ekki unnt að tryggja að fullu flutning og dreifingu rafmagns, sem er framleitt með endurnýjanlegum orkugjöfum, án þess að það hafi áhrif á áreiðanleika og öryggi veitukerfisins og því geta ábyrgðir verið í formi jöfnunargreiðslna í þessu sambandi.
22)          Kostnaður við að tengja nýja framleiðendur rafmagns frá endurnýjanlegum orkugjöfum skal vera hlutlægur, gagnsær og án mismununar og taka skal viðeigandi tillit til þess ávinnings sem fæst með aðild raforkuframleiðenda að veitukerfinu.
23)          Þar sem aðildarríkin geta ekki fyllilega náð þeim almennu markmiðum sem fyrirhugaðar aðgerðir fela í sér og auðveldara er að ná markmiðunum á vettvangi Bandalagsins vegna þess hve aðgerðirnar eru umfangsmiklar og hafa víðtæk áhrif, er Bandalaginu heimilt að samþykkja ráðstafanir í samræmi við dreifræðisregluna eins og fram kemur í 5. gr. sáttmálans. Það er þó undir aðildarríkjunum komið að útfæra þær þannig að hvert aðildarríki geti valið það fyrirkomulag sem best hentar aðstæðum í því ríki. Í samræmi við meðalhófsregluna, eins og hún er sett fram í þeirri grein, ganga ákvæði þessarar tilskipunar ekki lengra en nauðsynlegt er til að þessum markmiðum verði náð.
SAMÞYKKT TILSKIPUN ÞESSA:

1. gr.
Markmið

Markmiðið með þessari tilskipun er að stuðla að auknum hlut endurnýjanlegra orkugjafa til rafmagnsframleiðslu á innri rafmagnsmarkaðnum og að skapa grundvöll fyrir rammaákvæði Bandalagsins þar að lútandi.

2. gr.
Skilgreiningar

Í þessari tilskipun er merking eftirfarandi hugtaka sem hér segir:
a)    „endurnýjanlegir orkugjafar“: endurnýjanlegir orkugjafar sem eru ekki jarðefnaeldsneyti (vindorka, sólarorka, jarðvarmaorka, öldu- og sjávarfallaorka, vatnsorka og orka úr lífmassa, hauggasi, gasi frá skólphreinsunarstöðvum og lífgasi),
b)    „lífmassi“: lífbrjótanlegur hluti afurða, úrgangs og efnaleifa frá landbúnaði (þ.m.t. efni úr bæði jurta- og dýraríkinu), skógrækt og tengdum atvinnugreinum, auk lífbrjótanlegs hluta iðnaðarúrgangs og húsasorps,
c)    „rafmagn sem er framleitt með endurnýjanlegum orkugjöfum“: rafmagn frá orkuverum sem eingöngu nota endurnýjanlega orkugjafa, auk rafmagns sem er framleitt með endurnýjanlegum orkugjöfum í verum með blandaðri tækni, þar sem einnig eru notaðir hefðbundnir orkugjafar, og að meðtöldu endurnýjanlegu rafmagni sem er notað til að fylla geymslukerfi og að undanskildu rafmagni sem er framleitt á grundvelli slíkra kerfa,
d)    „rafmagnsnotkun“: innlend rafmagnsframleiðsla, þ.m.t. eigin framleiðsla, plús innflutningur, mínus útflutningur (heildarrafmagnsnotkun innanlands).
Þar að auki gilda þær skilgreiningar sem fram koma í tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 96/92/EB frá 19. desember 1996 um sameiginlegar reglur um innri markað á sviði raforku ( 1 ).

3. gr.
Innlend, leiðbeinandi markmið

1.     Aðildarríkin skulu gera viðeigandi ráðstafanir til að stuðla að meiri notkun rafmagns, sem er framleitt með endurnýjanlegum orkugjöfum, í samræmi við þau innlendu, leiðbeinandi markmið sem um getur í 2. mgr. Þessar ráðstafanir verða að vera í hlutfalli við markmiðið sem stefnt er að.
2.     Eigi síðar en 27. október 2002 og á fimm ára fresti þaðan í frá skulu aðildarríkin samþykkja og birta skýrslu, þar sem sett eru innlend, leiðbeinandi markmið um væntanlega notkun rafmagns, sem er framleitt með endurnýjanlegum orkugjöfum, sett fram sem hlutfall af rafmagnsnotkun á næstu tíu árum. Í skýrslunni skal einnig gera grein fyrir ráðstöfunum, sem eru gerðar eða fyrirhugaðar á innlendum vettvangi, til að ná þessum innlendu, leiðbeinandi markmiðum. Við setningu markmiðanna fram til ársins 2010 skulu aðildarríkin:
—    taka tillit til viðmiðunargildanna í viðaukanum,
—    sjá til þess að markmiðin samrýmist innlendum skuldbindingum í tengslum við skuldbindingar um loftslagsbreytingar sem Bandalagið hefur samþykkt með skírskotun til Kýótóbókunarinnar við rammasamning Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar.
3.     Aðildarríkin skulu, í fyrsta skipti eigi síðar en 27. október 2003 og á tveggja ára fresti þaðan í frá, birta skýrslu sem skal innihalda greiningu á því hvernig tekist hefur að ná innlendum, leiðbeinandi markmiðum, einkum með tilliti til loftslagsþátta sem geta haft áhrif á það hvort hægt er að ná markmiðunum, og tilgreina að hve miklu leyti ráðstafanirnar, sem eru gerðar, eru í samræmi við innlendar skuldbindingar um loftslagsbreytingar.
4.     Á grundvelli skýrslnanna frá aðildarríkjunum, sem um getur í 2. og 3. mgr., skal framkvæmdastjórnin meta að hve miklu leyti:
—    aðildarríkjunum hefur miðað í þá átt að ná þeim innlendu, leiðbeinandi markmiðum sem þau hafa sett sér,
—    hin innlendu, leiðbeinandi markmið samrýmast hinu leiðbeinandi heildarmarkmiði um 12% af heildarorkunotkun innanlands eigi síðar en árið 2010, einkum markmiðinu um 22,1% af leiðbeinandi hlut rafmagns, sem er framleitt með endurnýjanlegum orkugjöfum, í allri rafmagnsnotkun í Bandalaginu eigi síðar en árið 2010.
Framkvæmdastjórnin skal, í fyrsta skipti eigi síðar en 27. október 2004 og á tveggja ára fresti þaðan í frá, birta niðurstöður sínar í skýrslu. Skýrslunni skulu fylgja tillögur til Evrópuþingsins og ráðsins eftir því sem við á.
Ef sú ályktun er dregin í skýrslunni að líklegt sé að hin innlendu, leiðbeinandi markmið, sem um getur í annarri undirgrein, séu ekki í samræmi við hið leiðbeinandi heildarmarkmið, af ástæðum sem eru óréttmætar og/eða tengjast ekki nýjum rannsóknarniðurstöðum, skal í þessum tillögum setja innlend markmið, þ.m.t. hugsanleg, lögboðin markmið, í viðeigandi mynd.

4. gr.
Stuðningskerfi

1.     Með fyrirvara um 87. og 88. gr. sáttmálans skal framkvæmdastjórnin meta beitingu þeirra kerfa í aðildarríkjunum sem framleiðandi rafmagns, á grundvelli reglugerða sem opinber yfirvöld gefa út, hefur beinan eða óbeinan stuðning af, og sem geta haft þau áhrif að takmarka viðskipti, á þeim grundvelli að þessi kerfi stuðli að því að hægt sé að ná markmiðunum sem sett eru fram í 6. og 174. gr. sáttmálans.
2.     Eigi síðar en 27. október 2005 skal framkvæmdastjórnin leggja fram vel skjalfesta skýrslu um reynsluna af notkun mismunandi kerfa og samhliða rekstri þeirra sem um getur í 1. mgr. Í skýrslunni skal leggja mat á hvernig hefur tekist með stuðningskerfunum, sem um getur í 1. mgr., að auka notkun rafmagns, sem er framleitt með endurnýjanlegum orkugjöfum, í samræmi við þau innlendu, leiðbeinandi markmið, sem um getur í 2. mgr. 3. gr., þ.m.t. er mat á kostnaðarhagkvæmni. Skýrslunni skal fylgja, ef við á, tillaga um rammaákvæði Bandalagsins um stuðningskerfi fyrir rafmagn sem er framleitt með endurnýjanlegum orkugjöfum.
Sérhver tillaga um rammaákvæði skal:
a)    stuðla að því að innlendum, leiðbeinandi markmiðum verði náð,
b)    samrýmast meginreglum innri raforkumarkaðarins,
c)    gerð með tilliti til eiginleika mismunandi, endurnýjanlegra orkugjafa, mismunandi tækni og landfræðilegs mismunar,
d)    stuðla að skilvirkri notkun endurnýjanlegra orkugjafa, vera einföld en jafnframt eins skilvirk og unnt er, einkum að því er varðar kostnað,
e)    ná yfir nægilega löng aðlögunartímabil, sem eru minnst sjö ár, og viðhalda tiltrú fjárfesta.

5. gr.
Upprunaábyrgð á rafmagni sem er framleitt með endurnýjanlegum orkugjöfum

1.     Eigi síðar en 27. október 2003 skulu aðildarríkin sjá til þess að rafmagn frá endurnýjanlegum orkugjöfum sé í raun framleitt með slíkum orkugjöfum í skilningi þessarar tilskipunar í samræmi við viðmiðanir sem eru hlutlægar, gagnsæjar og án mismununar og sem einstök aðildarríki hafa mælt fyrir um. Þau skulu sjá til þess að upprunaábyrgð sé gefin út þar að lútandi samkvæmt beiðni.
2.     Aðildarríkjunum er heimilt að tilnefna eina eða fleiri þar til bærar stofnanir, sem eru óháðar rafmagnsframleiðendum og dreifingarstarfsemi, til að hafa eftirlit með útgáfu slíkra upprunaábyrgða.
3.     Upprunaábyrgð skal:
—    tilgreina með hvaða orkugjafa rafmagnið var framleitt, hvenær og hvar það var framleitt og, ef um raforkuver er að ræða, tilgreina afkastagetu,
—    gera framleiðendum rafmagns frá endurnýjanlegum orkugjöfum kleift að sýna fram á að rafmagnið, sem þeir selja, sé framleitt með endurnýjanlegum orkugjöfum í skilningi þessarar tilskipunar.
4.     Í aðildarríkjunum skulu síkar upprunaábyrgðir, sem eru gefnar út skv. 2. mgr., viðurkenndar gagnkvæmt sem sönnun á þeim þáttum eingöngu sem um getur í 3. mgr. Synjun þess að viðurkenna upprunaábyrgð sem slíka sönnun, einkum af ástæðum sem tengjast því að koma í veg fyrir svik, verður að byggjast á viðmiðunum sem eru hlutlægar, gagnsæjar og án mismununar. Ef viðurkenningu á upprunaábyrgð er synjað er framkvæmdastjórninni heimilt að skylda viðkomandi aðila til að viðurkenna ábyrgðina, einkum að því er varðar viðmiðanir, sem eru hlutlægar, gagnsæjar og án mismununar, og sem viðurkenningin byggist á.
5.     Aðildarríkin eða þar til bærar stofnanir skulu taka upp kerfi í því skyni að tryggja að upprunaábyrgðir séu bæði nákvæmar og áreiðanlegar og í skýrslunni, sem um getur í 3. mgr. 3. gr., skulu þau lýsa þeim ráðstöfunum sem eru gerðar til að tryggja áreiðanleika ábyrgðarkerfisins.
6.     Að höfðu samráði við aðildarríkin skal framkvæmdastjórnin, í skýrslunni sem um getur í 8. gr., lýsa því á hvaða hátt og með hvaða aðferðum aðildarríkin geta ábyrgst uppruna rafmagns sem er framleitt með endurnýjanlegum orkugjöfum. Ef þörf er á skal framkvæmdastjórnin leggja fyrir Evrópuþingið og ráðið tillögu um setningu sameiginlegra reglna í þessu tilliti.

6. gr.
Stjórnsýslumeðferð

1.     Aðildarríkin eða þar til bærar stofnanir, sem aðildarríkin tilnefna, skulu meta fyrirliggjandi laga- og regluramma með tilliti til málsmeðferðar við leyfisveitingar eða annarrar málsmeðferðar, sem mælt er fyrir um í 4. gr. tilskipunar 96/92/EB, sem gildir um stöðvar sem framleiða rafmagn með endurnýjanlegum orkugjöfum, í því skyni:
—    að fækka hindrunum í lögum og öðrum hindrunum, sem eru í vegi fyrir aukinni framleiðslu rafmagns með endurnýjanlegum orkugjöfum,
—    að einfalda og hraða málsmeðferð á viðeigandi stjórnsýslustigi og
—    að sjá til þess að reglur séu hlutlægar, gagnsæjar og án mismununar og að öllu leyti í samræmi við þá sérstöku eiginleika þeirrar mismunandi tækni sem er notuð í tengslum við endurnýjanlega orkugjafa.
2.     Eigi síðar en 27. október 2003 skulu aðildarríkin birta skýrslu um matið, sem um getur í 1. mgr., þar sem tilgreint er, eftir því sem við á, hvaða ráðstafanir hafa verið gerðar. Tilgangurinn með þeirri skýrslu er að veita, ef við á með skírskotun til innlendrar löggjafar, upplýsingar um þær framfarir sem hafa orðið, einkum að því er varðar:
—    samræmingu hinna ýmsu stjórnsýslustofnana á fresti, viðtöku og meðhöndlun leyfisumsókna,
—    möguleikann á samningu viðmiðunarreglna um þá starfsemi, sem um getur í 1. mgr., og möguleikann á flýtimeðferð fyrir framleiðendur rafmagns frá endurnýjanlegum orkugjöfum og
—    tilnefningu yfirvalda sem gegna hlutverki sáttasemjara í deilum milli leyfisveitingayfirvalda og leyfisumsækjenda.
3.     Í skýrslunni, sem um getur í 8. gr., skal framkvæmdastjórnin, á grundvelli þeirra skýrslna frá aðildarríkjunum sem um getur í 2. mgr. þessarar greinar, meta hvaða aðferðir henta best til þess að ná markmiðunum sem um getur í 1. mgr.

7. gr.
Álitsefni varðandi veitukerfið

1.     Án þess að það hafi áhrif á áreiðanleika og öryggi veitukerfisins skulu aðildarríkin gera nauðsynlegar ráðstafanir til að tryggja að fyrirtæki, sem reka flutnings- og dreifikerfi á yfirráðasvæði sínu, ábyrgist flutning og dreifingu rafmagns sem er framleitt með endurnýjanlegum orkugjöfum. Þau geta einnig sett rafmagn, sem er framleitt með endurnýjanlegum orkugjöfum, í forgang með tilliti til aðgangs að veitukerfinu. Þegar fyrirtæki, sem reka flutningskerfi, afhenda búnað til orkuframleiðslu skulu þau láta orkuframleiðendur, sem nota endurnýjanlega orkugjafa, hafa forgang að því marki sem rekstur innlendra raforkukerfa leyfir.
2.     Aðildarríkin skulu taka upp lagaramma eða skylda fyrirtæki, sem reka flutnings- og dreifikerfi, til að semja og birta staðlaðar reglur um það hver skuli standa undir kostnaði af tæknilegum aðlögunum á borð við tengingar við veitukerfið og styrkingu veitukerfisins, sem eru nauðsynlegar til að tengja nýja framleiðendur sem veita rafmagni, framleiddu með endurnýjanlegum orkugjöfum, við samtengda veitukerfið.
Reglurnar skulu byggjast á viðmiðunum, sem eru hlutlægar, gagnsæjar og án mismununar, og taka skal sérstakt tillit til alls kostnaðar og ávinnings af því að tengja framleiðendur við netið. Með reglunum geta opnast möguleikar á mismunandi tegundum tenginga.
3.     Ef við á geta aðildarríkin skyldað fyrirtæki, sem reka flutnings- og dreifikerfi, til að standa undir kostnaðinum, sem um getur í 2. mgr., að öllu leyti eða að hluta.
4.     Fyrirtækjum, sem reka flutnings- og dreifikerfi, er skylt að sjá nýjum framleiðenda, sem óskar eftir tengingu við veitukerfið, fyrir tæmandi og sundurliðuðu mati á því hvað tengingin muni kosta. Aðildarríkin geta leyft framleiðendum rafmagns frá endurnýjanlegum orkugjöfum, sem óska eftir að tengjast veitukerfinu, að bjóða út vinnu við tenginguna.
5.     Aðildarríkin skulu taka upp lagaramma eða skylda fyrirtæki, sem reka flutnings- og dreifikerfi, til þess að semja og birta staðlaðar reglur um skiptingu kostnaðar af kerfisuppsetningu á borð við tengingu við veitukerfið og styrkingu veitukerfisins milli allra framleiðenda sem hafa ávinning af uppsetningunni.
Við kostnaðarskiptinguna skal styðjast við kerfi sem byggist á viðmiðunum, sem eru hlutlægar, gagnsæjar og án mismununar, að teknu tilliti til þess ávinnings sem bæði framleiðendur með upphaflega og síðar tilkomna tengingu, auk fyrirtækja, sem reka flutnings- og dreifikerfi, hafa af tengingunum.
6.     Aðildarríkin skulu sjá til þess að innheimta flutnings- og dreifingargjalda leiði ekki af sér mismunun að því er varðar rafmagn frá endurnýjanlegum orkugjöfum, einkum rafmagn frá endurnýjanlegum orkugjöfum sem er framleitt á jaðarsvæðum, s.s. eyjum og strjálbýlum svæðum.
Ef við á skulu aðildarríkin taka upp lagaramma eða skylda fyrirtæki, sem reka flutnings- og dreifikerfi, til að tryggja að gjöld fyrir flutning og dreifingu á rafmagni frá orkuverum, sem nota endurnýjanlega orkugjafa, endurspegli þann kostnaðarábata sem getur leitt af tengingu orkuversins við veitukerfið. Bein notkun lágspennuveitukerfisins gæti skapað slíkan kostnaðarábata.
7.     Í skýrslunni, sem um getur í 2. mgr. 6. gr., skulu aðildarríkin einnig fjalla um hvaða ráðstafanir skuli gera til að auðvelda aðgang rafmagns, sem er framleitt með endurnýjanlegum orkugjöfum, að veitukerfinu. Í skýrslunni skal m.a. kanna hversu hagkvæmt það er að taka upp tvíátta mælingu.

8. gr.
Yfirlitsskýrsla

Á grundvelli skýrslna aðildarríkjanna skv. 3. mgr. 3. gr. og 2. mgr. 6. gr. skal framkvæmdastjórnin, eigi síðar en 31. desember 2005 og á fimm ára fresti þaðan í frá, leggja fyrir Evrópuþingið og ráðið yfirlitsskýrslu um framkvæmd þessarar tilskipunar.
Í skýrslunni skal:
—    meta árangurinn með tilliti til ytri kostnaðar af rafmagni, sem er framleitt með endurnýjanlegum orkugjöfum, svo og áhrifa af opinberum stuðningi við framleiðslu rafmagns,
—    taka tillit til möguleika aðildarríkjanna á að ná þeim innlendu, leiðbeinandi markmiðum, sem sett eru í 2. mgr. 3. gr., og hinu sameiginlega, leiðbeinandi markmiði, sem um getur í 4. mgr. 3. gr., og hugsanlegrar mismununar milli mismunandi orkugjafa.
Ef við á skal framkvæmdastjórnin leggja skýrslu með frekari tillögum fyrir Evrópuþingið og ráðið.

9. gr.
Lögleiðing

Aðildarríkin skulu samþykkja nauðsynleg lög og stjórnsýslufyrirmæli til að fara að tilskipun þessari eigi síðar en 27. október 2003. Þau skulu tilkynna það framkvæmdastjórninni þegar í stað.
Þegar aðildarríkin samþykkja þessar ráðstafanir skal vera í þeim tilvísun í þessa tilskipun eða þeim fylgja slík tilvísun þegar þær eru birtar opinberlega. Aðildarríkin skulu setja nánari reglur um slíka tilvísun.

10. gr.
Gildistaka

Tilskipun þessi öðlast gildi á þeim degi sem hún birtist í Stjórnartíðindum Evrópubandalaganna.

11. gr.
Viðtakendur

Tilskipun þessari er beint til aðildarríkjanna.

Gjört í Brussel 27. september 2001.
Fyrir hönd Evrópuþingsins, Fyrir hönd ráðsins,
N. FONTAINE C. PICQUÉ
forseti. forseti.

VIÐAUKI

Viðmiðunargildi fyrir innlend, leiðbeinandi markmið aðildarríkjanna um hlutfall rafmagns, sem er framleitt með endurnýjanlegum orkugjöfum, til heildarrafmagnsnotkunar fyrir árslok 2010 (*)

Í þessum viðauka eru tilgreind viðmiðunargildi fyrir setningu innlendra, leiðbeinandi markmiða um rafmagn, sem er framleitt með endurnýjanlegum orkugjöfum, eins og um getur í 2. mgr. 3. gr.:
Rafmagn, framleitt með endurnýjanlegum orkugjöfum TWh 1997 (**) Hundraðshluti rafmagns, framleitt með endurnýjanlegum orkugjöfum 1997 (***) Hundraðshluti rafmagns, framleitt með endurnýjanlegum orkugjöfum 2010 (***)
Belgía 0,86 1,1 6
Danmörk 3,21 8,7 29
Þýskaland 24,91 4,5 12,5
Grikkland 3,94 8,6 20,1
Spánn 37,15 19,9 29,4
Frakkland 66 15 21
Írland 0,84 3,6 13,2
Ítalía 46,46 16 25,0 (1)
Lúxemborg 0,14 2,1 5,7 (2)
Holland 3,45 3,5 9
Austurríki 39,05 70 78,1 (3)
Portúgal 14,3 38,5 39,0 (4)
Finnland 19,03 24,7 31,5 (5)
Svíþjóð 72,03 49,1 60,0 (6)
Breska konungsríkið 7,04 1,7 10
Bandalagið 338,41 13,90% 22% (****)
(*)         Þegar tekið er tillit til viðmiðunargildanna, sem sett eru fram í þessum viðauka, ganga aðildarríkin út frá þeirri nauðsynlegu forsendu að með viðmiðunarreglum um ríkisaðstoð við umhverfisvernd sé kleift að hafa innlend stuðningskerfi til að auka framleiðslu rafmagns með endurnýjanlegum orkugjöfum.
(**)     Gögn um innlenda framleiðslu rafmagns með endurnýjanlegum orkugjöfum árið 1997.
(***)     Hundraðshluti þess rafmagns, sem er framleitt með endurnýjanlegum orkugjöfum árin 1997 og 2010, byggist á innlendri framleiðslu rafmagns með endurnýjanlegum orkugjöfum, deilt með heildarrafmagnsnotkun innanlands. Að því er varðar innanríkisviðskipti með rafmagn, sem er framleitt með endurnýjanlegum orkugjöfum (með viðurkenndri vottun eða staðfestum uppruna), mun útreikningur á þessu hlutfalli hafa áhrif á tölur einstakra aðildarríkja fyrir árið 2010 en ekki á heildartölu Bandalagsins.
(****)     Námunduð tala sem leiðir af framangreindum viðmiðunargildum.
(1)     Ítalía lítur svo á að 22% sé raunhæf tala út frá þeirri forsendu að heildarrafmagnsnotkun innanlands árið 2010 verði 340 TWh.
    Þegar tekið er tillit til viðmiðunargildanna, sem eru sett fram í þessum viðauka, gerir Ítalía ráð fyrir því að innlend rafmagnsframleiðsla með endurnýjanlegum orkugjöfum muni ná allt að 76 TWh árið 2010. Í þeirri tölu er reiknað með ólífbrjótanlegum þætti iðnaðarúrgangs og húsasorps sem er notaður í samræmi við löggjöf Bandalagsins um meðhöndlun úrgangs.
    Hvort því leiðbeinandi markmiði, sem um getur í þessum viðauka, verður náð er að þessu leyti m.a. skilyrt af því hve mikil eftirspurnin eftir rafmagni verður árið 2010.
(2)     Með tilliti til leiðbeinandi viðmiðunargilda, sem eru sett fram í þessum viðauka, lítur Lúxemborg svo á að markmiðið fyrir 2010 náist því aðeins:
    —    að heildarrafmagnsnotkun á árinu 2010 sé ekki meiri en árið 1997,
    —    að hægt sé að margfalda rafmagn, sem er framleitt með vindorku, með stuðlinum 15,
    —    að hægt sé að margfalda rafmagn, sem er framleitt með lífgasi, með stuðlinum 208,
    —    að hægt sé að taka með í reikninginn að öllu leyti rafmagn, sem er framleitt í einu brennslustöðinni fyrir húsasorp í Lúxemborg, sem var helmingur þess rafmagns sem var framleitt með endurnýjanlegum orkugjöfum árið 1997,
    —    að hægt sé að auka rafmagn, sem er framleitt með sólarorku, í 80 GWh og að innan tiltekins tíma sé hægt að ná því fram sem er tilgreint í þessum liðum.
    Þar sem ekki eru neinar náttúruauðlindir verður ekki frekari aukning á rafmagni sem er framleitt í vatnsorkuverum.
(3)    Austurríki lítur svo á að 78,1% sé raunhæf tala út frá þeirri forsendu að heildarrafmagnsnotkun innanlands árið 2010 verði 56,1 TWh. Þar eð framleiðsla rafmagns með endurnýjanlegum orkugjöfum er að miklu leyti háð vatnsorku og þar af leiðandi úrkomu hvers árs skal reikna tölurnar fyrir árin 1997 og 2010 út frá langtímalíkani sem byggist á vatnafars- og veðurskilyrðum.
(4)    Portúgal lítur svo á með tilliti til viðmiðunargildanna, sem eru sett fram í þessum viðauka, að forsendur þess að halda þeim hluta rafmagns, sem var framleitt með endurnýjanlegum orkugjöfum árið 1997, sem leiðbeinandi markmiði fyrir árið 2010 séu:
    —    að hægt verði að halda áfram innlendu rafmagnsáætluninni með því að reisa ný vatnsorkuver með meiri afköstum en 10 MW,
    —    að framleiðsluafköst með öðrum endurnýjanlegum orkugjöfum, sem aðeins eru möguleg með ríkisaðstoð, aukist átta sinnum meira á ári en verið hefur undanfarið.
    Þessar forsendur fela í sér að framleiðsla rafmagns með nýjum, endurnýjanlegum orkugjöfum, að frátöldum stórum vatnsorkuverum, aukist tvisvar sinnum meira en heildarnotkun innanlands.
(5)    Í finnsku aðgerðaáætluninni um endurnýjanlega orkugjafa eru sett markmið um þann fjölda endurnýjanlegra orkugjafa sem verða notaðir árið 2010. Þessi markmið voru sett á grundvelli umfangsmikilla bakgrunnsrannsókna. Aðgerðaáætlunin var samþykkt í ríkisstjórninni í október 1999.
    Samkvæmt finnsku aðgerðaáætluninni verður hluti rafmagns, sem er framleitt með endurnýjanlegum orkugjöfum, 31% árið 2010. Þetta leiðbeinandi markmið er afar metnaðarfullt og þörf er á umfangsmiklum ráðstöfunum því til eflingar í Finnlandi til að því verði náð.
(6)    Þegar tekið er tillit til viðmiðunargildanna, sem eru sett fram í þessum viðauka, veitir Svíþjóð því athygli að möguleikinn á að ná markmiðinu er að miklu leyti háður loftslagsþáttum, sem hafa mjög mikil áhrif á vatnsorkuframleiðsluna, einkum breytingar á úrkomu, úrkomudreifingu yfir árið og aðstreymi vatns. Það getur verið mjög sveiflukennt hversu mikið rafmagn er framleitt með vatnsorku. Á miklum þurrkaárum getur framleiðslan verið 51 TWh en farið upp í 78 TWh á rigningarárum. Töluna fyrir árið 1997 ber því að reikna út frá langtímalíkani, byggðu á vísindalegum staðreyndum um vatnafars- og loftslagsbreytingar.
    Í löndum með mikla vatnsorkuframleiðslu er algengt að beita aðferð sem styðst við hagtölur um aðstreymi, sem ná yfir 30 til 60 ára tímabil. Samkvæmt sænskum aðferðum og á grundvelli ríkjandi skilyrða á árunum 1950–1999, með leiðréttingu með tilliti til breytinga á samanlagðri vatnsorkuframleiðslu og -aðstreymi á tímabilinu, fer meðalvatnsorkuframleiðslan í 64 TWh, sem samsvarar 46% árið 1997, og því telur Svíþjóð að 52% sé raunhæfari tala fyrir árið 2010 í þessu tilliti.
    Möguleikar Svíþjóðar á að ná markmiðinu takmarkast enn fremur af því að ár, sem eru enn ónýttar, eru verndaðar með lögum.
    Þar að auki eru möguleikar Svíþjóðar á að ná markmiðinu að miklu leyti skilyrtir af:
    —    aukningu í varmaorku- og orkuframleiðslu í hlutfalli við þéttleika byggðar, eftirspurn eftir hita og tækniþróun, einkum eftir gösun á suðuvökva (black liquor) og
    —    leyfi fyrir vindorkuverum í samræmi við innlend lög, samþykki almennings, tækniþróun og eflingu netkerfa.
Neðanmálsgrein: 1
(1)    Stjtíð. ESB L 198, 28.7.2005, bls. 45 og EES-viðbætir við Stjtíð. ESB nr. 38, 28.7.2005, bls. 26.
Neðanmálsgrein: 2
(2)    Stjtíð. EB L 283, 27.10.2001, bls. 33. Tilskipuninni var breytt með aðildarlögunum frá 2003.
Neðanmálsgrein: 3
(*)    Stjórnskipuleg skilyrði gefin til kynna.
Neðanmálsgrein: 4
(1)    Stjtíð. EB C 311 E, 31.10.2000, bls. 320 og Stjtíð. EB C 154 E, 29.5.2001, bls. 89.
Neðanmálsgrein: 5
(2)    Stjtíð. EB C 367, 20.12.2000, bls. 5.
Neðanmálsgrein: 6
(3)    Stjtíð. EB C 22, 24.1.2001, bls. 27.
Neðanmálsgrein: 7
(4)    Álit Evrópuþingsins frá 16. nóvember 2000 (Stjtíð. EB C 223, 8.8.2001, bls. 294), sameiginleg afstaða ráðsins frá 23. mars 2001 (Stjtíð. EB C 142, 15.5.2001, bls. 5) og ákvörðun Evrópuþingsins frá 4. júlí 2001 (hefur enn ekki verið birt í Stjórnartíðindum ESB). Ákvörðun ráðsins frá 7. september 2001.
Neðanmálsgrein: 8
(5)    Stjtíð. EB C 198, 24.6.1998, bls. 1.
Neðanmálsgrein: 9
(6)    Stjtíð. EB C 210, 6.7.1998, bls. 215.
Neðanmálsgrein: 10
(7)    Stjtíð. EB C 210, 6.7.1998, bls. 143.
Neðanmálsgrein: 11
(8)    Stjtíð. EB C 378, 29.12.2000, bls. 89.
Neðanmálsgrein: 12
(1)    Stjtíð. EB L 194, 25.7.1975, bls. 39. Tilskipuninni var síðast breytt með ákvörðun framkvæmdastjórnarinnar 96/350/EB (Stjtíð. EB L 135, 6.6.1996, bls. 32).
Neðanmálsgrein: 13
(2)    Stjtíð. EB C 37, 3.2.2001, bls. 3.
Neðanmálsgrein: 14
(1)    Stjtíð. EB L 27, 30.1.1997, bls. 20.